Að hasla sér völl

By 1. júní, 2000Uncategorized

Árið 1925 ritaði skáldið Halldór Laxness ögrandi tímaritsgrein sem hann kallaði „Af menningarástandi“. Þar er 23 ára uppreisnargjarn heimsmaður að gera sér leik að því að máta menningu Íslendinga við þá heimsmenningu sem hann hafði kynnst og segir:

Og þar sem menningin átti ekki neina fulltrúa á Íslandi frammeftir síðustu öld, fyrir utan hafnaríslendinga, en nokkra flakkara uppum sveitir og latínuskólaræfilinn á hrakhólum . . . þá hefur Reykjavík í skjótri svipan eignast hvaðeina sem heimsborg hentar, ekki aðeins háskóla og kvikmyndahús, heldur einnig fútboll og hómósexúalisma.

Þessi tvíræða og stríðnislega athugasemd segir sitthvað um veruleika samkynhneigðra: Menning þeirra í nútímanum nær fyrst að vaxa og dafna í borgum. Ísland átti sér enga borg, árið 1925, sjö árum eftir stofnun fullvalda ríkis, var Reykjavík kaupstaður 22000 íbúa og líkast til hefur skáldið unga geta talið samkynhneigða, sem ekki leyndu tilfinningum sínum, á fingrum annarrar handar. Og einn af þeim fáu sem hann hefur hér sennilega í huga, þegar hann eignar Reykjavík samkynhneigða menningu, varð seinna ein af fyrirmyndum organistans í Atómstöðinni. Með það í huga að samfélög Vesturlanda eru borin uppi af tveimur andstæðum, borg og sveit – metropolis og provins – er ljóst að fyrrnefnda þáttinn vantaði hreinlega í íslenska samfélagsgerð langt fram eftir 20. öld. Og það er einmitt sá þáttur sem gerir samkynhneigðum kleift að skýla forboðnum ástum og móta félagslegan veruleika í nokkru skjóli fyrir fordómum og ofbeldi. Auðvitað skorti þessa litlu þjóð ekki lesbíur eða homma, en þeir sem voru svo heppnir að átta sig á eigin samkynhneigð í samfélagi sem var þeim fjandsamlegt og reyndi að þegja tilfinningar þeirra í hel, pökkuðu niður í koffortið og hreiðruðu um sig í stórborgum heimsins. Um það eru dæmi frá 2. áratug aldarinnar og langt fram yfir 1980.

Samkynhneigð var fyrst nefnd á prenti á Íslandi árið 1910 í mannkynsögu þar sem fjallað er um Forn-Grikki og höfundur talar næstum feimnislega um ástir karla til ungra pilta. Í grein um erfðafræði og kynbætur í Skírni, virtasta tímariti landsins, árið 1922 kemur orðið kynvilla í fyrsta sinn fyrir á prenti, myndað á sama hátt og orðið trúvilla. Þörfin til að þýða erlend orð og hugtök var og er ennþá grundvallareinkenni íslenskrar sjálfstæðisvitundar. Sú niðurlægingartækni tungumálsins sem hér birtist lýsir vel þeim viðhorfum sem mótuðu stefnuna í siðferðilegum og menningarlegum efnum. Orðið kynvilla lifði í daglegu máli allt fram undir 1990, en er nú nánast horfið úr daglegu máli fyrir atbeina homma og lesbía þótt hún þjóni ennþá mikilvægu hlutverki í hatursáróðri kristinna sértrúarhópa.

FYRSTA HÓPMYNDUN – FYRSTU ÁTÖK

Þrátt fyrir stöku heimildir um samlíf samkynhneigðra og veikan vísi að hópmyndun í Reykjavík eftir heimsstyrjöldina, einkum á 6. og 7. áratugnum, lifðu hommar og lesbíur skuggatilveru á Íslandi, sjálfsvitund þeirra var rýr en þeir sem státuðu af mestri sjálfsbjargarviðleitni lögðu upp í ferðir yfir hafið til að kynnast ævintýrum stórborganna. Margir þeirra sneru aldrei aftur til Íslands. Um 1950 var ungur hommi og menntamaður í fyrsta sinn á ferð erlendis. Á Ráðhústorginu í Kaupmannahöfn hitti hann annan homma kvöld eitt sem sagði honum frá því að hommar þar í landi gæfu út tímarit. Kom svo næsta kvöld og seldi Íslendingnum Vennen. Sá íslenski hafði aldrei heyrt annað eins og það að til væru sérstök tímarit fyrir homma.

Alþjóðlegar hræringar í heiminum settu brátt mark á lesbíur og homma eyþjóðarinnar sem á uppgangstímum 7. áratugarins hafði fengið betra tækifæri til að kynnast heimsmenningunni en fyrri kynslóðir. Opinská hómófóbía lögregluyfirvalda á þessum árum, eins og hún lýsir sér í blaðagreinum og áhuga þeirra á að klekkja á hommum með lögum um samræðisaldur – mögulega fyrir áhrif frá hörku danskra yfirvalda á tímum „Den grimme lov“ – varð enn til að opna augu íslenskra homma fyrir muninum á lífinu heima og erlendis.

FÉLAG VERÐUR TIL

Síðla sumars 1975 kom ungur leikari og vísnasöngvari, Hörður Torfason, fram í viðtali í tímaritinu Samúel þar sem hann lýsti því opinberlega yfir, fyrstur Íslendinga, að hann væri hommi. Ásamt fleirum lagði hann síðan grundvöllinn að hreyfingu, en sá sig brátt tilneyddan til að yfirgefa land vegna ofsókna og fluttist til Kaupmannahafnar þar sem hann bjó um árabil. Einn af mörgum réttnefndum kynferðispólitískum flóttamönnum þessara ára. En hér hafði verið kveiktur neisti, Hörður gerðist hvatamaður að því að samkynhneigðir stofnuðu félag, og Samtökin ´78 voru stofnuð á heimili hans vorið 1978 af u.þ.b. tuttugu manna hópi.

Rúmum tveimur áratugum síðar eru Samtökin ´78 stærsta félag samkynhneigðra á Íslandi með um 300 félagsmenn og forystuafl í mannréttindabaráttunni. Það rekur félags- og þjónustumiðstöð, ráðgjöf, skólafræðslu og almenningsbókasafn í miðbæ Reykjavíkur – í eigin húsnæði sem keypt var 1998 með myndarlegum fjárstyrk Reykjavíkurborgar. Þangað koma nú að meðaltali um 400–600 gestir í hverjum mánuði. Fleiri félög hafa síðan litið dagsins ljós, m.a. FSS, Félag samkyn
hneigðra og tvíkynhneigðra stúdenta, og Stonewall, Félag samkynhneigðra í framhaldsskólum sem bæði voru stofnuð 1999, en langtum eldra er félagið MSC Ísland.

Á fyrstu árum skipulagðrar baráttuhreyfingar litaði sérstaða fámennisins framgang hennar og alla tilveru lesbía og homma – og gerir svo á sína vísu enn: Samfélag sem telur tæplega þriðjung milljónar hefur eðli sínu samkvæmt glöggt auga með hverjum þegna sinna. Félagslegt eftirlit samborgaranna hefur til skamms tíma verið mikið og fyrir tuttugu árum var nánast óhugsandi að koma úr felum skref fyrir skref eins og flestir gera í milljónasamfélögum. Lausn flestra var að bæla tilfinningar sínar og leika hlutverk hins gagnkynhneigða en lifa meðal samkynhneigðra á ferðalögum eða yfirgefa land. Einstaka tóku skrefið til fulls og komu úr felum því það að gerast opin og opinber samkynhneigð manneskja þýddi nánast eitt og sama skrefið og til þess þurfti hugrekki í ljósi þeirrar kúgunar sem ríkti í félagslegum, menningarlegum og lagalegum efnum á Íslandi. Hinn mikli vandi hreyfingarinnar á fyrstu árunum var að eignast opinbera talsmenn, en þau voru fáein sem þorðu og það dugði til að hrinda af stað hreyfingu sem á skömmum tíma vann mikla sigra.

UPPHAF BARÁTTUNNAR

Þessar nýstárlegu raddir og þessi óvænti sýnileiki kölluðu óhjákvæmilega á viðbrögð og nú komu fordómar hins litla og einsleita samfélag berlega í ljós. Vitnisburðir um ofsóknir í skólum og á vinnustöðum bárust til Samtakanna ´78 og dæmi um höfnun í fjölskyldum, ofbeldi á almannafæri urðu staðreynd sem margir höfðu vitað af en legið í láginni til þessa. Uppbyggjandi fyrirmyndir voru engar. Sem dæmi má nefna að eitt af stærstu bókaforlögum landsins auglýsti skáldsögu laust fyrir 1980 þar sem „spilling nútímans nær hámarki í morði og kynvillu“ og eftir að ýmsir skemmtistaðir höfðu meinað yfirlýstum lesbíum og hommum aðgang, auglýsti nýr skemmtistaður í Reykjavík í blöðum að allir væru velkomnir – nema lesbíur og hommar, gagngert til að afla sér jákvæðrar athygli og vinsælda.

Enn sem fyrr birtust fordómarnir hvað skýrast í tungumálinu. Það var stór þáttur í baráttu fyrstu áranna að neita að lifa við kúgandi afl íslenskunnar og þann fjandsamlega orðaforða sem tengdist tilveru samkynhneigðra. Þeir áttu sér eigin orð, lesbía og hommi, sem voru þeim eiginleg og töm, og það var krafa þeirra að vera kölluð slik. Um kynhneigðina áttu þau orðið samkynhneigð. Félagið unga reyndi hvað það gat til þess að fá blaðamenn og ritstjóra til að taka upp þessi orð en hafna kynvillu og kynvillingum. Árangurinn lét á sér standa. Frægt er dæmi útvarpsstjóra ríkisútvarpsins, sem hafði einkarétt á ljósvakamiðlun, þegar hann hafnaði tilmælum Samtakanna ´78 en gaf út tilskipun í stofnun sinni til fréttastofu og auglýsingadeildar um að ekki mætti nota orðin lesbía og hommi, þetta væru að skoðun málfarsráðunautar stofnunarinnar erlendar slettur, tökuorð og samrýmdust ekki þeirri hreinu tungu sem ríkisútvarpinu bæri að útbreiða. Ekki mun hafa verið einhugur meðal frétta- og þáttagerðarmanna um þessa tilskipun, en ríkisútvarpið hefur tekjur af auglýsingum og nú var Samtökunum ´78 meinað að auglýsa starfsemi sína í greiddum auglýsingum þar sem orðin lesbía og hommi komu fyrir. Það var þó aðeins á yfirborðinu að málið snerist um hina hreinu tungu, hún snerist um hreint fólk og óhreint og eftir að hafa tuggið hin málsfarslegu rök margsinnis missti útvarpsstjóri loks andlitið og staðfesti þá skoðun sína skriflega að orðin lesbía og hommi væru ónothæf þar sem þau „stríddu gegn almennum smekk og velsæmi“. Skýrara gat valdboðið ekki verið, samkynhneigðir voru yfirlýst óhreinindi á þjóðinni. Þetta vald var óskorað þar til einkaréttur ríkisins til útvarps og sjónvarps var afnuminn 1986 og íslenskt talmál heyrðist í fyrsta sinn að einhverju marki í fjölmiðlum. Þá var opinská og málefnaleg umræða um tilveru lesbía og homma orðin svo öflug að ríkisútvarpið hafði einangrast í afstöðu sinni.

Samkynhneigð var hvergi til umræðu í íslensku skólakerfi fyrr en Samtökin ´78 tóku að bjóða upp á fræðslufundi í framhaldsskólum 1979 að beiðni nemenda og kennara. Einnig þar voru gerðar tilraunir til að hindra upplýsingastreymi. Árið 1983 bannaði skólastjóri Hjúkrunarskóla Íslands fræðslufund sem nemendur höfðu beðið um eftir að samkynhneigður nemandi flosnaði upp í námi vegna aðkasts frá félögum. Ráðuneytistjóri í menntamálaráðuneytinu lýsti þá opinberlega yfir að hann myndi hafa gert ráðstafanir til að hindra slíkar heimsóknir hefði hann vitað af þeim. Þegar ráðuneytið var innt eftir því hvort þetta væri opinber stefna þessi barst ekkert svar. En fjölmiðlaumtalið sem af þessum átökum spratt varð til þess að fræðslustarf félagsins varð á allra vitorði og starfsmenn þess hafa alla tíð síðan átt annríkt á vetrum án teljandi andspyrnu.

 

ALNÆMI OG ÁHRIF ÞESS

Alnæmi var reiðarslag fyrir lítið og veikburða samfélag homma og lesbía á Íslandi sem í stundarbjartsýni hélt að þeir hefðu náð þolanlegri virðingu samborgaranna. Hlutfall HIV-jákvæðra meðal homma reyndist svipað og á hinum Norðurlöndunum (um 2/3 smitaðra á 9. áratugnum) og fátt um varnir. Hommar voru &iacu
te; fjölmiðlum úthrópaðir pestargemlingar og heilbrigðisyfirvöld litu í fyrstu algjörlega framhjá tilveru þeirra. Samtökin ´78 gerðu árið 1986 þá kröfu til yfirvalda að þau höfðuðu einkum til homma í forvarnaráróðri sínum en því var seinlega tekið uns ekki varð framhjá staðreyndunum litið. Loks veittu yfirvöld lítils háttar fjárstyrk til stöðu forvarnarfulltrúa á vegum félagsins, tvisvar sinnum í hálft ár 1987-1989 og varnaráróður með beinni skírskotun til samkynhneigðra leit smám saman dagsins ljós.

En það mótlæti sem um tíma virtist ætla að ganga að hreyfingunni dauðri breyttist á fáum misserum undir lok 9. áratugarins í styrk og öryggi sem síðan hefur verið staðreynd meðal lesbía og homma Íslands. Skarpur málfutningur og ábyrgðartilfinning varð til að vinna þeim vaxandi virðingu og það varð til þess að árið 1988 fengu Samtökin ´78 í fyrsta sinn opinberan fjárstuðning frá Reykjavíkurborg. Nokkru síðar halut félagið fasta fjárveitingu frá Alþingi árlega, litlar upphæðir að vísu en þær lögðu þó grundvöllinn að upplýsingarstarfi sem síðan hefur vaxið. Ekki síður skipti sköpum sú staðreynd að eftir að einokun ríkisins á útvarpi og sjónvarpi var aflétt blómstraði opinber umræða í útvarpi, sjónvarpi og nýjum og vönduðum tímaritum sem aldrei fyrr. Ný kynslóð fjölmiðlafólks var komin til starfa og hún reyndist hafa brennandi og fordómalausan áhuga á málefnum samkynhneigðra. Sá stóri og breiði hópur homma og lesbía sem á skömmum tíma á 9. áratugnum kom hiklaust fram í fjölmiðlum og tjáði sig um líf okkar, reynslu og pólitik af þekkingu, kom samkynhneigðum sjálfum kannski mest á óvart, fólk af öllum stigum og úr öllum stéttum þjóðfélagsins – nema úr hinum opinbera pólitíska geira. Landsmenn urðu að bíða til ársins 1999 eftir því að fyrsti yfirlýsti homminn tæki sæti á Alþingi. Eftir yfirlýstum lesbíum er ennþá beðið í þeirri virtu stofnun.

 

LÖGGJAFARMÁL

Baráttan á vettvangi löggjafarvaldsins gekk treglega í byrjun. Þótt vakin væri athygli opinberlega á samþykktum Evrópuráðins frá 1981 og Norðurlandaráðs 1984 um afnám misréttis gagnvart lesbíum og hommum varð lítið vart við árangur. Fundur Norðurlandaráðs lesbía og homma (NRH) sem kom saman í Reykjavík haustið 1983 vakti mikla athygli fjölmiðla. Þar var samþykkt ályktun til Alþingis og ríkisstjórnar og þess krafist að unnið yrði að jafnrétti og verndarlöggjöf fyrir samkynhneigða. Einnig var nokkur þrýstingur á Alþingi frá Norðurlöndum á vettvangi Norðurlandaráðs til þess að knýja á um úrbætur. Nýr stjórnmálaflokkur, Bandalag jafnaðarmanna, sem stofnaður var fyrir alþingiskosingarnar 1983, hafði mannréttindi lesbía og homma fyrstur allra flokka á stefnuskrá sinni og þar var formaður Samtakanna ´78, Guðni Baldursson, á framboðslista til kjörs í Reykjavík, þó ekki í sæti sem gaf vonir um kjör á þing. En að hans undirlagi kom loks fram þingsályktunartillaga á Alþingi árið 1985, borin upp af fjórum flokkum, um afnám misréttis gagnvart lesbíum og hommum. Engin brást til andmæla eftir að Kristín Kvaran, fyrsti flutningsmaður, hafði talað fyrir tillögunni og var henni vísað til allsherjarnefndar, en aldrei fréttist af henni meir.

Málið lá í láginni til 1992. Á rúman hálfan áratug höfðu kraftar hreyfingarinnar farið í málefni sem tengdust alnæmi. En þar kom að Samtökin ´78 fengu þingmenn til að sameinast um svipaða þingályktunartillögu og árið 1985, í þetta sinn af fulltrúum allra fimm flokkanna sem áttu sæti á þingi. Fyrsti flutningsmaður var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þingmaður Kvennalista, sem talaði einarðlega fyrir tillögunni. Við umræður kom fram að í Norðurlandaráði hefði það verið gagnrýnt að Ísland og Finnland væru einu löndin sem lítið sem ekkert hefðu gert í mannréttindamálum lesbía og homma. Þingsályktunartillagan var síðan samþykkt einróma 19. maí 1992 en samkvæmt henni skyldi Alþingi skipa nefnd til könnunar á stöðu samkynhneigðra og gera tillögur að úrbótum til að misrétti gagnvart samkynhneigðu fólki mætti hverfa á Íslandi. Sama vor samþykkti Alþingi ný lög um samræðisaldur. Frá 1940 hafði mönnum verið mismunað þar með tilliti til kynhneigðar en nú gilti einn og sami samræðisaldur, 14 ár.

Ári síðar hafði þingnefndin ekki tekið til starfa og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir spurði forsætisráðherra, Davíð Oddsson, á Alþingi hvort þessi seinvirkni tengdist „ákveðnum tepruskap“. Forsætisráðherra svaraði því til að að ráðuneytin hefðu misjafnan skilning á eðli verkefna nefndarinnar og hvar bæri að vista hana og af því stafaði seinagangurinn. Loks var ákveðið að vista nefndina undir forsætisráðuneyti. Í henni sátu sex manns, þar af tveir tilnefndir af Samtökunum ´78. Nefndin skilaði skýrslu sinni haustið 1994 með tillögum um úrbætur í málefnum lesbía og homma og klofnaðu hún í niðurstöðum sínum. Meirihlutinn vildi leggja til úrbætur sem samsvöruðu þeim sem þá voru orðnar að veruleika í norrænum nágrannalöndum, en minnihlutinn, fulltrúar Samtakanna ´78, vildi stíga stærri skref til fullra mannréttinda og leggja til lagasetningar sem tryggðu að réttarstaða samkynhneigðra einstaklinga í formlegri sambú&eth
; yrði að öllu leyti sú sama og hjóna, að einungis þannig væri markmiði þingsályktunarinnar fullnægt, „ . . . að misrétti gagnvart [samkynhneigðu fólki] hverfi“. Krafa minnihlutans laut að sama möguleika og hjóna til að staðfesta sambúð hjá borgaralegum vígslumanni eða kirkjulegum; að sami réttur til ættleiðinga gilti um hjón og einstaklinga í staðfestri samvist; að samkynhneigðum í staðfestri samvist væri leyfilegt að fara með sameiginlega forsjá barns annars þeirra; að erlendum ríkisborgurum með lögheimili á Íslandi yrði heimilt að staðfesta þar samvist sína.

Frumvarp til laga um staðfesta samvist var lagt fyrir Alþingi af Þorsteini Pálssyni dómsmálaráðherra og samþykkt 3. júní 1996. Það var nánast samhljóða samsvarandi lögum annarra Norðurlandaþjóða, en að einu leyti hafði þingið mætt kröfum minnihluta nefndarmanna sem sendi frá sér skýrsluna 1994 og gengið skrefi lengra en þjóðþing Dana, Norðmanna og Svía: Þannig var gengið frá lögunum að samkynhneigðum í staðfestri samvist var mögulegt að fara sameiginlega með forsjá barns annars þeirra. Einhugur var um hin nýju lög; af 63 þingmönnum samþykktu 44 þau, einn var á móti, einn sat hjá en 17 voru fjarstaddir. Enginn marktækur munur var á afstöðu þingmanna eftir flokkum, en greina mátti sterkari stuðning vinstri flokka, þeir tjáðu sig oftar um málið og kröfðust þess að gengið yrði lengra en raunin varð. Einkum gagnrýndu vinstri menn íslensku þjóðkirkjuna fyrir afstöðu sína en hún hafði í umsögn um frumvarpið lýst sig mótfallna því að samkynhneigðir ættu kost á kirkjulegri vígslu. Lögin tóku síðan gildi á táknrænum degi í sögu samkynhneigðra, 27. júní 1996, og var fagnað með hátíðahöldum á vegum Samtakanna ´78 í Borgarleikhúsinu í Reykjavík. Meðal gesta voru þáverandi forseti Íslands, Vigdís Finnbogadóttir, borgarstjórinn í Reykjavík, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og margir alþingismenn.

Talsverð blaðaskrif urðu um lögin um staðfesta samvist og einkum voru það fylgismenn kristinna fundamentalista sem beittu sér gegn frumvarpinu. Við það má bæta að þremur árum síðar, 1999, reis fyrir kosningar upp Kristilegi lýðræðisflokkurinn, sem hafði það á stefnuskrá sinni að afnema lög um staðfesta samvist fólks af sama kyni. Ekki hefur frekar heyrst frá þeim flokki í opinberri umræðu.

Haustið 1996 lagði dómsmálaráðherra fram frumvarp til breytinga á almennum hegningarlögum. Með þeim var orðinu kynhneigð aukið inn í fyrri lagagreinar sem lutu að refsingum fyrir mismunun eða níð um mann eða hóp manna sökum þjóðernis, litarháttar, kynþáttar eða trúarbragða. Frumvarpið var samþykkt án átaka.

Lögin um staðfesta samvist 1996 meinuðu samkynhneigðum í staðfestri samvist allan rétt til ættleiðinga. Umræðan um ættleiðingamálin brann hins vegar á mörgum og því bar Ólafur Örn Haraldsson þingmaður fram frumvarp um rétt til stjúpættleiðingar barna í staðfestri samvist haustið 1996 en það hlaut ekki afgreiðslu og sami leikur endurtók sig síðar. Vísað var til þess að í endurskoðun væru lög um ættleiðingar sem tækju á þessum málum í heild. Þegar það frumvarp var lagt fram af Sólveigu Pétursdóttur dómsmálaráðherra haustið 1999 vakti það undrun og gremju samkynhneigðra að ekki var gert ráð fyrir neinum réttarbótum í ættleiðingarmálum. Nú var sami leikur hafður og fyrr, vísað til þess lög um staðfesta samvist væru í endurskoðun til samræmis við samsvarandi vinnu á öðrum Norðurlöndum. Hart var deilt á Alþingi í desember 1999 um þá þögn sem dómsmálaráðherra sveipaði þátt lesbía og homma í málinu og sú deila hófst aftur þremur mánuðum síðar þegar nýtt frumvarp um staðfesta samvist var lagt fram af dómsmálaráðherra á Alþingi. Þar stóð sem fyrr óbreytt að ákvæði ættleiðingarlaga giltu ekki um fólk í staðfestri samvist. Allsherjarnefnd Alþingis sameinaðist þá um breytingatillögu sem veitti rétt til stjúpættleiðingar barna fólks í staðfestri samvist og var hún samþykkt á Alþingi 8. maí 2000. Voru þá hin nýju lög samhljóða þeim sem þjóðþing Dana hafði samþykkt ári áður og Ísland aftur í fremstu röð ríkja sem veitt hafa samkynhneigðum og fjölskyldum þeirra réttarbót.

 

NÝTT GILDISMAT – NÝ MENNING

Hinn mælanlegi ávinningur sem orðið hefur á Íslandi hefur breytt mjög gildismati þjóðarinnar til hins betra. Á fimmtán árum hafa samkynhneigðir séð nýja kynslóð þingmanna verða til á Alþingi, fólk sem á til víðsýni og frjálslyndi sem var óþekkt um miðjan 9. áratuginn – hvar í flokki sem þeir standa. Vitundin um stöðu Íslands í umheiminum, nauðsyn þess að vera samferða þróuðum réttarríkjum, vex með hverju ári meðal þeirra. Pólitísku forystufólki meðal lesbía og homma er þó löngu orðið ljóst að Alþingi forðast það beinlínis að eiga frumkvæði meðal ríkja heimsins í réttarbótum til samkynhneigðra, en fylgir samt fast á eftir þeim sem fremstir fara.

Jákvæð upplýsingamiðlun um samkynhneigð er tiltölulega ör í samfélaginu og skýrist það að miklu leyti af smæð þess og miklum áhrifum fjölmiðla. Á þeim vettvangi njóta hommar og lesbíur yfirleitt sannmælis og málflutningur þeirra h
eyrist þar sennilega oftar en á flestum öðrum Norðurlöndum ef marka má munnlegar ályktanir þeirra sem samanburð hafa. Á síðasta áratug aldarinnar skrifuðu nokkur bestu skáld Íslendinga verk sem lýstu samkynhneigð á þann hátt sem hinir innvígðu einir geta, Guðbergur Bergsson, Vigdís Grímsdóttir og Kristín Ómarsdóttir. Á síðustu árum hafa Þjóðleikhúsið og Borgarleikhúsið í Reykjavík tekið erlend og innlend verk til sýningar sem tjá samkynhneigðan veruleika, m.a. leikrit Kristínar Ómarsdóttur Lovestory 3, en annars hafa slíkar sýningar einkum verið bundnar smærri einkaleikhúsum. Þær hafa engu að síður hlotið miklar vinsældir almennings og er skemmst að minnast einleiksins Hinn fullkomni jafningi eftir Felix Bergsson sem hann flutti sjálfur, lagði út af morði á homma í Reykjavík 1981 og kveikti líf í sögu okkar á þann hátt að áhorfendur streymdu á sýningar verksins 1999. Sömu sýningu flutti Felix á ensku í London vorið 2000 og hlaut hún skínandi viðtökur og mikla kynningu. Þá eru ómæld áhrif söngvarans Páls Óskars Hjálmtýssonar. Hann kom úr felum 1988, átján ára gamall, þegar hann sagði frá ungliðahópi Samtakanna ´78 í dagblaði og hefur sökum vinsælda sinna á sviðinu trúlega haft margfalt meiri áhrif á skoðanamótun ungra Íslendinga en samanlagt pólitískt afl hreyfingar okkar gat nokkru sinni áorkað. Um árabil gaf hann þjóðinni góð ráð um ástarlífið sem dálkahöfundurinn Dr. Love og voru engin svið ástalífsins honum óviðkomandi.

Skoðanakannanir koma þægilega á óvart. Á vegum Háskóla Íslands var gerð könnun árið 1990, hluti af fjölþjóðlegri rannsókn á skoðunum og lífsgildum fólks í fjölmörgum löndum. Af öllum þjóðunum tóku Íslendingar umburðarlyndustu afstöðuna til lesbía og homma. Þegar þeir voru beðnir um að meta hvort tilteknar athafnir væru réttlætanlegar á kvarðanum 1–10 svöruðu Íslendingar að meðaltali með 5.5 þegar spurt var um samkynhneigð. Svör annarra þjóða voru undir 4.7 að meðaltali. Í Bandaríkjunum var meðaltalið 3. Samsvarandi könnun frá 1984 sýndi meðaltalið 3.3 meðal Íslendinga svo að hér hafði margt breyst á skömmum tíma – og það mitt í hinni miskunnarlausu og erfiðu umræðu um alnæmi. Í könnuninni 1990 sögðust 24% Íslendinga aldrei mundu telja samkynhneigð réttlætanlega en í öðrum löndum svöruðu fleiri á þann veg. Ætla má að sú mikla athygli sem nýjar lagasetningar vöktu á tíunda áratugnum hafi einkum breytt almenningsálitinu. Í könnun Gallup í febrúar 2000 voru Íslendingar spurðir hvort þeir teldu rétt að lesbíur og homma ættu að njóta réttar til að ættleiða börn. Töldu 53% sig hlynnta því og 12% lýstu hlutleysi sínu, en 35% voru andvígir ættleiðingum. Allar þessar niðurstöður svara mjög til persónulegrar reynslu lesbía og homma af þróun almenningsálitsins á Íslandi síðustu tvo áratugi.

Baráttan heldur áfram og nýir tímar kalla á betri löggjöf og endurskoðun eldri laga. Það er áhyggjuefni að hvergi er kveðið á um skipulagða fræðslu um samkynhneigð í námskrám skóla og hún eingöngu bundin einkaframtaki ábyrgra kennara. Kristnir fundamentalistar hafa færst mjög í aukana við aldamót og vinna í nánari tengslum við skoðanabræður sína í Bandaríkjunum en nokkru sinni fyrr. Ljóst er að harka þeirra og grimmd er bundin örvæntingu þeirra sem mæta gildismati nýrra tíma, en hún hefur mikil skaðleg áhrif á ungt fólk á leið úr felum. Það sætir til dæmis furðu að ein af fimm sjónvarpsstöðvum sem hafa leyfi til opinna útsendinga á Íslandi árið 2000 er rekin af kristnum ofsatrúarmönnum sem svífast einskis í áróðri og níði um lesbíur og homma svo ekki sé minnst á róg þeirra um fólk annarra kynþátta eða trúarbragða. Barátta síðustu missera hefur mjög snúist um varnir gegn árásum þessa fólks. Ljóst má vera að íslenskum hommum og lesbíum er brýn nauðsyn á því að eignast opinberan fulltrúa sem ætlað er að standa vörð um mannréttindi þeirra og aðstoða þá við að ná fram rétti sínum. Starf hreyfingarinnar eitt og sér hrekkur ekki lengur til að halda uppi markvissri upplýsingu og vernd í ljósi þeirrar kröfu sem lesbíur og hommar gera til félagslegs og réttarlegs öryggis á nýrri öld.

Sú staðreynd skiptir þó mestu máli að lesbíur og hommar á Íslandi hafa á undraskömmum tíma náð valdi á virkri þátttöku í þjóðfélaginu og haslað sér völl. Sá hópur fólks á öllum aldri stækkar með hverju ári sem ekki sér þversögn í því fólgna að lifa sýnilegu lífi sem lesbíur og hommar og taka virkan þátt í starfi og mótun samfélagsins. Þessi hópur ætlar sér ábyrgð og frama og hikar um leið ekki við að taka til máls um mannréttindi sín þegar þörf krefur. Orð Hávamála, „sá einn veit er víða ratar“, eru þó enn í fullu gildi, Íslendingar leita utan til náms og starfa eins og þeir hafa alltaf gert, en það heyrir til fortíðinni að hommar og lesbíur kveðji eyjuna sína á flótta. Ísland er orðið þeim byggilegt.

Grein þessi birtist upphaflega í tímaritinu Lambda Nordica, vol. 6, no. 2–3, 2000, undir heitinu „Att ta sin plats“.

 

HELSTU HEIMILDIR

Almenn hegningarlög (1997). Dóms- og ki
rkjumálaráðuneytið. Reykjavík.
Alþingistíðindi (1992). Umræður, 8.4., dálkur 7368. Reykjavík: Alþingi.
Andrés Björnsson (1981). Sendibréf í skjalasafni Samtakanna ´78. Reykjavík: Borgarskjalasafn.
Ágúst Bjarnason (1910). Yfirlit yfir sögu mannsandans. Reykjavík.
Gallup (2000). „Ættu samkynhneigðir að ættleiða börn?“ í Íslenskar markaðsrannsóknir Gallup, fréttabréf febrúar. Reykjavík: Gallup.
Gréta Sigfúsdóttir (1977). Sól rís í vestri. Reykjavík: Almenna bókafélagið.
Guðni Baldursson (1985). „Iceland – from sexual abberation to sexual inversion“ í IGA Pink Book 1985. A global view of lesbian and gay oppression and liberation. Amsterdam.
Halldór Kiljan Laxness (1925). „Af menníngarástandi“ í Vörður 11.7. Reykjavík.
Haraldur Ómar Vilhelmsson (1971). Rangur dómur og ósvífinn. Reykjavík: Höfundur.
http://www.althingi.is
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (1992). „Það er ekki hægt að þvinga hefðbundinni hamingju upp á fólk“ í Sjónarhorn nr. 2. Reykjavík: Samtökin ´78.
Morgunblaðið (1996). „Kirkjan gagnrýnd fyrir að mæla gegn vígslu“ í Morgunblaðið 8.3. Reykjavík.
Morgunblaðið (1999). „Vilja banna fóstureyðingar og sambúð samkynhneigðra“ í Morgunblaðið 13.4.. Reykjavík.
Samtakafréttir, tímarit Samtakanna ´78 (1994– ). Reykjavík: Samtökin ´78.
Sjónarhorn, tímarit Samtakanna ´78 (1991–1994). Reykjavík: Samtökin ´78.
Skýrsla nefndar um málefni samkynhneigðra (1994): Reykjavík, Forsætisráðuneytið.
Smári Valgeirsson (1975). „Það verður sprenging“ í Samúel, nr. 8. Reykjavík.
Stefán Jónsson (1922). „Um kynrannsóknir“ í Skírnir. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.
Stefán Ólafsson (1991). Lífsskoðun í nútímaþjóðfélögum. Reykjavík: Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands.
Úr felum,tímarit Samtakanna ´78 (1982–1985). Reykjavík: Samtökin ´78.

Copyright © Þorvaldur Kristinsson 2000
Tilvitnun er heimil sé heimildar getið

3 Comments

Skrifaðu athugasemd