Samtök foreldra og aðstandenda – Glæsilegur stofnfundur

By 12. nóvember, 2003Fréttir

Frettir Laugardaginn 1. nóvember sl. var stofnfundur Samtaka foreldra og aðstandenda samkynhneigðra FAS haldinn í safnaðarheimili Grensáskirkju. Dagskrá fundarins var tvískipt: Í fyrrihluta fundarins var flutt tónlist, ávörp og kynning á nýjum bæklingi félagsins þar sem starfsemin er kynnt. Seinni hluti fundarins var formlegur stofnfundur. Fundarstjóri var Alda S. Gísladóttir. Fundinum barst svohljóðandi heillaóskaskeyti: Við samfögnum innilega á þessum merka og mikilvæga stofndegi FAS. Mannréttindakveðjur, Margrét Pála, Lilja og Brynja.

Í upphafi fundar bauð Harpa Njáls fólk velkomið og rakti í nokkrum orðum starf foreldra og aðstandenda samkynhneigðra. Foreldrar komu fyrst saman á vettvangi Samtakanna ´78 árið 1987 og árið 1997 starfaði hópur um nokkurn tíma. Hópurinn sem stendur að stofnun FAS hefur starfað samfellt frá árinu 2000 og staðið fyrir fræðslu fyrir foreldra og aðstandendur, bæði með stuðningsfundum tvisvar í mánuði og einnig opnum fræðslufundum. Fram kom að mikil vinna hefur verið lögð í hugmyndafræði og uppbyggingu starfsins og ljóst að mikil þörf er fyrir það. Sú ákvörðun að festa starfið í formleg samtök er m.a. til þess að fyrirbyggja að sú vinna glatist, heldur sé hún til staðar þrátt fyrir mannabreytingar. Við stofnun samtaka foreldra og aðstandenda samkynhneigðra afhenda þeir aðilar sem lagt hafa fram krafta sína við að móta hugmyndafræði og uppbyggingu foreldrastarfsins sl. 3 ár, sitt framlag, sem þar með verður hornsteinn FAS.

Þessu næst flutti Páll Óskar Hjálmtýsson söngvari þrjú lög við undirleik Moniku Abendroht hörpuleikara, undurfagra tónlist við mikinn fögnuð fundarmanna. Að því loknu flutti sr. Sigfinnur Þorleifsson erindi sem hann nefndi ?Hvers virði er fyrir fjölskyldu að eiga aðgang að samfélagi foreldra og aðstandenda?. Hann fjallaði um viðhorf og tilfinningar foreldris sem stendur frammi fyrir því að eiga samkynhneigt barn. Umfram allt hve mikilvægt það er að virða heilar og hreinar tilfinningar samkynhneigðra barna okkar og að foreldrar sýni skilyrðislausa elsku og standi stolt með sínu barni ? og það fái að lifa samkvæmt sínum tilfinningum. Sr. Sigfinnur bar kveðju biskups Íslands, Karls Sigurbjörnssonar til fundarmanna og bað hann hinum nýju samtökum og starfi foreldra og aðstandenda guðsblessunar.

Næst fjallaði Sigríður Birna Valsdóttir um sýn samkynhneigðs einstaklings á foreldrastarfið. Hún sagði það vera afar mikilvægt fyrir samkynhneigða einstaklinga og að eiga sína nánustu að. Hún tjáði af einlægni og mjög fallega hvers virði það er að eiga foreldra sem sýna skilning og stuðning. Það er grundvallaratriði svo samkynhneigðum geti liðið vel. Hommar og lesbíur sem eiga fjölskyldu sem viðurkenna þau ekki og jafnvel snúa baki við þeim þegar þau koma fram – ná illa að fóta sig og lifa hamingjuríku lífi ? það er staðreynd. Það skiptir öllu máli fyrir samkynhneigða að njóta viðurkenningar sinna nánustu.

Á dagskrá fundarins var einnig gert ráð fyrir erindi Brynju Jónsdóttur sem hún nefndi ?Hvernig er að alast upp hjá samkynhneigðu foreldri?? en það féll niður vegna veikinda Brynju. Í aðdraganda og kynningu á stofnfundinum kom Brynja fram í útvarpsþætti á Rás 2 með Hörpu Njáls og fjallaði um þetta efni, og höfum við fengið afar góð viðbrög við framsögu hennar þar.

Á fundinum var kynnt nýtt merki FAS sem Hany Hadaya grafískur hönnuður vann. Einnig var kynntur bæklingur FAS sem inniheldur gagnlegar upplýsingar um starf foreldra og aðstandenda. Bæklingurinn mun liggja frammi á heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu. Kristinn Gunnarsson annaðist hönnun og uppsetningu á bæklingnum. Fundarmenn létu í ljósi mikla ánægju með bæklinginn og einnig hið nýja merki FAS. Á næstunni verður opnuð heimasíða FAS og er það von okkar að bæklingurinn og heimasíðan verði liður í því að gera starf foreldra og aðstandenda samkynhneigðra sýnilegra og auðvelda ástvinum samkynhneigðra að nálgast starfið. Velferðarsjóður barna á Íslandi veitti FAS styrk til útgáfu bæklings og heimasíðu og einnig styrktu Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands og Samtökin ´78 útgáfu bæklingsins. Slíkur stuðningur er ómetanlegur fyrir starf foreldra og aðstandenda og um leið viðurkenning á mikilvægi starfsins. Þessum aðilum færum við alúðarþakkir.

Um miðbik fundarins var boðið upp á kaffi og meðlæti og að því loknu tók við formlegur stofnfundur samtaka foreldra og aðstandenda. Ingibjörg S. Guðmundsdóttir kynnti lög FAS sem voru síðan borin upp og samþykkt. Þá var stjórn kjörin sem situr fram að aðalfundi sem halda skal fyrir maílok 2004. Í stjórn voru kosin: Harpa Njáls formaður. Meðstjórnendur eru Anna Þorvarðardóttir, Guðrún Þórarna Þórarinsdóttir, Ingibjörg S. Guðmundsdóttir og Sigfinnur Þorleifsson. Skoðunarmenn reikninga eru Bergur Felixson og Jóhannes Bekk Ingason.

Formaður Samtakanna ´78, Þorvaldur Kristinsson, ávarpaði hin nýju samtök og óskaði þeim alls hins besta og nýkjörinni stjórn velfarnaðar í starfi og hét þeim stuðningi Samtakanna ´78. Hann benti m.a. á að víða erlendis er talað um ?íslenska undrið?. Þar er horft til þess sem gerst hefur á Íslandi í málefnum samkynhneigðra á sl. 20 árum. Hann benti einnig á að í heimi samkynhneigðra hér á landi eru viðhorf foreldra og aðstandenda tvískipt: Þar fyrirfinnst annars vegar skilyrðislaus ást aðstandenda og stuðningur allur – og einnig hin mesta grimmd og útskúfun. Að starfa við slíkar aðstæður gefur drifkraft fram á veginn.

Margrét Pálmadóttir rifjaði upp foreldrastarf á árunum 1997-1998 sem fór fram í skúr við Lindargötu sem þá var afdrep Samtakanna ´78. Hún benti á að enn kraumar í þjóðfélaginu vanþekking og fordómar – þess vegna er baráttan erfið og nóg starf fyrir höndum hjá FAS.

Að lokum gaf fundarstjóri nýkjörnum formanni orðið. Harpa Njáls þakkaði traustið sem henni er sýnt og sagðist munu starfa af heildinum í þágu foreldra og aðstandenda samkynhneigðra hér eftir sem hingað til. Harpa sagði foreldra og aðstandendur áfram njóta þess að starfa í húsnæði Samtakanna ´78 og vera í góðri samvinnu við samtökin ? við höfum sameiginlegra hagsmuna að gæta. Nýkjörin formaður sagði að starfið yrði áfram í sama farvegi, fundir verða annan og fjórða hvern miðvikudag í mánuði. Um miðjan desember mun FAS kalla til sameiginlegs fundar aðila sem starfa að málefnum samkynhneigðra og er það fjórða árið í röð sem foreldrar og aðstandendur standa fyrir slíkum fundi. Í upphafi var þetta okkar leið til að kynnast því sem aðrir voru að gera og einnig til að kynna starf foreldra og aðstandenda. Það tókst mjög vel og við höldum því áfram. Harpa sagði að sér hefði lengi verið hugleikið að foreldrar og aðstandendur kæmu á samtali við kirkjuna um samkynhneigð og trú. Foreldrar og aðstandendur hafa ekki látið sitt eftir liggja og hafa haldið tvo opna fræðslufundi um þetta efni. Árið 2001 var til umfjöllunar ?Samkynhneigð og biðjandi, boðandi og þjónandi kirkja? og árið 2002 ?Samkynhneigð, trú og siðfræði?. Ljóst er að nútíminn er að draslast með neikvæð viðhorf til samkynhneigðar og samkynhneigðra sem eiga rætur í ævafornum viðhorfum og gildum sem voru viðtekin á öldum fyrir kristburð. Það er mikilvægt að taka slíkt til málefnalegrar umfjöllunar og mun FAS beita sér fyrir því. Nú þegar hefur verið leitað til kirkjunnar fólks um að efna til samstarfs og málþings og hefur sú málaleitan fengið mjög góðar undirtektir. Ljóst er næg verkefni eru fyrir foreldra og aðstandendur til að takast á við í náinni framtíð.

Formaður þakkaði síðan öllum þeim sem lögðu hö
nd á plóginn við undirbúning og stofnun FAS og þakkaði einnig þeim mörgu sem komið hafa að starfi foreldra og aðstandenda síðustu ár, fyrir gefandi samstarf. Þá kom fram að stofnfélagar eru allir þeir sem skrá sig í samtökin fram að aðalfundi og hægt að skrá sig á netfangi FAS sem er: fas@samtokinfas.is, og innan tíðar á heimasíðu FAS sem er: www.samtokinfas.is. Að lokum þakkaði formaður fundarmönnum, um 60 manns, fundarsetuna og starfsmönnum fundarins vel unnin störf.

HN

3 Comments

Skrifaðu athugasemd