Annar veruleiki, aðrar hefðir

By 17. júlí, 2005Fréttir

Stundum er ég spurð um sorgina, hvort ég hafi ekki þurft að glíma við hana þegar sonur minn sagði mér að hann væri hommi. Það kannast ég ekkert við og hef ég þó leitað að henni. Sorg er nafnið á þeirri tilfinningu sem vaknar þegar maður missir eitthvað eða þarf að kveðja eitthvað. Þegar um foreldra samkynhneigðra er að ræða eru það oftast bara úreltar og fyrirfram gefnar hugmyndir um það hvernig fólk eigi að lifa og haga sér í samfélaginu. Ég var ekki að kveðja hann son minn þegar hann sagði mér frá því að hann væri hommi, hann stóð þarna ljóslifandi fyrir framan mig, fullur af viti og lífsorku og ég gat knúsað hann og kysst hvenær sem mig langaði til. Þegar við komumst að því að afkvæmi okkar er lesbía eða hommi, þá erum við ekki að kveðja það, við erum að kveðja þær hefðir sem fylgja lífsstíl gagnkynhneigðs fólks. Ég þarf ekki að kveðja eitt eða neitt í þeim efnum þótt sonur minn sé hommi, þessar hefðir finn ég hjá öðrum. En í honum fæ ég annað í staðinn, annan lífstíl, annan veruleika og hefðir ? samkynhneigðar hefðir sem eru ekki ómerkari en hinar, aðeins sjaldgæfari. Að láta þetta vefjast fyrir sér er sjálfsvorkunn og sjálfumgleði.

Margrét Pálmadóttir í bókinni Samkynhneigðir og fjölskyldulíf, Reykjavík 2003.

2 Comments

Skrifaðu athugasemd