Kæru félagar,
Fyrir hönd nýkjörinnar stjórnar vil ég þakka öllum sem lögðu leið sína á sögulegan aðalfund í Þjóðleikhúskjallaranum á sunnudaginn fyrir viku. Er það eindregin ósk okkar að halda áfram samtali við þann stóra og fjölbreytta hóp sem tók þátt í þessum fundi.
Stjórnin hefur nú hafið störf og boðar hér með til félagsfundar sem haldinn verður þann 6. október næstkomandi kl. 20:00 í húsnæði félagsins að Suðurgötu 3. Á félagsfundinum verður starfsáætlun stjórnar kynnt og lagður grunnur að nefnda- og starfshópastarfi fyrir komandi mánuði. Neðar í þessu fréttabréfi er að finna upplýsingar um tillögur stjórnar í þeim efnum, en öllu félagsfólki er frjálst að leggja til nefndir og starfshópa og bjóða sig fram til setu í þeim.
Frá og með morgundeginum, 20. september, verða fastir viðtalstímar formanns Samtakanna ‘78 á þriðjudögum kl. 15:30-17:30 að Suðurgötu 3. Heitt á könnunni og öllum velkomið að líta við til skrafs og ráðagerða. Ég vonast til að sjá ykkur sem flest á komandi vikum og mánuðum.
Með góðri kveðju,
María Helga Guðmundsdóttir, formaður
Félagsfundur 6. okt kl. 20.00
Stjórn Samtakanna ‘78 hefur boðað til félagsfundar þann 6. október næstkomandi klukkan 20.00 á Suðurgötu 3.
Félagsfundurinn er liður í að svara kalli um virkt samtal milli stjórnar og félagsfólks. Á fundinum verður skipað í nefndir og starfshópa. Stjórn mun kynna starfsáætlun sína og fara yfir helstu markmið og verkefni næstu mánaða. Meðfylgjandi eru tillögur stjórnar að nokkrum starfshópum og nefndum. Sé fólk með hugmyndir að hópum/nefndum má gjarnan senda þær á netfangið stjornin@samtokin78.is.
Áhugasamt fólk getur boðið sig fram á fundinum eða sent póst á skrifstofa@samtokin78.is Stjórn óskar eftir framboðum í nefndir og starfshópa eins og hér segir:
Starfshópur um hinsegin eldri borgara
Starfshópur þessi mun á næstu mánuðum byrja að teikna upp þær áherslur sem S78 munu setja í málefnum er varða hinsegin eldri borgara. Nefndin skili af sér tillögum að aðgerðaráætlun á félagsfundi í lok janúar. Markmiðið er að leggja svo aðgerðaráætlunina fyrir aðalfund S78 í mars 2017.
Samstöðunefnd
Samstöðunefnd er ætlað að vinna með fulltrúum stjórnar og trúnaðarráðs í að efla samkennd og samstöðu félagsfólks og stuðla að aðkomu fjölbreyttrar flóru félaga að stefnumótun félagsins. Meðal verkefna nefndarinnar er gerð viðhorfskönnunar til félaga, úrvinnsla niðurstaðna úr könnuninni í gegnum virkt samráðsferli við félagsfólk, og undirbúningur þjóðþings hinsegin fólks á árinu 2017 í samvinnu við önnur hinsegin félög. Á þinginu muni niðurstöður ferlisins og könnunarinnar liggja til grundvallar.
Félagsmálanefnd
Félagsmálanefnd mun koma að skipulagningu opinna húsa á Suðurgötunni ásamt því að vinna að hinum ýmsu viðburðum innan félagsins, þar á meðal jólabingós og þrettándaballs. Félagsmálanefnd mun vinna náið með framkvæmdastjóra og trúnaðarráði.
Lagabreytinganefnd
Kallað er eftir tveimur til þremur áhugasömum einstaklingum til að bætast í hóp þeirra er sitja í lagabreytinganefnd. Nefndarinnar bíður það mikilvæga verkefni að hefja víðtækt samráðsferli með heildarendurskoðun laga Samtakanna ’78 að markmiði. Hér er um brautryðjendastarf að ræða sem getur haft áhrif á hinsegin baráttu hérlendis um ókomna tíð.
Stuðningshópur fyrir flóttafólk og hælisleitendur
Starfandi hefur verið starfshópur um málefni hinsegin flóttafólks og hælisleitenda. Sá hópur nær ekki að anna nema litlum hluta þess starfs sem hann vildi sinna. Leitað er eftir sjálfboðaliðum til að styðja við störf þess hóps, til dæmis með því að vera félagsvinir eða í öðrum stuðningshlutverkum.
Aðgengi fyrir hjólastóla er gott á Suðurgötunni, en séu einhverjar frekari óskir vegna aðgengismála má beina þeim á skrifstofa@samtokin78.is. Við hlökkum eindregið til að sjá sem flest ykkar. Sjoppan verður opin og heitt á könnunni!
Með kærri kveðju,
Stjórn Samtakanna ‘78
Can you be more specific about the content of your article? After reading it, I still have some doubts. Hope you can help me.