Pistill frá formanni

Í 30 ár hafa Samtökin ’78 unnið að bættum réttindum homma og lesbía á Íslandi með eftirtektarverðum árangri. Breyttar aðstæður í þjóðfélaginu kalla á breyttar áherslur í starfi Samtakanna ‘78. Þessar áherslur koma meðal annars skýrt fram í fræðslustarfi félagsins og í áherslum í réttindabaráttu svo fátt eitt sé nefnt.

Fræðsla beinist í sívaxandi mæli að ólíkum hópum og kallar það á fjölbreyttari nálganir í fræðslustarfinu. Jafningjafræðsla í grunn- og framhaldsskólum hefur lengi vel verið viðamikill þáttur í fræðslustarfi félagsins. Þá berast félaginu sífellt fleiri óskir frá fagfólki, svo sem kennurum, námsráðgjöfum, og skólahjúkrunar-fræðingum um fræðslu. Við þessu hefur verið brugðist eftir bestu getu.

Við þurfum í að bregðast við þeirri stöðu að vaxandi fjöldi samkynhneigðra einstaklinga af erlendum uppruna býr á Íslandi. Margt af því fólki kemur frá löndum þar sem lagaleg og félagsleg staða er afar óljós og ótrygg. Það er skylda okkar að ná til þessa fólks og upplýsa það um lagalega stöðu hinsegin fólks á Íslandi og við hverju það má búast í íslensku samfélagi. Réttarstaða og félagsleg staða transgender fólks á Íslandi er sömuleiðis afar veik og óljós og við því þarf að bregðast. Á Íslandi eru til dæmis engin lög í gildi um málefni transgender fólks líkt og í mörgum nágrannalanda okkar og margar hindranir sem standa í vegi fyrir lagalegri viðurkenningu og læknisfræðilegri meðferð. Brýnt er að bæta stöðu transgender fólks í þjóðfélaginu svo það fái notið sín sem fullgildir einstaklingar til jafns við aðra.

Viðhorf breytast

Það sem er jákvætt í dag getur orðið neikvætt á morgun. Sú samfellda fræðsla sem Samtökin ’78 hafa staðið fyrir á undanförnum áratugum hefur lagt grunninn að þeirri viðhorfabreytingu sem hefur átt sér stað í garð samkynhneigðra og fjölskyldna þeirra. Við þurfum að halda áfram að segja sögu okkar, segja frá því hver við erum, eyða fordómum og uppræta staðalmyndir.  Jákvæð viðhorf til samkynhneigðra staðfesta að við höfum náð árangri og það hefur átt sinn þátt í því að breyta til hins betra því lagalega umhverfi sem við nú búum við. Því miður hafa fæst lönd í heiminum þá sögu að segja. Og þó löggjöfin skipti vissulega miklu máli er hún ekki nægjanleg ein og sér og tryggir okkur ekki endilega félagslegt jafnræði. Þar höfum við verk að vinna og þar verður fræðslustarfið seint ofmetið. Við megum því aldrei láta deigan síga. Okkur verður að bera gæfu til að standa vörð um það sem hefur áunnist og sjá til þess að komandi kynslóðir verði ekki þögninni að bráð – þögninni sem nokkrir hugrakkir einstaklingar rufu fyrir rúmum 30 árum síðan.

Áður birt í starfsskýrslu Samtakanna '78 2007-2008

221 Comments

Skrifaðu athugasemd