Fréttatilkynning frá Samtökunum ´78 vegna dóms er féll í Héraðsdómi Vesturlands 9. febrúar síðastliðinn.

By 14. febrúar, 2012Fréttir

Reykjavík, 14. febrúar 2012

 

Mýtur eru eitt af því sem viðhalda fordómum. Mýta merkir goðsögn sem jafnvel heilt samfélag hefur búið til. Goðsögnin lifir svo sem sameign samfélagsins og þarf á engan hátt að endurspegla hið rétta. Margar mýtur hafa verið til sem viðhalda fordómum í garð samkynhneigðra.

Ein mýtan er sú að samkynhneigðir misnoti börn. Það er alvarleg, meiðandi og mjög svo skemmandi mýta sem er á engum rökum byggð. Langflestir barnaníðingar eru gagnkynhneigðir karlmenn. Karlmenn sem misnota drengi hafa oft taldir vera hommar en barnaníð og kynhneigð er ekki það sama og mjög varhugavert að rugla því saman. Kynferðislegur áhugi á börnum á ekkert sammerkt með samkynhneigð.

Undanfarið hefur nokkuð verið fjallað um dóm er féll í Héraðsdómi Vesturlands, 9. febrúar 2012 í máli nr. S-229/2011 þar sem karlmaður er sakfelldur fyrir vændiskaup á ólögráða barni. Þá hefur verið tekið fram að maðurinn sem dæmdur hefur verið sé samkynhneigður. Sú mikla athygli sem kynhneigð þessa manns hefur fengið í sambandi við þetta tiltekna mál gæti einmitt viðhaldið þeirri mýtu sem hér að ofan hefur verið nefnd. Fjalla ætti því frekar um málið óháð kynhneigð mannsins. Málið snýst um vændiskaup á ólögráða barni og þar með misnotkun á því barni. Málið hefur ekkert með kynhneigð að gera.

Samtökin ´78 árétta það að ekkert samband sé milli þess að gerast brotlegur við landslög og kynhneigðar. Það er einnig mjög varhugavert að tengja erfiðleika við að koma útúr skápnum við þá hegðun sem hér hefur verið dæmt fyrir. Sú hegðun á heldur ekkert sammerkt með vandkvæðum við að koma opinberlega fram sem samkynhneigður einstaklingur. Vissulega er það þekkt mál að mörgum reynast fyrstu skrefin erfið út úr skápnum og viljum við því minna á þau góðu úrræði sem í boði eru; Samtökin ´78 bjóða þeim sem þess óska fría ráðgjöf og stuðning hjá til þess menntuðu fólki.

Fyrir hönd Samtakanna ´78,

Árni Grétar Jóhannsson – Framkvæmdastjóri

Anna María Valdimarsdóttir – Sálfræðingur og stjórnarmeðlimur Samtakanna ´78

Skrifaðu athugasemd