STAÐA LESBÍA OG HOMMA Í FÆREYJUM RÆDD Á NORÐURLANDARÁÐSÞINGI

By 1. nóvember, 2006Fréttir

Heitar umræður hafa verið á þingi Norðurlandaráðs í morgun, en þær hófust með því að Rannveig Guðmundsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, gagnrýndi Færeyinga fyrir að gæta ekki nægjanlega að réttindum samkynhneigðra. “Ég kom með spurningu varðandi þetta og samstarfsráðherrann, Jógvan á Lakjuni, brást satt best að segja hinn versti við. Hann vildi meina að þetta væri óvirðing í garð Færeyinga og að þeir hefðu leyfi til að hafa sína samfélagsgerð,” segir Rannveig.

Heitar umræður hafa verið á þingi Norðurlandaráðs í morgun, en þær hófust með því að Rannveig Guðmundsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, gagnrýndi Færeyinga fyrir að gæta ekki nægjanlega að réttindum samkynhneigðra. „Ég kom með spurningu varðandi þetta og samstarfsráðherrann [Jógvan á Lakjuni] brást satt best að segja hinn versti við. Hann vildi meina að þetta væri óvirðing í garð Færeyinga og að þeir hefðu leyfi til að hafa sína samfélagsgerð,“ segir Rannveig.

„Það hafa verið uppákomur í Færeyjum vegna þess að það hefur verið ráðist á samkynhneigða einstaklinga í Færeyjum, meðal annars þekktan söngvara. Fréttir af þessu hafa verið áberandi á norrænum vettvangi og Færeyingarnir hafa verið að taka fyrir tillögu á sínu lögþingi um að banna mismunun fólks vegna trúar, hörundslitar og svo framvegis. Það hefur verið reynt að fá orðið „kynhneigð“ þar inn líka, en það hefur verið fellt, fyrst árið 1988 og svo núna árið 2005 þegar það var fellt með 20 atkvæðum gegn 12,“ segir Rannveig.

„Í skjóli þessa hefur ákveðin fordæming verið í gangi og lögreglan hefur meira að segja leyft sér að segja í fjölmiðlum að hún geti ekki varið samkynhneigða þegar þeir verða fyrir árásum af því að þeir hafi enga stoð í lögum til að skipta sér af, öðruvísi en bara af almennum slagsmálum.“

„Fyrir 20 til 25 árum voru menn í felum vegna kynhneigðar sinnar á Íslandi og fluttu gjarnan af landi brott vegna þess að réttarstaða þeirra var ekki tryggð. Þá fóru skandinavískir ráðherrar upp á Norðurlandaráðsþingi til að spyrja hvað Íslendingar ætluðu að gera varðandi þessi réttindi, þeir spurðu hvernig stæði á því að Íslendingar hefðu ekki tryggt samkynhneigðum búsetuskilyrði.“

„Ég er mjög upptekin af mannréttindum og mér finnst norræna módelið afar eftirtektarvert,“ segir Rannveig og bætir því við að hún telji stöðuna í Færeyjum brjóta í bága við hið norræna samfélag.

„Ég benti á að ég væri að gera það sama og gert var gagnvart Íslendingum á sínum tíma og að þetta snérist um mannréttindi og ekkert annað. Hann hélt áfram að vera reiður og það varð til þess að fleiri þingmenn fóru að blanda sér í málið þannig að í spurningatímanum er hann búinn að fá margar óþægilegar spurningar.“

„Ég vona að þetta verði ekki bara túlkað sem eitthvað upphlaup á Norðurlandaráðsþingi heldur að sú umræða sem hér fór fram um grundvallar mannréttindi verði til þess að Færeyingarnir afgreiði tillöguna sem liggur aftur fyrir þinginu núna öðruvísi en árið 2005.“

-Af mbl.is

Skrifaðu athugasemd