Eftirfarndi texti er úr bókinni VEISTU HVER ÉG ER?
Að deila reynslu sinni með öðrum
Finndu einhvern sem þú getur talað við og sem skilur áhyggjur þínar. Að trúa öðrum fyrir tilfinningum sínum léttir strax á álaginu og rýfur einangrunina. Mundu líka að þú ert ekki eini faðirinn eða eina móðirin í heiminum sem á lesbíu eða homma. Aðrir hafa gengið í gegnum það sama og þú. Þér er ef til vill þvert um geð að tala við vandalausa um svo persónuleg mál en ótal foreldrar hafa fengið sönnur þess að það hjálpar. Ef til vill geta vinir barnsins þíns hjálpað þér til að komast í samband við foreldra sem eiga við sömu áhyggjur að stríða. Ef ekki eru tök á þessu, hikaðu þá ekki við að hafa samband við samtök homma og lesbía. Þú þarft ekki annað en að fletta upp í símaskránni. Starfsmenn þar eru meira en fúsir til að spjalla við þig eða koma þér í samband við einhvern sem getur hjálpað þér, til dæmis hóp foreldra og annarra aðstandenda sem starfa á þessum vettvangi.
Að lesa og fræðast
Ef svo er komið vitum við að það þarf ekki að hvetja þig til að spyrja út í hlutina og lesa það sem þú getur fundið um samkynhneigð. Ef þetta er fyrsta bókin sem á vegi þínum verður, þá ættirðu að halda áfram. Til er fjöldi góðra bóka um líf homma og lesbía fyrir þá sem lesa erlend tungumál og hægt er að leita til samtaka homma og lesbía eftir lesefni og ábendingum. Þú getur spurt dóttur þína eða son hvort þau eigi ekki eitthvað í fórum sínum handa þér. Samtök samkynhneigðra kunna líka að geta lánað þér bækur úr bókasafni sínu.
Að kynnast samkynhneigðu fólki
Mörg okkar fyllast alls konar órum þegar samkynhneigð berst í tal. Þegar við þurfum svo að tengja það börnum okkar fyllumst við ráðleysi og bræði. Vandamálið er að þótt dóttir okkar eða sonur komi engan veginn heim og saman við þessa óra, þá getur verið ótrúlega erfitt að losna við þá. En besta ráðið til þess að losa sig við þessa óra er að hitta homma og lesbíur, spjalla við þau og kynnast þeim. Mörg okkar hafa í fyrstunni verið mótfallin því að hitta samkynhneigt fólk en því má breyta ef vilji er fyrir hendi. Gefum tveimur mæðrum orðið. Marguerite segir frá ráðstefnu lesbía og homma sem hún með tregðu féllst á að vera viðstödd:
„Ég var alveg gáttuð þegar þegar ég fann hvað þetta unga fólk var aðlaðandi, opinskátt og greindarlegt í viðmóti. Þegar ég áttaði mig á þessum viðbrögðum skildi ég að ég hafði ímyndað mér að Larry sonur minn væri eini almennilegi strákurinn – undantekningin í hópi þessara geggjuðu homma og lesbía. Eftir þetta hef ég kynnst mörgum framúrskarandi samkynhneigðum manneskjum sem hafa kennt mér þá einföldu lexíu að mannkostirnir ráðast ekki af kynhneigðinni. Ég óttast ekki um son minn. Hann er í ágætum félagsskap.“
Phyllis Shafer lýsir því hvernig henni leið þegar hún komst að því að sonurinn væri hommi: „Síðdegis einn laugardag kom Dew heim með sjö kunningja sína sem hann vildi kynna fyrir mér. Veslings strákarnir voru að drepast úr hræðslu, það leyndi sér ekki á svipnum, og það sama gegndi um mig! En ég reyndi hvað ég gat til þess að vera vingjarnleg og brá fyrir mig því orðavali sem ég vissi að hommar notuðu. Sem sagt, þar með var ég tekin góð og gild.“
Við mælum sérstaklega með því að þú bjóðir samkynhneigða vini sonar þíns eða dóttur velkomna á heimili þitt. Þú munt fljótlega gleyma því að þeir eru eitthvað öðruvísi en fólk er flest og gamlir fordómar munu gufa upp.
Lesbíur og hommar eru stundum vansæl vegna þess að þau tilheyra minnihlutahópi sem á í vök að verjast, en það er trú okkar að þú mundir komast að því að flest þeirra eru jafn ágæt viðkynningar og aðrir. Meirihluti þeirra mun líka fagna því að fá að hitta þig og tala við þig. Sum eiga jafnvel eftir að verða vinir þínir. Þegar þú kemst að því hversu margir hommar og lesbíur geta ekki talað við foreldra sína muntu líka gera þér betur grein fyrir því hvað það getur verið dýru verði keypt að vera samkynhneigður. Þú munt meta kærleik og umhyggju barnsins þíns enn meira en ella og þú getur glaðst yfir því að barnið þitt, sem sýnt hefur þér trúnað sinn, skuli telja sig eiga í öruggt hús að venda hjá þér.
Eftir því sem þú eflist að reynslu ferðu að velta fyrir þér hvernig þú getir orðið syni þínum eða dóttur best að liði. Þegar barn þitt snýr sér til þín í fyrstunni ættirðu að stappa í það stálinu. Við megum ekki gleyma að samkynhneigðir lifa í þröngsýnu samfélagi, við verðum að hjálpa þeim eftir mætti í lífinu og reyna að ala á stolti þeirra í stað þess að láta þá fyrirverða sig.
Að vera jákvæð í orðavali
Stundum má finna óbeint gildismat og fordóma í orðum okkar. Er til dæmis ekki betra að spyrja „hversu lengi hefurðu vitað að þú ert hommi / lesbía?“ í stað þess að segja „hversu lengi hefurðu vitað að þú ert „svona“?“ Foreldrar segja
oft: „Þegar hún sagði okkur að hún væri „svona“ …“ Eða: „Hann er einn af „þeim” …“ Reyndu að tala tæpitungulaust eins og barnið þitt gerir sjálft: hommi – lesbía. Svo er uppeldi okkar um að kenna að við eigum erfitt með að nota þessi orð. Við erum vön að binda þau niðrandi merkingu og að nota þau um eigið afkvæmi reynist okkur sérstaklega erfitt. En við skulum venja okkar á það nota þau eins og hver önnur hvunndagsorð. Með því breytum við inntaki orðanna og þá vita börn okkar að við skömmumst okkar alls ekki fyrir þau.
Að varast sérstök boð og bönn
Þú getur verið barninu innan handar á ýmsa fleiri vegu. Ef sonurinn eða dóttirin býr heima halda margir foreldrar að þeir geti „leyst vandamálið“ með því að halda þeim frá „vondum félagsskap“ eða tilteknum vini eða vinkonu. Allt í einu er farið að setja þeim nýjar reglur – koma fyrr heim, farið er að spyrja hvað þau eru að aðhafast þegar þau eru ekki heima við, og andrúmsloftið á heimilinu verður lævi blandið. Engin boð eða bönn geta breytt kynhneigð barnsins þíns og það er beinlínis óréttlátt að setja nýjar reglur til að stía börnunum frá vinum sínum. Félagsskapur jafnaldranna er táningum mjög mikilvægur og saamkynhneigðum er lífsnauðsyn að fá stuðning og hjálp þeirra sem eins er háttað. Það er óverjandi að ætla að reyna að leggja einhver höft á barn þitt ef það er samkynhneigt. Þær reglur sem gilda fyrir hin börnin eiga líka að gilda fyrir það.
Að bregðast rétt við parsamböndum þeirra
Við vonum að þú bregðist vel við þegar sonur þinn eða dóttir kemst á fast og takir kærastanum eða kærustunni tveim höndum. Því miður veitist sumum foreldrum þetta ærið erfitt. Til eru þeir sem harðneita að hafa nokkuð með þau að gera. Ungur maður sagði við okkur: „Foreldrar mínir nefna Paul aldrei á nafn. Þegar ég skrifa þeim og segi frá því sem við höfum verið að gera við íbúðina eða nefni það að Paul hafi fengið stöðuhækkun svara þau ekki. Ef hann svarar í símann þegar þau hringja spyrja þau bara stuttaralega eftir mér. Þau hafa aldrei vikið að honum minnsta smáræði um jólin og láta yfirleitt eins og hann sé ekki til!“
Kona nokkur sagði okkur frá afstöðu móður sinnar: „Ég lýg því ekki að hún kallar Angie „þetta þarna“ ef hún þá minnist á hana. Getið þið ímyndað ykkur hvernig það kemur við okkur? Ég elska Angie mjög heitt. Við höfum búið saman í átta ár og móðir mín kallar hana „þetta þarna“.“
Aðrir foreldrar ganga ekki alveg svona langt en segja kannski sem svo við dóttur sína: „Við vildum fegin fá þig heim í fríinu en ekki koma með hana.“
Við vitum hins vegar að það getur bæði verið uppbyggilegt og mannbætandi að kynnast konunni eða manninum sem er barni þínu svo mikils virði. Á einum fundi í foreldrahópi okkar hafði kona nokkur þetta að segja: „Mindy er með heimsins fallegustu konu. Nú á ég tvær dætur og er alsæl með þær báðar.“ Auðvitað getur það hent að barnið okkar verði ástfangið af einhverjum sem okkur lyndir ekki við, en það getur líka komið fyrir þegar um pör af gagnstæðu kyni er að ræða! Bæði börnin okkar og við sjálf eigum það inni hjá okkur að við eflum kunningsskap við mikilvægustu manneskjuna í lífi þeirra.
Að geta horft á atlot þeirra
Þegar vinur eða vinkona barnsins þíns er orðinn aufúsugestur á heimilinu getur þér hins vegar veist erfitt að leggja blessun þín yfir blíðuhót þeirra og atlot í návist þinni. Við höfum heyrt um foreldra sem segjast ekki geta horft á samkynhneigð pör sýna hvort öðru ástúð sína, haldast í hendur eða faðmast. Og sumum finnst það jafnast næstum á við dauðasynd ef tveir karlmenn kyssast í votta viðurvist. Svo virðist sem blíðuhót tveggja kvenna komi ekki eins illa við okkur og þegar karlmenn eiga í hlut.
Það er reyndar staðreynd að fjölmörgum finnst óþægilegt að horfa upp á fólk í áköfu keleríi en þegar um gagnkynhneigða er að ræða kippum við okkur ekki upp við það. Þegar við höfum lært að líta sömu augum á samkynhneigða erum við vel á veg komin. Við álítum að það muni á endanum ylja þér um hjartaræturnar að sjá barnið þitt sýna þeim sem það elskar blíðu sína og ástúð.
Að kunna að segja öðrum fréttirnar
Fyrr eða síðar vaknar sú spurning hvernig við eigum að segja fjölskyldu og vinum frá þessu. Foreldrar sem eru nýlega búnir að fá að vita að dóttir þeirra eða sonur hneigist til eigin kyns spyrja oft: Hvað á ég að segja við móður mína? Systur mína? Hvernig á ég að segja hinum börnunum þetta? Morg okkar eru því marki brennd að um leið og við vitum að einhver í fjölskyldunni er samkynhneigður finnst okkur við endilega þurfa að segja öllum frá því en erum samt dauðhrædd um að að einhver frétti það.
Við ráðleggjum þeim að bíða þangað til það kemur af sjálfu sér. Ef þú ert enn í sárum er of snemmt að segja ættingjunum allt af létta. Meðan þú ert enn þess sinnis að tíðindin séu ill og smánarblettur á fjölskyldunni eru allar líkur á að aðrir taki þeim líka þannig. Þú þarft allra síst á því að halda a
ð fjölskyldan snúi upp á sig og taki tíðindunum sem einhverjum hörmungum. En þegar þú hefur jafnað þig og sætt þig við staðreyndir lífsins ertu líka fær um að segja öðrum fréttirnar þannig að vel sé í þær tekið.
Við rekum okkur hvað eftir annað á sannleiksgildi þess arna. Ilse vinkona okkar komst að því að Philip sonur hennar er hommi og hún sagði við okkur grátandi: „Ég veit ekki hvort ég get nokkurn tíma sagt eldri bræðrunum þetta. Þeir drepa hann hreinlega!“ Þremur mánuðum síðar hafði Ilse unnið bug á óttanum og kvölinni og eitt kvöld hringdi hún til að segja fréttirnar. Kvöldið áður, á meðan Philip var út, sagði hún tveimur eldri sonum sínum að bróðir þeirra væri hommi. Þeim brá heldur en ekki í brún. En þegar Philip kom heim gekk bróðir hans til hans, faðmaði hann og sagði: „Philip, hún mamma sagði okkur allt. Okkur þykir jafn vænt um þig og áður. Gefðu okkur smátíma til að átta okkur á þessu, við viljum bara að þú vitir að tilfinningar okkar til þín hafa ekki breyst nokkurn skapaðan hlut.“ Ef Ilse hefði sagt sonum sínum fréttirnar á meðan hún var enn í uppnámi kynnu viðbrögð þeirra að hafa verið öðruvísi og öllu verri.
Margir foreldrar standa sérstaklega fast á því að yngri systkinin fái ekkert um þetta að vita. En þótt ómögulegt sé að segja fyrir um það hvernig bræður og systur munu bregðast við, höfum við lært af reynslunnni að þau taka að öllum líkindum fréttunum betur en foreldrarnir halda. Kannski eru þau þegar búin að jafna þetta sín á milli. Sérhver kynslóð er opnari fyrir nýjungum en sú næsta á undan þó svo að eldri systkini, sem kannski eru gift og búin að koma undir sig fótunum, eigi oft erfiðara með að sætta sig við orðinn hlut en þau yngri.
Það er fyrst og fremst undir lesbíum og hommum sjálfum komið hvenær þeim finnst tímabært að samkynhneigð þeirra spyrjist út. Ef þau biðja foreldrana að halda þessu leyndu fyrir systkinum sínum, er það vegna þess að þau telja sig ekki tilbúin ennþá að standa fyrir máli sínu gagnvart þeim og þau eiga ekki að þurfa að gera það fyrr en sjálfsvirðing þeirra og sjálfsálit þolir slíkt. En ef þau vilja segja þeim allt af létta er foreldrunum ekki stætt á að reyna að þegja yfir því
Sumir hafa sagt að einungis hommar og lesbíur ættu sjálf að segja öðrum frá högum sínum. Þetta finnst okkur ekki raunhæft. Við verðum auðvitað að hafa leyfi barnsins okkar til að tala út við bræður, systur, ættingja og vini, en við sjáum ekki nauðsyn þess eða hagræði að líta svo á að það eigi að segja þeim tíðindin sjálft. Við fáum ekki séð af hverju foreldrar, sem þarfnast þess að létta á hjarta sínu við einhvern, ættu ekki að mega tala við ættingja sína eða vini um málið.
Það er ekki þar með sagt að þeir rjúki með „ótíðindin“ beint í þann slefbera sem líklegastur er til að snúa út úr þeim og leggja þau út á versta veg.
Jón St. Kristjánsson þýddi.
Copyright © Betty Fairchild og Nancy Hayworth
Tilvitnun er öllum heimil sé heimildar getið
Today we learned about our secret admirers…
I had a broken day but now I’m happy
thx
thx
thx
thx
thx
thx
thx
thxx
thxx
thx
thx
thx
thx
thx
thx
thx
thx