Tæpir tveir mánuðir eru nú liðnir af starfstímabili núverandi stjórnar og trúnaðarráðs. Á þeim tíma hefur félagsstarfið farið af stað með miklum krafti. Meðfylgjandi er stutt yfirlit yfir starfsemi félagsins síðan 12. september síðastliðinn.
Fundahöld
Haldnir hafa verið sjö stjórnarfundir, tveir trúnaðarráðsfundir, einn sameiginlegur fundur stjórnar og trúnaðarráðs og einn félagsfundur. Fundargerðir af öllum fundum til og með 6. október eru nú aðgengilegar á vef félagsins og er fundargerða af þremur síðustu stjórnarfundum og öðrum fundi trúnaðarráðs að vænta fljótlega.
Ekki vannst tími til að funda með fulltrúum hagsmunafélaga í október en stefnan er sett á að hitta sem flest félaganna í nóvember.
Félagsfundur 6. okt – nefndastörf
Góður og fjölmennur félagsfundur var haldinn 6. október þar sem stjórn kynnti starfsáætlun sína og vinna nefnda og starfshópa hófst. Við þökkum innilega þeim félögum sem sáu sér fært að koma og erum glöð að finna samstöðuna og velviljann sem einkenndi fundinn. Ef fólk sem ekki komst á fundinn hefur áhuga á að starfa með einhverjum nefndanna má senda póst um það til framkvæmdastýru: skrifstofa@samtokin78.is.
Lagabreytinganefnd hefur hafið störf undir formennsku Marion Lerner. Stefnir nefndin á að funda hálfsmánaðarlega og kynna heildstæðar tillögur í janúar.
Félagsmálanefnd hefur hafist handa við skipulag jólabingós, sem áætlað er 3. desember kl. 16 í Vinabæ. Söfnun vinninga gengur prýðilega. Einnig hefur nefndin mannað opin hús á fimmtudögum af miklum sköruleik.
Samstöðunefnd átti sinn fyrsta fund 31. október þar sem hafist var handa við gerð viðhorfskönnunar til félagsfólks. Dagana 3. og 4. nóvember fundði nefndin við skipuleggjendur Samtakamáttarins 2013 og hófst handa við skipulag þjóðfundarins í febrúar.
Starfshópur um það að eldast hinsegin átti sinn fyrsta fund fimmtudaginn 27. október. Formaður Samtakanna ‘78 sótti vinnustofu um málefni eldra hinsegin fólks á ráðstefnu ILGA-Europe á Kýpur og skilaði skriflegri samantekt til starfshópsins.
Starfshópur um málefni flóttafólks og hælisleitenda hefur ekki fundað enn, en mun gera það fljótlega. Brýn nauðsyn þessa starfshóps sannaðist enn og aftur þegar Ámír Shokhgozar, samkynhneigðum hælisleitanda frá Íran og sjálfboðaliða hjá S78 og Hinsegin dögum, var synjað um dvalarleyfi enn á ný. Samtökin ‘78 sendu frá sér yfirlýsingu honum til stuðnings og hafa unnið með honum að því að koma máli hans í góðan farveg í réttarkerfinu.
Fræðslu- og kynningarfundur fyrir frambjóðendur til Alþingis
Þann 17. október var fulltrúum allra flokka sem buðu fram til Alþingis boðið á fund þar sem fram fór kynning á starfsemi Samtakanna ‘78 og samtal um þarfir hinsegin samfélagsins gagnvart löggjafanum og hinu opinbera. Fulltrúar allra framboða nema Flokks fólksins og Íslensku þjóðfylkingarinnar sóttu fundinn. Að lokinni kynningu Auðar Magndísar framkvæmdastýru á starfsemi félagsins sköpuðust líflegar umræður um málefni hinsegin samfélagsins. Álfur Birkir Bjarnason meðstjórnandi hélt úti beintísti af fundinum á Twitter. Almenn ánægja var með fundinn og stefnt er að því að halda annan svipaðan fund þegar ekki eru yfirvofandi kosningar, e.t.v. á vordögum.
Frá Evrópuráðstefnu hinsegin félaga
María Helga Guðmundsdóttir formaður og Kitty Anderson alþjóðafulltrúi sóttu ráðstefnu ILGA-Europe, Evrópusamtaka hinsegin félaga á Kýpur fyrr í mánuðinum. Meðfylgjandi er samantekt þeirra um ráðstefnuna.
Mannauðsmál
Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, fræðslustýra, sagði upp störfum af persónulegum ástæðum í septemberlok. Í samráði við Ragnheiði Stefánsdóttur og Völu Jónsdóttur mannauðsráðgjafa, sem stýrðu ráðningarferli í stöðuna í sumar, var Sólveigu Rós boðin staðan. H&ua
cute;n hóf störf 1. október.
Guðrún Ó. Axelsdóttir, sem verið hefur bókari félagsins til margra ára, lét af störfum í október og hefur Sigríður Gerða Bjarnadóttir tekið við umsjón með bókhaldi félagsins.
Auður Magndís Auðardóttir framkvæmdastýra sagði starfi sínu lausu í október. Uppsögn hennar tekur gildi 1. nóvember og mun hún gegna 50% starfi út þriggja mánaða uppsagnarfrest sinn eða uns eftirmanneskja hennar hefur hafið störf. Sólveig Rós fræðslustýra mun taka að sér hluta af verkefnum framkvæmdastýru á meðan og verður því í 80% starfshlutfalli þar til staðan hefur verið mönnuð á ný.
Ráðning nýs framkvæmdastýris verður unnin í samvinnu við mannauðsráðgjafana Ragnheiði Stefánsdóttur og Írisi Neri. Staðan hefur verið auglýst og umsóknarfrestur er til og með 13. nóvember næstkomandi.
Stjórnin kann Uglu, Guðrúnu og Auði bestu þakkir fyrir störf sín fyrir félagið og óskar þeim velfarnaðar í komandi verkefnum sínum. Hún býður einnig Gerðu og Sólveigu Rós hjartanlega velkomnar til starfa.
Starfsáætlun – staðan
Eftirfarandi verkefni voru áætluð í september og október skv. starfsáætlun þeirri sem kynnt var 6. október síðastliðinn.
september
- Samstilling stjórnar – hlutverk og ábyrgð stjórnarfólks
- Opnað á samtal félagsfólks og stjórnar
- Fundir og samtöl við sjálfboðaliða S78
- Trúnaðarráð kemur saman, setur sér verklagsreglur og markmið
- Jólabingó – skipulag
október
- Fyrsti sameiginlegi fundur trúnaðarráðs og stjórnar (6. okt)
- Félagsfundur (6. okt)
- Nefnda- og hópastarf byrjar
- Fræðslu- og kynningarfundur fyrir Alþingisframbjóðendur (17. okt)
- Stjórn hittir fulltrúa frá hagsmunafélögum (okt / nóv)
Öllum þessum verkefnum hefur verið ýtt úr vör. Fundir við hagsmunafélög hafa enn ekki farið fram, en stjórnum félaganna hefur verið boðið að skrá sig á fundartíma með stjórn S78 í nóvembermánuði.