Samtökin ’78 hafa á undanförnum 30 árum unnið ötullega að því að rjúfa þögnina og skapa hinsegin fólki vettvang þar sem virðing er borin fyrir margbreytileikanum. Virðing fyrir því að hommar, lesbíur, tvíkynhneigðir og transgender fólk fái að vera til á sínum eigin forsendum en ekki á forsendum annarra.
Það að fólki sé sýnd virðing án þess að spurt sé um stétt, stöðu, trú eða kynhneigð á að vera einn af hornsteinum samfélagsins sem við búum í. Virðing fyrir fjölbreytileikanum og fyrir því að við þurfum ekki öll að vera eins.
Á þrjátíu árum hefur lagalegri mismunum gagnvart samkynhneigðum verið rutt úr vegi einni af annarri. Árið 1996 tóku lögin um staðfesta samvist gildi og árið 2006 er okkur í fersku minni þegar enn einum áfanganum var náð og samkynhneigð pör öðluðust sömu réttindi og gangkynhneigðir svo sem varðandi almannatryggingar, lífeyrismál, skattamál, erfðamál auk þess sem réttindi samkynhneigðra para í staðfestri samvist til að ættleiða börn varð að öllu leyti sá sami og gagnkynhneigðra para. Í júní á síðasta ári fögnuðum við 30 ára afmæli félagsins og einnig því að ný lög heimiluðu vígslumönnum trúfélaga að staðfesta samvist.
Það er rökrétt og eðlilegt framhald að afnema lögin um staðfesta samvist og sameina hjúskaparlöggjöfina í eina. Þá er brýnt að leiðrétta veika lagalega stöðu transgender fólks á Íslandi en þar erum við eftirbátar nágrannaþjóða okkar. Við þurfum líka að gæta þess að það fólk sem flyst til Íslands frá löndum þar sem félagsleg- og lagaleg staða hinsegin fólks er afar veik verði ekki þögninni að bráð.
Hinsegin fólk er ekki einsleitur hópur. Með sýnileikanum hafa staðalmyndirnar vikið fyrir veruleikanum eins og hann er, eins og við erum. Fyrir rúmum 30 árum eða um það leyti sem Samtökin ’78 urðu til áttu íslenskir hommar og lesbíur sér enga rödd. Fjölskyldur samkynhneigðra voru ekki til, börn samkynhneigðra ósýnileg og fordómar í garð samkynhneigðra viðvarandi. Það eru tímar sem við viljum ekki upplifa aftur.
Við sköpum það samfélag sem við búum í og það er undir okkur komið að skapa hinsegin fólki þá tilveru sem við kjósum. Framlag hvers og eins er mikilvægt og þar skiptir stuðningur við félagið okkar öllu máli í stóru sem smáu.
Frosti Jónsson.
Áður birt í ársskýrslu Samtakanna '78 2008-2009
The next time I read a blog, I hope that it doesnt disappoint me as much as this one. I mean, I know it was my choice to read, but I actually thought youd have something interesting to say. All I hear is a bunch of whining about something that you could fix if you werent too busy looking for attention.