Með lögum um breytingu á lagaákvæðum er varða réttarstöðu samkynhneigðra (sambúð, ættleiðingar, tæknifrjóvgun) frá 2006 náðist fram mikil réttarbót fyrir samkynhneigða foreldra. Voru þar m.a. lögfestar reglur um foreldri barns tveggja kvenna sem getið er með tæknifrjóvgun. Þrátt fyrir skýrar reglur í þeim efnum hafa samkynhneigðir foreldrar hins vegar ekki getað aflað sér fæðingarvottorða frá Þjóðskrá sem endurspegla lögbundið foreldri barnsins. Þjóðskrá hefur nú bætt úr þessu og tekið í gagnið ný form fæðingarvottorða sem eru í samræmi við 2. mgr. 6. gr. barnalaga nr. 76/2003. Þá hefur stofnunin sett sér það markmið að einfalda alla ferla í þessum efnum t.d. þannig að samkynhneigðir foreldra þurfi ekki að afla sérstakra vottorða um tæknifrjóvgun.
Þessi lausn er tilkomin vegna kröfu Páls Rúnars M. Kristjánsson lögmanns tveggja kvenna sem sóttu það að fá fæðingarvottorð fyrir dóttur sína sem væri gefið út með lögmætum hætti. Var það krafa þeirra að beggja kvennanna væri getið á fæðingarvottorði barns þeirra og þar kæmi ekki fram að faðir barnsins væri óþekktur eins og tíðkast hafði. Benti lögmaðurinn á að hér væri um að ræða kröfu um almennt jafnræði þar sem framkvæmd gagnvart gagnkynhneigðum einstaklingum í sömu stöðu væri með þeim hætti.
Þessi niðurstaða Þjóðskrár er ákveðin framför í réttindabaráttu samkynhneigðra foreldra. Hins vegar er ljóst að réttindabaráttunni er hvergi lokið. Það er enn svo að samkynhneigðir foreldrar þurfa að búa við annan og lakari rétt en aðrir foreldrar í sömu eða sambærilegri stöðu. Í þessum efnum er það dropinn sem holar steininn og því mikilvægt að aðilar hreyfi andmælum þegar á þeim er brotið og leyti réttar síns.