Ályktun frá Samtökunum ´78

By 5. október, 2015Fréttir

Í ljósi hæstaréttar dóms þess efnis að vísa ætti tveimur hælisleitendum til Ítalíu sem féll föstudaginn 01.10.15 gefa Samtökin 78 frá sér eftirfarandi ályktun . Innanríkisráðherra hefur nýlega látið þau orð falla að ekki sé óhætt að senda hælisleitendur til Ítalíu og undrumst við því mjög að svo virðist sem vísa eigi þessum tveimur hælisleitendum aftur til Ítalíu þvert á yfirlýsingar Innanríkisráðherra.

Nánari upplýsingar veita:

  • Kitty Anderson, stjórn Samtakanna ´78  – 618-3425
  • Hilmar Hildarson Magnúsarson, formaður Samtakanna ´78    – 867-3919
  • ​​Auður Magndís Auðardóttir, framkvæmdastjóri Samtakanna ´78   – 868-6890​

 

Ályktun Samtakanna ´78

Samtökin ‘78 mótmæla harðlega dómi í máli samkynhneigðs hælisleitanda frá Nígeríu sem féll í Hæstarétti þann 1. október 2015. Í dómsorði segir að áfrýjaður dómur sem féll í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 3. febrúar sl. skuli standa óraskaður, sem þýðir að maðurinn verði sendur aftur til Ítalíu, þaðan sem hann kom til Íslands.

Samtökin ´78 harma þessa niðurstöðu íslensks réttarkerfis sem felur í sér að Íslendingar gætu borið ábyrgð á því að maðurinn verði að lokum sendur aftur til Nígeríu, þar sem löng fangelsisvist og jafnvel dauðarefsing liggur við samkynhneigð. Hinsegin fólk sætir að auki ýmiskonar ofsóknum í landinu, líkt og maðurinn sjálfur hefur upplifað.

Þess utan er undir núverandi kringumstæðum algjörlega óásættanlegt að senda nokkurn hælisleitanda aftur til Ítalíu. Vegna stóraukinna flutninga flóttafólks til Evrópu síðustu vikur og mánuði er nú verið að senda flóttafólk frá Ítalíu í tugþúsundavís, ekki til. Ofan á þetta bætist að Ítalía stendur sig illa í málefnum hinsegin hælisleitenda og hefur lengi gert.

Þá sagði innanríkisráðherra á Alþingi þann 17. september sl., í svari við fyrirspurn þingmannsins Steinunnar Þóru Árnadóttur, að Ítalía væri ekki öruggur áfangastaður fyrir hælisleitendur. Orðrétt sagði ráðherrann:

Það er rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni að Íslendingar senda ekki hælisleitendur til baka til Grikklands nú um stundir. Grikkland er ekki talið öruggt land. Það á einnig við um Ítalíu og Ungverjaland, þau eru til viðbótar ekki talin örugg lönd. Það er ekki óhætt að senda fólk til baka þangað.

Hælisumsókn viðkomandi hælisleitanda var hafnað á Ítalíu og hann dvaldi þar við erfiðar aðstæður í níu ár áður en hann kom til Íslands. Hér hefur hann verið í á fjórða ár og vill ekkert frekar en fá sér vinnu og hefja nýtt líf á Íslandi – eftir fimmtán ár á flótta.

Í þessu ljósi skora Samtökin ‘78 á innanríkisráðherra að standa við fyrri orð og beita sér fyrir því að viðkomandi hælisleitandi verði ekki sendur aftur til Ítalíu, frekar en aðrir.

Fyrir hönd Samtakanna ´78
Auður Magndís Auðardóttir

One Comment

Skrifaðu athugasemd