Framboð til stjórnar og trúnaðarráðs

By 25. febrúar, 2011Fréttir

Embætti formanns:

 

Guðmundur Helgason

 

Guðmundur Helgason listdanskennari, danshöfundur, dansari Var dansari við Íslenska dansflokkinn 1993-2004 og tók þátt í öllum uppfærslum hans á þeim tíma auk þess að dansa í sýningum(söngleikjum) hjá bæði Borgarleikhúsinu og Þjóðleikhúsinu.  Kennari við Listdansskóla Íslands 1993-2000 og svo aftur frá 2007.  Einnig kennt hjá Danslistarskóla JSB og Ballettskóla Guðbjargar Björgvins.  Hef sem danshöfundur samið fyrir sýningar Íslenska dansflokksins, Leikfélag Reykjavíkur og Nemendaleikhús LHÍ.  Er einnig að vinna að nokkrum dansstuttmyndum í að því er virðist alltof fáum frístundum. Einkaþjálfari við Equinox Fitness líkamsræktarstöðina í New York 2006-7.

Stúdentspróf frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Listdansskóli Þjóðleikhússins 1987-1991, Diplóma frá Konunglega Sænska Ballettskólanum 1993 og MFA

 (Master of Fine Arts) gráða í dansi frá New York University, Tisch School of the Arts 2006.  Var ritari Félags íslenskra listdansara 1995-98 og ritari Starfsgreinaráðs í Hönnun-Listum-Handverki (á vegum menntamálaráðuneytis) 1998-2002. Formaður 7.deildar (dansara) innan Félags íslenskra leikara 2009-… Guðmundur situr nú í stjórn Samtakanna ´78 sem ritari ásamt því að starfa með Hýrauganu, fréttabréfi Samtakanna ´78.

Embætti varaformanns:

 Anna Jonna

Anna Jonna Ármannsdóttir

Trúin á félagslegt réttlæti og áratuga reynsla af réttindabaráttu transfólks og mikil þekking og reynsla á því sviði, er það sem undirrituð mun leggja af mörkum til starfsins. Einnig hef ég reynslu af starfi samstarfsnefndar Hinsegin Daga og trúnaðarráði Samtakanna 78, verið formaður og síðar ritari Trans Íslands, og skoðunarmaður reikninga dönsku samtökunum Trans Danmark og  evrópsku samtökunum TGEU.org
Réttindamál hinsegin fólks eru ekki eitthvað sem við getum gengið að sem gefnu. Saga annarra landa, sýnir okkur að það sem hefur áunnist í réttindabaráttunni getur glatast þannig að það kosti mikla vinnu og dýrmætan tíma að ná þeim aftur.
Réttindamál hinsegin fólks er að mínu mati mannréttindamál.

Því ber okkur að fara í nána samvinnu við mannréttindasamtök og efla samvinnuna við mannréttindaskrifstofuna og við það ráðuneyti sem fer með mannréttindamál.

Réttindamál transfólks hafa alltaf staðið mér nær, en þau eru sá málaflokkur sem er skemmst á veg kominn á Íslandi og víðsvegar annarsstaðar í heiminum.
Skortur á kynjajafnrétti, staðalímyndir, rasismi, klassismi, kynhneigðarhroki og almenn valdbeiting og kúgun, eru samfélagsmein sem skaða samfélagið í heild sinni.

Yogyakarta grundvallarreglurnar eru ákaflega gagnlegar í réttindabaráttu alls hinsegin fólks en þær henta sérstaklega vel fyrir transfólk.

Haukur Árni Hjartarson

alt

Ég heiti Haukur Árni er 29 ára gamall. Sálfræðimenntaður frá Háskólanum á Akureyri. Starfa hjá Rauðakrossi Íslands , var framkvæmdastjóri Samtakanna 78 í lok síðasta árs og var fræðslustjóri árið þar á undan, ég starfaði með ungmennahreyfingu Samtakanna 78 á norðurlandi fyrstu 2 árin sem þau voru og svo eitt ár með ungliðahreyfingunni hér  í Reykjavík.

 

Embætti Gjaldkera:

 Pétur Óli Gíslason

Pétur Óli Gíslason

Pétur Óli er fæddur 30.apríl 1975.  Hann útskrifaðist af stærðfræðibraut  frá Verzlunarskóla Íslands 1995.  Hann stofnaði og rak fyrirtækið Storm í 10 ár sem síðan sameinaðist Sagafilm 2005.  Hann hefur sinnt flestöllum störfum innan félagsins m.a. sem fjármálastjóri og framkvæmdastjóri.  Hann vann um árabil sem viðburðastjóri (event manager).  Í dag rekur hann Luxor sem er tækjaleiga Sagafilm.  Hann stofnaði sjónvarpsstöðina Popptíví og hugbúnaðarfyrirtækið VYRE.  Pétur hefur jafnframt setið í fjölmörgum stjórnum bæðið í atvinnulífinu sem og fyrir félagasamtök.

 

Félagsstörf:

Formaður nemendaráðs Seljaskóla

Féhirðir nemendafélags Verzlunarskóla Íslands

Gjaldkeri íþróttafélagsins Styrmis

Stjórn sundmóts IGLA2012 í Reykjavík

 

 

Embætti ritara:

 Fríða Agnarsdóttir

Fríða Agnarsdóttir

Fríða Agnarsdóttir er fædd 1974. Fríða lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla 1996 og B.ed prófi frá Kennaraháskóla Íslands 2003. Hún starfar sem smíðakennari í Háteigsskóla en einnig sem gjaldkeri hjá Arion banka. Fríða hefur unnið á kaffihúsi Samtakanna ´78 síðan 2005, var í stjórn KMK (Konur með konum) frá 2004-2006 og í samstafsnefnd Hinsegin daga frá 2006-2009. Einnig hefur hún tekið að sér ýmis önnur verkefni fyrir Samtökin´78, KMK og Hinsegin daga. Fríða var í trúnaðaráði Samtakanna´78 2008, 2009 og 2010. Fríða hefur brennandi áhuga á félagsstörfum og telur sig hafa ýmislegt til málanna að leggja og geta sinnt starfi innan stjórnarinnar með prýði.

 

3 Embætti meðstjórnanda:

 Svanfríður Anna Lárusdóttir

Svanfríður Anna Lárusdóttir

Svanfríður A. Lárusdóttir starfar sem veitingastjóri hjá Pottinum og pönnunni á Skólabrú þar sem hún hefur umsjón með öllu sem viðkemur daglegum rekstri og starfsmannahaldi hússins.

 

Hún hefur mikla reynslu af félagsstörfum og hefur verið félagi í Junior Chamber Ísland frá árinu 1988. Þar sinnti hún ótal stjórnunar- og trúnaðarstörfum. Hún var landsforseti hreyfingarinnar árið 1998.  Hún hefur alþjóðleg leiðbeinendaréttindi og hefur leiðbeint á ræðumennsku, framkomu, hópefli, leiðtoga- og mannlegum samskiptanámskeiðum sl. 15 ár jafnt fyrir félagasamtök sem og á almennum fyrirtækjamarkaði.  Sjálf hefur hún sótt námskeið víða og má þar m.a. nefna á öllum norðurlöndunum í Monaco, Japan, Hawaii og á Filipseyjum.

 

Svanfríður hefur verið viðloðandi starf Samtökanna 78 á einn eða annan hátt allar götur frá árinu 2000 m.a. með starfi fyrir KMK og Hinsegin daga.  2008 sat hún í lagabreytinga- og stefnumótunarnefnd og 2009 hefur hún átt sæt í stjórn sem varaformaður samtakanna. Síðastliðið ár hefur Svana verið formaður Samtakanna ´78

 

Anna María Valdimarsdóttir

Anna María Valdimarsdóttir er fædd 1978.  Anna María er sálfræðingur að mennt og starfar hjá Rannsóknarsofu um þroska mál og læsi sem er á  menntavísndasviði, Háskóla Íslands. Býr í vesturbænum, er í sambúð og á einn 8 ára strák. Hún býður sig fram vegna þess að hana langar að leggja sitt af mörkum til að samtökin 78 standi sterk sem hagsmuna og mannréttindasamtök.

 

Haraldur Jóhannsson

Haraldur Jóhansson

Ég undirritaður, sem hefur fallist á kynhneigð mína fyrir áratugum og mig minnir eins af stofnendum Samtakanna, a.m.k. sat ég marga undirbúningsfundi til þeirrar athafnar. Ég er fæddur 18.5.1928. Ég hef unnið í ferðamálum í um 35 ára skeiða og beint í 32 ár. Fyrst hjá Flugfélagi Íslands í 22 ár. Í 10 ár rak ég eigin ferðaskrifstofu, Faranda, sem gaf mér möguleika til að leiðbeina þeim viðskiptavinum sem voru með sérþarfir. Bjó í 19 ár í Vínarborg, sinnti þar áfram ferðamálum auk blaðamennsku. Vonast eftir jákvæðum undirtektum við þessu framboði mínu.Haraldur situr í stjórn Samtakanna ´78 sem meðstjórnandi og býður kost á sér til áframhaldandi setu.

 

10 embætti í trúnaðarráði:

Emelía Eiríksdóttir

Ég er 34 ára og búsett í Reykjavík ásamt konunni minni og tveimur börnum. Ég lauk doktorsnámi í efnafræði 2010 og vinn hjá lyfjafyrirtækinu Actavis.

Við staðfestum samvist okkar á Íslandi og giftum okkur í Svíþjóð og Íslandi þegar það var leyfilegt. Svo höfum við notið velvilja Storkklinik við að eignast börnin okkar. Eins og gefur að skilja hef ég mikinn áhuga á réttindum samkynhneigðra og langar til að vera í hringiðunni.

Guðrún Rögnvaldardóttir

alt

Fædd á Sauðárkróki 1958, stúdent frá MA 1978, lokapróf í rafmagnsverkfræði frá Háskóla Íslands 1983, meistarapróf í rafmagnsverkfræði frá Tækniháskólanum í Karlsruhe 1986, meistarapróf í opinberri stjórn­sýslu frá HÍ 2006. Gift og á þrjár dætur.

Framkvæmdastjóri Staðlaráðs Íslands frá 1998, áður starfsmaður Staðlaráðs frá 1991 að undanskildu einu ári hjá evrópsku staðlasamtökunum CEN í Brussel. Þar áður lektor í rafmagnsverkfræði við HÍ 1987-1991.

Í stjórn Stéttarfélags verkfræðinga, formaður þar 1996-1997, í stjórn rafmagnsverkfræðinga­deildar Verk­fræðingafélags Íslands (VFÍ), formaður þar 2003-2004, í stjórn VFÍ 2005-2007, í jafnréttisnefnd VFÍ 2000-2003.

Í Íslenskri málnefnd 1996-2004. Stjórnarformaður Löggildingarstofu 2003-2005.

Í stjórn evrópsku staðlasamtakanna CEN frá 1998, varaforseti evrópsku rafstaðlasamtak­anna CENELEC 2007-2010, í stjórn alþjóðlegu staðlasamtakanna ISO 2005-2006 og 2011-2012. Í stjórn austurrísku staðlastofnunarinnar AS frá 2005. Hef kennt á námskeiðum og haldið erindi á ráðstefnum víða um heim.

Ég gekk í Samtökin ’78 og FAS, samtök foreldra og aðstandenda samkynhneigðra, haustið 2006 eftir að dóttir mín kom út úr skápnum. Hef verið í stjórn FAS frá 2007, formaður frá 2008. Hef átt sæti í trúnaðar­ráði Samtakanna frá 2008. Hef reynt að koma á tengslum við erlend félög foreldra samkynhneigðra en ekki orðið ágengt nema í Þýskalandi, en þar hef ég sótt tvær ráðstefnur þýsku foreldrasamtakanna BEFAH og er á leið á þá þriðju 18.-20. mars.

 

Margrét Grétarsdóttir

Von er á mynd og texta frá Margréti

Steinunn Þórsdóttir

Von er á mynd og texta frá Steinunni

Þorvaldur Skúli Björnsson

Þorvaldur Skúli Björnsson Þorvaldur Skúli Björnsson

Ég heiti Þorvaldur Skúli Björnsson og ég hyggst gefa fyllsta kost á mér til setu í trúnaðarráði Samtakanna. Sem bona-fide bøsse til margra ára, MEÐ áhuga á sameiginlegum hagsmuna- og félagsmálum samkynhneigðra tel ég mig hafa margt fram að færa og er tilbúinn að gefa það. Án djóks, ég mun kasta mér yfir handsprengjurnar, ég mun hlusta á vilja fólksins og túlkmiðla honum á framfæri eða ofan í kokin á viðeigandi yfirvöldum. Ég mun gera gott úr öllu og hafa gaman af því í leiðinni. Ég er velskrifandi silfurtunga þegar mér býður svo við að horfa, áheyrilegur og áhugaverður, vel upp alið wild thing. Ég hef meira að segja dansað við motherfokking Madonnu, hvað meira gætuð þið mögulega viljað frá lýðræðislega kjörnum fulltrúum ykkar??? Jú kannski smá reynslu, ég hef reynslu af félagsmálum samkynhneigðra í formi stjórnarsetu minnar í íþróttafélaginu Styrmi, þar sem ég tók m.a. þátt í skipulagningu fótboltamóts með þátttöku erlendra liða á árinu 2008. Að framansögðu ætti ég að sjálfsögðu að gerast dictator perpetuus Samtakanna 78 en byltingin byrjar hjá ykkur kæru kjósendur. Þ fyrir Þorvald á trúnaðarráðsþing!

Lilja Steingrímsdóttir

Lilja Steingrímsdóttir

Ég er fædd 1960 og kom út úr skápnum 1980. Það árið um haustið fór ég á minn fyrsta fund Samtakana ´78. Ég og þáverandi sambýliskona mín vorum þónokkuð starfandi í Samtökunum um tíma, m.a. fórum við á ráðstefnu í Stokkhólmi 1981. Ég hef ekki verið virk í innviðum samtakana um langa hríð en fylgst ágætlega með og greitt mín félagagjöld. Mér þykir vænt um Samtökin ´78 og mér finnst að þau ættu að skipta alla sam- og tvíkynhneigða og transgender fólk á Íslandi máli og vera hluti af þeim. Samtökin ´78 hafa líka áorkað miklu fyrir íslenskt samfélag, öll réttindabarátta er í eðli sínu ekki bara fyrir þá sem bera skarðan hlut heldur til þess að búa til  betra samfélg fyrir alla. Já, mér datt það í hug á dögunum þegar ég fékk póst frá ykkur um væntanlegan stjórnarfund og kostningar í strjórn og trúnaðarráð að nú væri góður tími fyrir mig að vera með. Ég býð mig fram í trúnaðarráð og vona að þið þiggið krafta mína.

Dagur Pálmar Eiríksson Mörk

Dagur Pálmar Eiríksson Mörk

Ástæðan fyrir framboði mínu í trúnaðarráð er að ég vil taka þátt í því að efla starfsemi Samtakanna og koma þeim aftur í hringiðu starfs hinsegin samfélagsins.

Ég er hagfræðingur að mennt og hef unnið í flugrekstri og ýmiss sérhæfð verkefni í fjármálum og rekstri. Aðalstarf mitt núna er undirbúningur alþjóðlegs sundmóts IGLA hér á landi árið 2012 fyrir íþróttafélagið Styrmi og mun því vinna mikið með aðilum í ferðaþjónustu og íþróttahreyfingunni á Íslandi.

 

Sigurður J. Guðmundsson

 alt

Mitt nafn er Sigurður Júlíus Guðmundsson og er fæddur 1. júlí 1980. Ég ólst upp á Ólafsfirði fram til 13 ára aldurs þegar fjölskylda mín flutti til Reykjavíkur. Ég fór snemma á vinnumarkað en sneri aftur til náms árið 2003 og lærði fjölmiðlatækni við Borgarholtsskóla og lauk námi þar vorið 2005 með efstu einkunn af mi
nni braut. Eftir nám mitt hóf ég störf hjá Skjá Einum í aðalstjórn sem vaktmaður í útsendingu og starfa þar enn. Haustið 2009 hóf ég nám við Orku- og tækniskóla Keilis og lauk ég námi með diplomu af frumkvöðlabraut.
Ég hef verið meðlimur í Samtökunum 78 í nokkur ár en hef tengst þeim með einhverjum hætti síðan ég kom út árið 2001. Ég hef við nokkur tilfelli boðið fram krafta mína í þágu félagsins en helst má þó nefna frumkvæði mitt við að rífa niður bar félagsmiðstöðvarinnar síðasta sumar þegar framkvæmdir höfðu stöðvast í nokkurn tíma. Síðan má einnig nefna stofnun Hýraugans sem ég átti mikin þátt í og er einn af frumstofnendum blaðsins.
Þá hef ég einnig unnið mikið í öðrum félagssamtökum og má þar nefn SGI á Íslandi, sem eru friðar og manréttindasamtök búddista, og Rauða krossin.
Mig langar að bjóða mig fram til trúnaðarráðs til að virkja krafta mína enn frekar fyrir Samtökin 78 og virkja trúnaðarráð sem ráðgefandi hópur fyrir stjórn og efla störf þess.

Þóroddur Þórarinsson

alt

 

Ég heiti Þóroddur og er Þórarinsson. Fæddur 1959 á Ísafirði.

Ég gef kost á mér til setu í trúnaðarráði, ég vil sjá Samtökin dafna og þroskast og verða aftur vettvangur fyrir hinsegin fólk á öllum aldri til að hittast á, sýna sig og sjá aðra. Ég vil að samtökin verði öflugri í réttindabaráttu fyrir hinsegin fólk. Ég vil gjarnan að stjórn nýti sér betur trúnaðarráð sem vettvang skoðana og stefnumótunar.

Hef reynslu af félagsmálum bæði á vegum Rauða krossins og í stéttarfélagsmálum. Var í trúnaðarmannaráði Þroskaþjálfafélags Ísland frá stofnun þess 1996 og til 2009. Lengst af sem varaformaður félagsins. Sat einnig í stjórn BHM frá 2002 til 2008.

Vil að trúnaðarráðið efli starf samtakana og býð fram krafta mína til þess.

 

 

Halla Kristín Einarsdóttir

Von er á mynd og texta frá Höllu

 

Skoðunarmenn reikninga:

Dagur Pálmar Eiríksson Mörk

Ég er rekstrarhagfræðingur að mennt og hef mikla reynslu af skoðun ársreikninga og bókhaldsupplýsinga fyrir fjármálaráðgjöf Deloitte, sem sjálfstætt starfandi ráðgjafi og fyrir lögmannsstofur. Þau verkefni hafa fyrst og fremst snúist um að greina rekstrarhæfi, viðskiptaáætlanir og samninga, gera áreiðanleikakannanir og rannsóknir á fjárdrætti.

Sigurjón Guðmundsson

Bankastarfsmaður í rúm 30 ár, hefur verið virkur í starfi Samtakanna 78 frá haustinu 1994 og gegnt starfi félagslega kjörins skoðunarmanns reikninga síðan 1997.  Hann hefur einnig starfað innan trúarhóps Samtakanna ( Á.S.T.)  sem og Bókasafnshópsins.

 

Skrifaðu athugasemd