VERNDARVÆTTIRNAR – 2

By 14. júní, 2007Fréttir

Verndarvættirnar eru nýstofnaður samstarfsvettvangur félaga í Amnesty International og Samtökunum ’78 um aðgerðir í málefnum er varða mannréttindi samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transgender fólks.

Þrátt fyrir að fólk sem tilheyri þessum hópum á Íslandi búi almennt við frekar góða stöðu í nútímanum þá eiga þessir hópar verulega undir högg að sækja í daglegu lífi víða um heim. Má þar nefna mismunun af ýmsu tagi, ofbeldi og jafnvel hatursmorð. Svo rammt kveður að misréttinu að í mörgum tilfellum eru það jafnvel stjórnvöld hinna ýmsu ríkja sem standa beint eða óbeint fyrir meiriháttar mannréttindabrotum, þar á meðal fangelsunum, ofbeldi, pyntingum og jafnvel aftökum.

 

Þess vegna er aðaláhersla Verndarvættanna á aðgerðir í alþjóðlegu samhengi til að sporna við þessum glæpum. Í því augnamiði mun hópurinn fylgjast með mannréttindabrotum og beita sér, bæði í eigin nafni sem og þeirra samtaka sem að baki standa, þegar við á. Einnig er meiningin að ná til íslenskra stjórnvalda og brýna þau og hvetja til aðgerða á alþjóðavettvangi.

 

Starfið er nýlega farið af stað og því enn í mótun, en þessa dagana fer mesta púðrið í undirbúning vegna þátttöku hópsins í Hinsegin dögum í sumar og aðgerða í Gleðigöngunni. Nú er því kjörið tækifæri fyrir alla sem vettlingi geta valdið að slást í hópinn, taka þátt í skemmtilegu starfi, hafa áhrif og leggja sitt lóð á vogarskálar bættra mannréttinda og betri heims.

 

Næsti fundur Verndarvættanna er kl.20.30, mánudagskvöldið 18.júní 2007, í húsakynnum Samtakanna ’78. Einnig er hægt að nálgast frekari upplýsingar hjá Hilmari Magnússyni meðstjórnanda/alþjóðafulltrúa í stjórn Samtakanna ’78 í netfanginu: hilmar.magnusson@hotmail.com.

 

-Verndarvættirnar

Skrifaðu athugasemd