Bræður og systur. Desembermánuður og jólin eru í hugum flestra tímabil samveru og samkenndar. Þau geta einnig verið uppspretta einangrunar og dapurleika þess sem finnst hann eða hún ekki vera hluti af umgjörð jólahaldsins. Það má líta á þessa helgistund hér í kvöld sem sköpun á okkar eigin umgjörð, þar sem við hommar og lesbíur, ásamt vinum okkar og vandamönnum, erum saman komin til að njóta samfélags hvers annars og samfélagsins við Guð, á forsendum okkar sjálfra.
Jólin koma á hverju ári og marka ákveðið upphaf. Myrkrið nær hámarki og ljósið fæðist að nýju með vetrarsólhvörfum. Vonin endurfæðist á hverju ári og þessa er minnst með helgisiðahaldi jólanna í kirkjum og á heimilum. Ungir hommar og lesbíur sem eru að koma úr felum spyrja sig hins vegar oft að því hvaða pláss þau eigi í hinu hefðbundna gagnkynhneigða jólahaldi. Eru jólin svo „straight“ að meirihlutaþjóðfélag hinna gagnkynhneigðu hefur með hefðum sínum og venjum útilokað hinn samkynhneigða meðbróður og systur frá því að taka þátt í gleðinni? Eða liggur ábyrgðin á þátttöku hjá hommanum sjálfum eða lesbíunni sjálfri?
Svörin við þessum spurningum eru ekki einföld. Þó er ljóst að á bak við þessi svör liggur barátta, bæði innri barátta einstaklingsins við eigið sjálfsmat og sjálfsvirðingu, svo og baráttan við viðhorfin neikvæðu í umhverfinu – sem oft á tíðum eru bara til vegna þess að þau hafa alltaf verið til án skynsamlegrar ástæðu. Það er hins vegar ljóst þegar þessara svara er leitað er alltaf um einhverja glímu að ræða. Við getum kannski einnig litið á þessa helgistund sem þátt í þeirri glímu.
Glíman við mennina er veruleiki okkar homma og lesbía. En til eru aðrar glímur. Í fyrstu Mósebók Gamla testamentisins er sagt frá Jakobi sem glímdi við mann einn. Jakob vann sigur í glímunni en neitaði að sleppa manninum fyrr en hann fengi blessun hans. Það sýndi sig að glímufélagi Jakobs var Guð sjálfur. Guð blessaði Jakob og slapp úr glímutökunum. Þessi frásögn hefur góða samsvörun við veruleika okkar samkynhneigðra. Getur verið að við hommar og lesbíur eigum í glímu við Guð? Eða er okkar glíma eingöngu við mennina, bæði okkur sjálf og aðra?
Jakob glímdi við Guð og gafst ekki upp. Hann hafði að lokum sigur í glímunni og fékk blessun Guðs.
Þessi frásögn kennir okkur að það er ekki alltaf gefið að árangur náist baráttulaust. Það er í raun stórt skref að við söfnumst saman hér í Dómkirkjunni í kvöld og er afrakstur langrar glímu og mikillar baráttu. Samkynhneigðir og kirkjan hafa glímt, og glíma enn, um afstöðuna til samkynhneigðra og þess eðlilega rýmis sem samkynhneigðir hafa krafist í þjóðfélagi og kirkjulífi.
Við sem erum komin á fimmtugsaldurinn höfum upplifað þær breytingar sem orðið hafa á afstöðu þjóðfélagsins til samkynhneigðar sem mjög róttækar framfarir. Við munum þá tíma þegar við sem ung komum úr felum og áttum það á hættu að okkur yrði algerlega hafnað af þjóðfélagi og fjölskyldu. Sú höfnum byggðist á hræðslu og þekkingarleysi mannanna sem hræddust hið óþekkta. Hættan á höfnuninni er ennþá fyrir hendi og byggist enn á sömu hræðslu og sama þekkingarleysi. Því er það mikilvægt að allir hafi aðgang að góðum upplýsingum um líf samkynhneigðra. Samkynhneigðir sjálfir verða líka að gera sér grein fyrir að til þess að öðlast sjálfsreisn verða þeir að taka þátt í glímunni og standa uppréttir, það er frumforsenda þess hægt verði að útrýma hræðslunni.
Þeir hommar og lesbíur sem áhuga hafa á trúarlífi hafa oft lent í vandræðum við að skilgreina sig gagnvart kristni og kirkju – jafnvel gagnvart Guði. Þau vandkvæði liggja fyrst og fremst í því að í grundvallarkenniriti kristninnar, Biblíunni, er að finna neikvæðar tilvísanir til samkynhneigðar kynhegðunar sem oft eru notaðar til að berja á hommum og lesbíum, af hræddu fólki sem þarf löggiltar og uppáskrifaðar afsakanir fyrir að hata okkur. Þegar grannt er skoðað dugar hins vegar Biblían ekki sem afsökun fyrir hatrinu.
Í því gagnkynhneigða umhverfi sem við ölumst upp í, og áttum okkur svo á að við stöndum svolítið til hliðar við, vakna grundvallarspurningar um forsendur lífsins og hlutverk okkar sjálfra. „Af hverju er ég lesbía?“ „Af hverju er ég hommi?“ „Af hverju þarf ég að standa í þessari baráttu, þessari glímu, til þess að öðlast þann lífsgrundvöll sem hinn gagnkynhneigði heimur telur vera sjálfsagðan fyrir sig, en vill neita mér um?“ „Af hverju þarf ég að gera þann hluta lífs míns, þ.e. kynhneigð mína, sem er í raun afskaplega mikið einkamál, að pólitísku baráttumáli til þess að öðlast mannlega reisn?“ „Hvers vegna þarf ég að glíma við ofbeldi, fordóma og lamandi þögn um tilveru mína.“ „Af hverju eru þeir sem kalla sig kristna svona oft neikvæðir og meiðandi í afstöðu sinni til mín?“
Allt eru þetta spurningar sem eiga við í dag eins og áður. Svörin við þeim geta verið flókin og mismunandi. Grundvallarspurningin um afstöðu Guðs til samkynhneigðra er hins vegar einföld. Hommar og lesbíur eru sköpuð í Guðs mynd og eru óaðskiljanlegur hluti sköpunarverks hans. Eða eins og einn samkynhneigður vinur minn, sænskur prestur, orða&
eth;i það: „Guð hefur gefið okkur þann einstæða og sérstaka hæfileika að geta elskað okkar eigið kyn.“ Í þessum orðum felst í raun fyrirheitið um blessunina sem bæði er fyrir hendi í byrjun og við lok þeirrar glímu sem líf okkar er.
Við hommar og lesbíur á Íslandi getum glaðst yfir góðum árangri í glímu okkar til að ná mannlegri reisn. Misrétti í löggjöf hefur minnkað að mun og sýnileiki í þjóðfélaginu aukist. Stuðningur fjölskyldna okkar hefur orðið mun sýnilegri og virkari. Í umræðu um kirkju og samkynhneigð hefur hins vegar á stundum kveðið við annan tón, eins og sást af þeirri fjölmiðlaumræðu sem fór fram um efnið í formi aðsendra greina á síðum Morgunblaðsins í fyrra. Sú neikvæði sem kom fram í mörgum greinanna er einmitt ástæða þess að svo margir hommar og lesbíur hafa hafnað trúnni og vilja ekkert af henni vita. Sú afstaða og réttlæting á hatri í nafni kristinnar trúar í þessari umræðu er einfaldlega ofbeldi. Ofbeldið á sér mörg birtingarform. Þau geta bæði verið þögul og sinnulaus, ellegar virk í líkamlegum eða andlegum skilningi. Stundum er erfitt að vita hvert þessara birtingarforma er verst, þögnin eða hið virka ofbeldi.
Þetta fyrirbæri, ofbeldi, er flókið og þarf skoðunar við. Það er því mikið ánægjuefni að íslenskur guðfræðingur, dr. Sólveig Anna Bóasdóttir, hefur hafið rannsókn á ofbeldi gagnvart samkynhneigðum innan kirkju og guðfræði. Þessi rannsókn er framhald stórmerkilegarar doktorsritgerðar dr. Sólveigar Önnu um ofbeldi gagnvart konum innan kirkju og guðfræði, sem hún varði á síðasta ári við Uppsalaháskóla. Sólveig Anna kemur til með að halda erindi um þessa rannsókn sína á vegum trúarhóps Samtakanna '78, fimmtudagnin 7. febrúar kl. 20:00 í félagsheimili Samtakanna að Laugavegi 3, og verður athylgisvert að fá að heyra hugmyndir hennar. Það eru góð tíðindi þegar fræðasamfélagið á Íslandi gerir samkynhneigð og kirkju að rannsóknarefni, og verður forvitnilegt að fylgjast með framvindu rannsóknarinnar.
Nú er það svo að samkynhneigðir eru allflestir aldir upp í gagnkynhneigðu fjölskyldumynstri og hafa fengið uppfræðslu í gagnkynhneigð og gildum hins gagnkynhneigða þjóðfélags frá ungum aldri. Þeir eru því vel skólaðir í gagnkynhneigð. Því miður er það ekki svo um marga gagnkynhneigða að þeir hafi sömu þekkingu um samkynhneigð. Því er hér mikið verk að vinna til að allir aðilar sem koma að umræðunni um réttindi samkynhneigðra, sérstaklega á vettvangi íslenskrar þjóðkirkju, hafi sama þekkingargunn til að geta tekið afstöðu og mótað stefnu á vitrænan hátt. Fræðsla og hræðslulaus skoðanaskipti eru grundvöllurinn fyrir framförum í málefnum samkynhneigðra á vettvangi kirkju og kristni.
Samkynhneigðir hafa bankað á dyr kirkjunnar og fengið að kíkja inn á milli stafs og hurðar. Margir prestar og aðrir starfsmenn kirkjunnar hafa skilið mikilvægi málsins og unnið vel að auknum sýnileika og ábyrgð í málefnum samkynhneigðra á kirkjulegum vettvangi. En betur má ef duga skal. Ég lýsi eftir hugrekki innan kirkjunnar. Hugrekki til móta afstöðuna til homma og lesbía á grundvelli kristinnar lífssýnar, en ekki útfrá heljargreipum hefðarinnar. Ég er sannfærður um að grundvöllurinn fyrir farsælu samlífi kirkju og samkynhneigðra sé fyrir hendi. Það er von mín að samkynhneigðir hafi úthald til að halda áfram því samtali við kirkjuna sem hafið er og að kirkjan sé óhrædd og virk í þessu samtali.
Þrátt fyrir það að öll þessi pólitíska og kirkjupólitíska umræða sé mjög mikilvæg, þá er það trúarlíf og trúarsýn einstaklingsins, samband hans við Guð sinn og kirkju sína sem er grundvöllurinn. Margir hommar og lesbíur eiga trú og rækta hana. Sumir gera það í einrúmi aðrir í samfélagi við aðra í almennu safnaðarstafi. Flestum okkar hefur hins vegar einnig fundist það nauðsynlegt að rækta trúna á okkar eigin forsendum án yfirstjórnar hinnar gagnkynhneigðu menningar. Þess vegna var trúarhópur Samtakanna '78 settur á stofn fyrir átta árum. Og þess vegna boðum við til helgistundar hér í kvöld. Við þurfum skilning og samvinnu við hina almennu kirkju. En við þurfum líka að komast út úr hlutverki minnihlutahópsins sem þarf að útskýra sig í hvert skipti sem hann birtist í vettvangi kirkjunnar. Þess vegna er það svo mikilvægt að við sjálf eigum okkar helgu stundir á okkar forsendum, þar sem gestir okkar ganga líka útfrá þessum sömu forsendum.
Það er kannski við hæfi í lok hugvekju á jólum að skyggnast til framtíðar. Hvaða möguleika munu hommar og lesbíur hafa á vettvangi kirkju og kristni í framtíðnni? Ég hef þá framtíðarsýn að ungir hommar og lesbíur, full stolts, sýnileika og sjálfsvirðingar yfir kynhneigð sinni, flykkist til náms við Guðfræðideild Háskóla Íslands og að íslensk þjóðkirkja vígi þau til prests án hiks eða hiksta vondra fortíðardrauga. Ég hef þá sýn að hommar og lesbíur séu sjálfsagðir og sýnilegir þátttakendur í almennu safnaðarstarfi í landinu. Ég hef þá sýn að hommar og lesbíur gefi aldrei afslátt af sýnileika sínum í kirkjulegu starfi. Ég hef þá sýn að hræðslan hverfi og traustið aukist.
Eins og Jakob í frásögninni um Jakobsglímuna höfum við hommar og lesbíur glímt við Guð og menn og haft sigur. Við höldum þessari gl&iac
ute;mu áfram og munum glíma til sigurs í framtíðinni líka, bæði á vettvangi einkalífs, þjóðmála og kirkjunnar. Við treystum því að þeir hæfileikar til að elska okkar eigið kyn, sem Guð gaf okkur, séu okkur gott veganesti og gefi okkur og fjölskyldum okkar gleði og lífsfyllingu. Endurfæðing þeirrar vonar sem jólin boða er gott tilefni til að minna sig á að glíman við lífið er góð glíma. Við hommar og lesbíur komum til með að sigra í þessari glímu áfram ef við virðum okkur sjálf fyrir það sem við erum og reynum ekki að breyta eða vanvirða vilja þess sem hefur gefið okkur þessa hæfileika. Sá sigur verður ekki bara okkar heldur líka allra hinna.
Flutt á helgistund trúarhóps Samtakanna ´78 í Dómkirkjunni
Copyright © Haukur F. Hannesson 2001. Tilvitnun er öllum heimil sé heimildar getið
There are some interesting points in time in this article but I don?t know if I see all of them center to heart. There is some validity but I will take hold opinion until I look into it further. Good article , thanks and we want more! Added to FeedBurner as well