Athugasemd formanns vegna opins bréfs frá Sr. Hirti Magna

By 20. febrúar, 2009Uncategorized

Sá árangur sem hefur náðst í mannréttindabaráttu homma og lesbía á undanförnum 30 árum er mörgum að þakka. Mannréttindaverðlaun Samtakanna ’78 er viðleitni félagsins til að þakka fyrir framlag í þágu jafnréttis og mannréttinda. Það eru fjölmargir sem eiga skilið að hljóta slíka viðurkenningu og má þar nefna Fríkirkjuna í Reykjavík sem hefur með afgerandi hætti beitt sér fyrir jöfnum réttindum samkynhneigðra og gagnkynhneigðra eins og Hjörtur Magni bendir á í bréfi sínu. 

Verðlaunin hafa hinsvegar aðeins verið afhent í tvígang á afmælishátíð félagsins 2007 og 2008. Verðlaunin sem eru hugsuð sem viðurkenning fyrir eftirtektarvert framlag í þágu jafnréttis og mannréttinda eru veitt einum einstakling fyrir starf sitt innan Samtakanna 78, einstakling utan Samtakanna 78 og stofnun, opinberum aðila eða fyrirtæki.

Þann 27. júní 2008 fögnuðum við 30 ára afmæli Samtakanna ’78. Þennan dag tóku einnig í gildi lög sem heimiluðu forstöðumönnum trúfélaga að staðfesta samvist samkynhneigðra og fögnuðum við þeim áfanga einnig.  Þennan dag voru mannréttindaverðlaun félagsins veitt í annað sinn en þau hlutu Böðvar Björnsson fyrir starf sitt innan Samtakanna ‘78, Sr. Bjarni Karlsson fyrir starf einstaklings utan Samtakanna ‘78 og Siðmennt og voru verðlaunahafar allir vel að þeim komin.  Með því að veita Sr. Bjarna Karlsyni verðlaun var verið að þakka honum persónulega fyrir sín störf en ekki þjóðkirkjunni. Það að aðrir hafi ekki hlotið viðurkenningu félagsins felur ekki í sér útilokun eða afneitun af neinu tagi. 

Á vef Samtakanna ’78 er að finna greinasafn undir yfirskriftinni ‘Samkynhneigð og kristin trú’. Þar eru fjölmargar greinar um samkynhneigð og trú frá ýmsum sjónarhornum eftir einstaklinga sem hafa mismunandi skoðanir og sýn á viðfangsefninu. Greinarnar eru birtar að ósk höfunda og endurspegla ekki nauðsynlega afstöðu félagsins til trúmála en eru fyrst og fremst skoðanir höfunda. Það er ekki hlutverk Samtakanna ’78 að taka afstöðu til trúfélaga og það hefur félagið heldur ekki gert. Samtökin ’78 eru ekki og hafa aldrei hampað einu trúfélagi umfram annað. Félagið hefur hinsvegar aldrei legið á gagnrýni sinni sé að félaginu vegið og sjálfsögðum mannréttindum homma og lesbía og hefur þjóðkirkjan ekki farið varhluta af þeirri gagnrýni. Gagnrýni félagsins er m.a. að finna á vef Samtakanna ’78 (www.samtokin78.is), í greinum sem hafa verið birtar í Fréttabréfi Samtakanna ’78 (t.d. apríl 2007, maí 2008) og í afmælisriti félagsins sem kom út á afmælisárinu.

Fjölmargir starfshópar starfa á vettvangi Samtakanna ’78. Trúarhópurinn ÁST er einn þeirra. Hópurinn er á ekki málsvari félagsins hvað varðar afstöðu til trúmála og er fyrst og fremst félagsskapur áhugafólks um trúmál.

Það er miður ef Hjörtur Magni upplifir afneitun eða útilokun af hálfu Samtakanna ’78 enda alls ekki ætlunin að senda honum slík skilaboð. Hjörtur hefur reynst Samtökunum ‘78 vel í baráttu okkar fyrir mannréttindum og jafnræði. Við gerum okkur grein fyrir að við þurfum að gera betur í því að hrósa og þakka fyrir mikilsvert framlag í þágu mannréttindabaráttu okkar. Mannréttindaverðlaun Samtakanna ’78 er viðleitni í að gera betur enda margir sem eiga þakkir skilið fyrir sitt framlag.

Frosti Jónsson
Formaður Samtakanna ’78

50 Comments

Skrifaðu athugasemd