Bandaríkin – Tekist á um staðfesta samvist – Bush vill stjórnarskrárbreytingu

By 23. janúar, 2004Fréttir

Frettir Samkvæmt nýrri skoðanakönnun sem Washington Post og ABC fréttastofan létu gera er meirihluti Bandaríkjamanna andvígur því að breytingar verði gerðar á stjórnaskrá landsins til þess að koma í veg fyrir staðfesta samvist samkynhneigðra. Aðeins 38% styðja slíka breytingu en 58% telja að ákvörðun um lögleiðingu staðfestrar samvistar eigi að vera í höndum einstakra fylkja. Nokkur fylki hafa staðfest slík lög að undangengnum dómum sem kváðu það brot á stjórnarskránni að banna fólki af sama kyni að staðfesta samvistir sínar. Hins vegar kom jafnframt í ljós að meirihluti þjóðarinnar, eða rúmlega 55%, er alfarið á móti giftingum samkynhneigðra og 51% eru á móti allri viðurkenningu á slíkum samböndum. Þetta eru þó lægri tölur en oft áður hafa sést í sambærilegum könnunum.

Bush forseti lýsti því yfir í stefnuræðu sinni fyrr í vikunni að hann myndi gera allt sem í hans valdi stæði til þess að koma í veg fyrir að staðfest samvist yrði lögleidd í einstökum fylkjum: ?Ef dómarar halda áfram að neyða ósanngjörnum vilja sínum upp á þjóðina [þ.e staðfestri samvist] þá er eina úrræðið sem þjóðin hefur að breyta stjórnarskránni.?

Bush hafði áður lýst yfir efasemdum um að svo róttækar breytingar væru nauðsynlegar til þess að verja ?hið helga hjónaband? karls og konu. Það hefur líka vakið athygli í þessari umræðu allri að dóttir varaforsetans, Dick Cheney, er yfirlýst lesbía og hefur búið með konu sinni í mörg ár. Þrátt fyrir það hefur Cheney nú lýst yfir stuðningi við forsetann í þessu máli og með því í raun sagt að dóttir sín eigi ekki að njóta sömu mannréttinda og aðrir bandarískir þegnar. Íhaldssamir kristilegir hópar, sem standa forsetanum nærri, beittu miklum þrýstingi til þess að hann tæki af skarið í þessum efnum í stefnuræðunni. Mannréttindasamtök svo sem Human Rights Campaign hafa hins vegar lýst yfir andstöðu sinni og furðu.

?Við minnum forsetann á að Bandaríkjamenn eru andsnúnir því að nota æðsta plagg þjóðarinnar til þess að mismuna þegnum landsins. Bandaríkjamenn hafa áhyggjur af efnahagsmálum, heilbrigðiskerfinu og þjóðarörygginu. Forsetinn ætti að einbeita sér að því að sameina þjóðina en ekki sundra…Margir íhaldsmenn hafa talað gegn hugmyndum forsetans vegna þess að með þeim eru málefni fjölskyldunnar tekin af fylkjunum og sett yfir á alríkið? sagði Cheryl Jacques, formaður mannréttindahreyfingarinnar Human Rights Campaign.

Athyglisvert er að andstaðan við stjórnarskrárbreytinguna nær yfir öll Bandaríkin, líka Suðurríkin þar sem andstaða við réttindi samkynhneigðra er veruleg. Naumur meirihluti flokksfélaga forsetans eru einnig andsnúnir breytingunni. Mikil tengsl eru hins vegar á milli stjórnmálaskoðanna og þess hvort fólk styður staðfesta samvist samkynhneigðra. Rétt er þó að hafa í huga að réttindin sem staðfest samvist veitir í Bandaríkjunum stendur langt að baki löggjöfinni í Skandinavíu og Hollandi, sem að flestu leiti er ígildi hjónabands, þó svo að sama hugtakið sé notað. Könnunin var gerð dagana 15. ? 18. janúar.

Heimild: www.planetout.com

50 Comments

Skrifaðu athugasemd