Kæra félagsfólk!
Aðalfundur Samtakanna ‘78 árið 2018 verður haldinn sunnudaginn 4. mars kl. 13:00 – 15:30 að Suðurgötu 3.
Rétt til fundarsetu hefur félagsfólk með gilt félagsskírteini. Hægt er að greiða félagsgjöld við innganginn fyrir nýja félaga en greiðsluseðlar hafa verið sendir til allra félaga Samtakanna. Hægt er að skrá sig sem félaga hér. Nýjum félagsskírteinum verður dreift á aðalfundinum en eftir aðalfund verður hægt að nálgast þau á skrifstofu Samtakanna.
Dagskrá fundarins
- Skipan fundarstjóra og fundarritara
- Lögmæti aðalfundar staðfest
- Skýrslur stjórnar, trúnaðarráðs, nefnda og starfshópa
- Áritaðir reikningar fyrra árs kynntir og bornir upp til samþykktar
- Fjárhagsáætlun ársins lögð fram
- Laga- og stefnuskrárbreytingar
- Kjör formanns til eins árs
- Kjör þriggja einstaklinga í stjórn til tveggja ára
- Kjör þriggja einstaklinga í stjórn til eins árs
- Kjör tíu einstaklinga í trúnaðarráð til eins árs
- Kjör tveggja skoðunarmanna reikninga til eins árs
- Önnur mál
Lagabreytingatillögur
Samkvæmt lögum félagsins, grein 8.1., þurfa lagabreytingar að skila sér til stjórnar fjórum vikum fyrir aðalfund. Engar lagabreytingartillögur bárust innan tilskilins frests.
Umsóknir um hagsmunaaðild
Engar umsóknir um hagsmunaaðild bárust innan tilskilins frests.
Túlkun og aðgengi
Fundurinn fer fram á íslensku. Aðgengisþarfir má senda á netfangið skrifstofa@samtokin78.is og verður allt kapp lagt á að mæta þeim. Húsnæði samtakanna er aðgengilegt fyrir fólk með hreyfihömlun.
Framboðsfrestur
Enn er hægt að bjóða sig fram í embætti stjórnar en framboðsfresti lýkur á sunnudaginn, 18. febrúar. Hægt er að bjóða sig fram til trúnaðarráðs að fundi og einnig á fundinum sjálfum, skv. lögum félagsins.
Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar
Opnað hefur verið fyrir atkvæðagreiðslu utan kjörfundar. Kjörgengir félagsmenn (þeir sem hafa greitt félagsgjöld fyrir árið 2018) geta kosið á skrifstofu félagsins á opnunartíma skrifstofunnar þangað til aðalfundur hefst.
Kjörgengir félagsmenn geta einnig óskað eftir að fá kjörgögn send í pósti (kjörseðil/seðla, kjörseðilsumslag og sendiumslag) með því að hafa samband við skrifstofu Samtakanna (skrifstofa@samtokin78.is). Kjósandinn setur atkvæðið í kjörseðilsumslagið. Að því loknu leggur kjósandi kjörseðilsumslagið í sendiumslagið og lokar því vandlega. Aftan á sendiumslagið skal rita nafn kjósanda og kennitölu. Sendiumslagið skal stíla á: Samtökin ‘78, Suðurgötu 3, 101 Reykjavík.
Utankjörfundaratkvæði þessi þurfa að hafa borist Samtökunum ‘78 fyrir aðalfund. Kjósandi ber sjálfur ábyrgð á og kostnað af að koma atkvæði sínu til skila fyrir tilgreindan tíma. Ef einstaklingur greiðir atkvæði utan kjörfundar en mætir á aðalfund og greiðir atkvæði þá gildir það atkvæði, þ.e. það sem greitt er á aðalfundi, og skal atkvæðinu sem var skilað utan kjörfundar fargað.
Kær kveðja,
stjórn og starfsfólk Samtakanna ‘78