Samkynhneigðir og íþróttir

Íþróttir skipta miklu máli í íslensku samfélagi hvort sem litið er til almenningsíþrótta eða afreksíþrótta. Mikil áhersla er lögð á að börn og unglingar stundi íþróttir, enda eru til fjölmargar rannsóknir sem sýna fram á mikilvægi íþrótta, til dæmis sem forvörn gegn misnotkun vímuefna. Þá hafa íslenskar rannsóknir leitt í ljós að börn í íþróttum eru líklegri til að ná betri námsárangri en þau börn sem stunda ekki íþróttir. Almennur áhugi á íþróttum er mjög mikill og íþróttaumfjöll í fjölmiðlum er áberandi.

Samkynhneigðir eru hluti af íslensku íþróttalífi sem til dæmis iðkendur og foreldrar barna í íþróttum, enda er þriðji hver Íslendingur hluti af íþróttahreyfingunni á einhvern hátt. Samkynhneigðir hafa þó verið ótrúlega ósýnilegir í íslenskri íþróttahreyfingu.

Staða samkynhneigðra

Nýlegar rannsóknir hafa bent til þess að fordómar gagnvart samkynhneigðum séu almennt á undanhaldi í samfélaginu, en hafa viðhorfsbreytingar orðið í íþróttahreyfingunni?

Umræða um samkynhneigð er lítil sem engin innan íslenskrar íþróttahreyfingar og engar rannsóknir eru til um samkynhneigða (né aðra minnihlutahópa eftir því sem ég best veit) innan íþróttahreyfingarinnar. Það sem þó helst hefur verið í umræðunni eru boltaíþróttir kvenna en þó hafa samkynhneigðir úr þeirra röðum ekki verið mjög áberandi í þjóðfélaginu. Ein skýring á því getur til dæmis verið sú að íþróttakonur eru almennt ekki mjög sýnilegar og þegar þær fá tækifæri til að koma fram í fjölmiðlum nýta þær yfirleitt tækifærið til að reyna að vekja athygli á íþrótt sinni og viðburðum sem henni tengjast.

Í framhaldi af þessu er fróðlegt að minnast á auglýsingaherferð íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu. Í fyrstu auglýsingum liðsins var lögð mikil áhersla á hið kvenlega og það að knattspyrnukonur séu „alvöru“ konur – ekki ókvenlegar konur = lesbíur. Ekki vil ég ætla það að þarna birtist fordómar af yfirveguðu ráði, heldur er kannski frekar um að ræða óafvitandi viðbrögð og mótleik gegn þeim fordómum sem hafa verið viðvarandi í samfélaginu í lengri tíma um kvennaknattspyrnu og þær brussulegur lesbíur sem hana stunda.

Það má þó ekki fara þá leið að halda því fram að allar íþróttakonur séu stórglæsilegar ofurkvenlegar íþróttakonur, heldur verður að gera ráð fyrir fjölbreytileika og því að lesbíur og gagnkynhneigðar konur stunda íþróttir saman.

Á árinu var frumsýnd ný íslensk bíómynd um knattspyrnulið homma, Strákarnir okkar. Bundnar voru við þá mynd að hún myndi opna umræðuna og auka í framhaldi af því sýnileikann á því sviði sem hefur verið hvað lokaðast, í hópíþróttum karla, en því miður virðist það ekki hafa ræst.

Fordómar, misrétti og brottfall

Samkvæmt erlendum rannsóknum eru þögnin og ósýnileikinn þeir þættir sem helst koma í veg fyrir að samkynhneigðir komi úr felum í íþróttum. En hvers vegna er þessi litla umræða og þessi ósýnileiki? Ein af þeim skýringum sem koma til greina, og erlendar rannsóknir styðja, er að íþróttamenn í afreksíþróttum hræðist það að koma úr felum, til dæmis vegna almenningsálitsins og mögulegs tekjumissis.

Rannsóknir hafa leitt í ljós að samkynhneigðir hætta frekar í skipulögðum íþróttum en gagnkynhneigðir og fara þá frekar í almenningsíþróttir (eða á líkamsræktarstöðvar). Þessir einstaklingar hefja síðan oft að stunda sömu íþrótt aftur, ef tækifæri gefst til, í íþróttafélögum samkynhneigðra. Erlendar rannsóknir hafa leitt í ljós að hlutfalla lesbía og homma í íþróttum er svipað, en lesbíur fara frekar í hópíþróttir en hommar. Þær ástæður eru m.a. nefndar að lesbíur leiti frekar í íþrótt þar sem félagsskapur er mikill en hommar forðist hópíþróttir vegna ofuráherslu á karlmennskuna og ef til vill ýmsar hliðar hennar sem þeir eigi erfitt að samsama sig við. Auðveldara sé fyrir homma að leita í einstaklingsíþróttir en að takast á við fordómana sem birtist í hópíþróttum.

Í heildina séð finnst þó ekki marktækur munur á íþróttaiðkun samkynhneigðra og gagnkynhneigðra .

Ástæður þess að samkynhneigðir hætta í skipulögðum íþróttum eru oft fordómarnir sem eru í mörgum tilfellum frá eigin liðsfélögum, aðallega í formi neikvæðra ummæla. Í þessu samhengi er fróðlegt að skoða niðurstöðu hollenskrar rannsóknar sem leiddi í ljós að einungis 3% lesbía og homma í íþróttum eru alveg opin um kynhneigð sína innan íþróttahreyfingarinnar, en 64% koma út gagnvart útvöldum liðsfélögum. Þar sem misréttismál hafa verið skráð hafa þau flest átt sér stað innan fótboltans. Í sömu löndum hafa samkynhneigðir einstaklingar, í þessum tilfelli lesbíur, verið mest áberandi innan kvennahandbolta og kvennafótbolta. Það sýnir að þeir samkynhneigðir sem eru opnir um kynhneigð s&i
acute;na á frekar á hættu á að lenda í misrétti og fordómum en hinir sem eru áfram í skápnum. Hin síðari ár hefur fjölgun orðið í skráningu misréttismála, en það þýðir þó ekki endilega að það séu fleiri misréttismál, heldur kemur líka til greina að skráning sé orðin betri.

Samkvæmt rannsóknum hafa þriðjungur lesbía og fjórðungur homma í íþróttum mátt þola fordóma þar – í öðrum rannsóknum segjast 74% homma og 59% lesbía hafa fundið fyrir fordómum. (Munurinn er skýrður á mismunandi stöðu á milli landa og íþróttagreina).

Almennt leiða rannsóknir í ljós að lesbíur í íþróttum eru beittar misrétti sem tengist bæði kynferði þeirra og kynhneigð.

Fjöldi samkynhneigðra í íþróttum

Ólympíuleikar eru stærstu og virtustu íþróttaleikar heims. Samkvæmt Ólympíueiðnum er hvers kyns mismunun bönnuð.

Á síðustu Ólympíuleikum, árið 2004 í Aþenu, voru 10.500 keppendur frá 198 þjóðlöndum. Samkvæmt bandarískum heimildum voru 7 af þessum íþróttamönnum samkynhneigðir. Fjórum árum fyrr, á Ólympíuleiknum í Sydney árið 2000 voru einnig 7 samkynhneigðir íþróttamenn. Hvernig þessar tölur eru fundnar út kemur ekki fram í heimildum, en þó að við ætlum að þær séu til dæmis helmingi of lágar, þá eru þetta samt ansi fáir samkynhneigðir íþróttamenn. Ef við miðum við það að 10% mannfjöldans séu samkynhneigðir þá hefðu þetta átt að vera rúmlega 1000 keppendur, en ef við miðum við 5% þá ættu þetta að vera 500 manns.

Árið 2002 voru íþróttamenn á Íslandi 90.408 (allir aldursflokkar). Stærsta íþróttagreinin er knattspyrna en þar eru 16.826 iðkendur. Miðað við 10% viðmiðunina þá ættu samkynhneigðir íþróttamenn að vera rúmlega 9000, en miðað við 5% ættu þeir að vera í kringum 4500 (án tillits til aldursdreifingar). Þeir sem til þekkja eru sammála um að þessar tölur séu víðs fjarri íslenskum raunveruleika.

Lög og reglugerðir

Formlegt starf íþróttahreyfingarinnar á Íslandi byggir á lögum og reglugerðum. Í þeim öllum er skýrt tekið fram að misrétti líðist ekki en sjaldan er minnst á málefni samkynhneigðra.

Helstu lög og reglur sem fjalla um jafnrétti í íþróttum eru:

Íþróttalögin (nr. 64/1998) en í 2. grein þeirra segir: „Meginmarkmið aðgerða ríkis og sveitarfélaga á sviði íþróttamála skal vera að stuðla að því að allir landsmenn eigi þess kost að iðka íþróttir við sem hagstæðust skilyrði …“
Í lögum Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands segir í 4. grein að tilgangur þess sé að „Berjast gegn hvers kyns mismunun og ofbeldi í íþróttum, hvort sem um er að tefla mismunun vegna kynþáttar, trúarbragða, stjórnmálaskoðana, kynferðis eða af öðrum toga.“ Dæmi um sérstök verkefni:

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands er með verkefni í gangi sem kallast „Fyrirmyndarfélag ÍSÍ“ en það miðar að því að bæta starf félaganna með hagsmuni iðkenda að leiðarljósi. Í handbók ÍSÍ um fyrirmyndarfélag er fjallað um jafnréttismál í 8. grein. Mest er fjallað um jafnrétti kynjanna en þar segir einnig í grein B um aðgengi að íþróttahreyfingunni: „Félög séu miðvituð um að börn og unglingar séu ólík og geri ekki upp á milli þeirra vegna fötlunar, búsetu, þjóðernis eða litarháttar.“ Félög eru hvött til að hafa jafnréttisáætlun sem byggir á þessu.

ÍSÍ gaf út bækling eftir Gylfa Gröndal um samþættingu sem var sendur til allra sambandsaðila ÍSÍ þar sem kynhneigð er nefnd sem ein af mikilvægu þáttum í formgerð samfélagsins.
Átak KSÍ um knattspyrnu án fordóma: Fjallað um fordóma, m.a. vegna kynhneigðar, og skýrt kveðið á um að þeir verði ekki liðnir innan hreyfingarinnar.
4 Almenn sérverkefni ÍSÍ í jafnréttismálum en þau fjalla aðallega um kvennaíþróttir; tillaga um umbætur í kvennaíþróttum, þátttöku kvenna í stjórnun íþróttahreyfingarinnar og eflingu á félagsmálastarfi kvenna íþróttum.

Leiðir til úrbóta

Margar leiðir koma til greina til að bæta stöðu samkynhneigðra innan íþróttahreyfingarinnar en þó verður að varast að halda að ein leið sé „rétt“ eða betri en einhverjar aðrar. Við verðum að „tækla“ málið á mörgum stöðum samtímis.

Lög og reglur – formlegt jafnrétti.

Fyrsta skrefið og eitt af þeim mikilvægustu er að formleg lög og reglur taki til jafnréttismála á víðari grunni en því sem tengist kynferði. Íþróttalögin, sem eru ein mikilvægustu lög sem tengjast íþróttum á Íslandi, eru nú til endurskoðunar og væri það mikið framfaraskref ef fjallað væri ítarlegrar um málefni minnihlutahópa og kveðið skýrt á um réttindi þeirra.

Lög ÍSÍ:

Það er engin vafa á því að ef upp kæmi þá myndi mál tengd samkynhneigð fjalla undir verndarákvæði laganna. En á sama hátt og verndarákvæðum stjórnarskrár Íslands var breytt þá væri það mikil viðurkenning á tilveru samkynhneigðra
í íslensku íþróttalífi ef þeim væri bætt við í þessa upptalningu. Það á að vera kappsmál fyrir íslenska íþróttahreyfingu að gera ráð fyrir minnihlutahópum og nýta það góða tæki sem íþróttir eru til að stuðla að jafnrétti. Íslensk íþróttahreyfing er heildarhreyfing og það verður að skoða hvort allir hafi jafnan aðgang að hreyfingunni og hvort allir fái sömu tækifæri.

Jafnréttisáætlun – sýnileiki.

  • Að aðilar eins og Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands og sérsambönd innan þess geri ráð fyrir samkynhneigðum innan jafnréttisáætlana sinna.
  • Skoða þarf þörfina á sérstökum átaksverkefnum til að gera allar íþróttagreinar meðvitaðar um málið. Dæmi um slík átaksverkefni er átak Knattspyrnusambands Íslands, „Knattspyrna – leikur án fordóma“ og jafnréttisáætlun enska knattspyrnusambandsins.
  • Það þarf að gera íslenskum lesbíum og hommum sem eru í íþróttum auðveldara með að koma úr felum. Unga samkynhneigða íþróttamenn vantar nauðsynlega fyrirmyndir. Mikilvægi fyrirmynda er óumdeilt.
  • Rannsóknir og menntun – umræða. Engar rannsóknir eru til um stöðu samkynhneigðra (og annarra minnihlutahópa) innan íslenskrar íþróttahreyfingar. Mikilvægt er að úr því sé bætt sem allra fyrst. Það þarf að rannsaka hvernig íslenskum ungmennum líður innan íþróttahreyfingarinnar og hvernig það tengist líðan í skóla. Það þarf að skoða hvort samkynhneigðir hætti frekar í íþróttum, eða hvort að þeir byrji síður í íþróttum en gagnkynhneigðir jafnaldrar þeirra,

Gera þarf ráð fyrir í öllu útgefnu efni, til dæmis í tengslum við menntun þjálfara og leiðtoga, að í íþróttum á Íslandi eru bæði börn samkynhneigðra foreldra og unglingar sem eru samkynhneigðir eða óvissir um eigin kynhneigð. Umræðan um samkynhneigð, minnihlutahópa, fjölbreytileika og fleira þarf að vera opin og hreinskilin þannig að öllum iðkendum líði vel í hópnum. Íþróttahreyfingin verður að koma til móts við það mikilvæga verkefni sem hún hefur að gegna í uppeldismálum og hafa það í huga að þjálfarar eru mjög mikilvægir í uppeldi barna og ungmenna eins og kennarar. Íþróttir eru mjög mikilvægar í forvörnum gegn misnotkun vímuefni og ungt fólk í íþróttum er með betri námsárangur en þeir sem stunda ekki íþróttir. Þá þarf einnig að opna umræðuna í skólum og fræða börn og unglinga um fjölbreytileika mannlífsins. Strax þarf að gera ráð fyrir öllum í skólastofum og íþróttafélögum. Allt snýst þetta um að samkynhneigðir verði sjálfsagður hluti íþróttahreyfingarinnar og að málefni samkynhneigðra séu ekki eitthvað sem má ekki tala um (tabú) – íþróttir eru fyrir alla!

Íþróttahreyfingar, sérsambönd og félög, svo að dæmi séu tekin eru því miður undirmönnuð af launuðum starfsmönnum og stór hluti starfsins sem þar fer fram er unninn af sjálfboðaliðum. Það gerir það að verkum að frumkvæðið og vinnan verður að koma ofan frá. Það er ekki nóg að segja einstökum sérsamböndum eða félögum: Þið verðið að búa til jafnréttisáætlun og taka á málanum – viðkomandi hafa hvorki sérþekkingu, tíma, fjármagn né annað sem til þarf.

Þá komum við að máli sem við höfum margrætt um á vettvangi samtakanna, þ.e. menntun kennara, í þessu tilfelli íþróttakennara. Margir þjálfarar eru menntaðir íþróttakennarar og ef fræðsla um málefni samkynhneigðra og annarra minnihlutahópa væri hluti af námi þeirra væri mikið unnið.

Hvað er að gerast erlendis?

Mikið er að gerast í rannsóknum erlendis, til dæmis í Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Hollandi, Belgíu og Bandaríkjunum, og þar er umræða um málefni samkynhneigðra í íþróttum komin miklu lengra en hér á landi. Víða (til dæmis í Englandi og Noregi) er sú umræða reyndar tengd umræðu um stöðu minnihlutahópa innan íþrótta og þeirri staðreynd að allir eigi heima innan íþróttanna. Nokkur erlend samtök starfa að réttindabaráttu lesbía og homma innan íþróttanna bæði með því að berjast gegn fordómum og síðan með því að standa fyrir alþjóðaíþróttamótum samkynhneigðra. Dæmi um slík samtök eru:

  • European Gay & Lesbian Sport Federation: Stofnað 1989. Markmið samtakanna er að meðal annars að efla íþróttir samkynhneigðra, berjast gegn fordómum í íþróttum á grundvelli kynhneigðar o.s.frv. www.gaysport.info
  • Football against Racism in Europe; http://www.farenet.com/eru samtök 13 Evrópuþjóða. Eitt af aðalmarkmiðum þeirra samtaka er að berjast gegn öllum fordómum á öllum sviðum knattspyrnunnar.
  • Fjölmörg mót eru fyrir samkynhneigða íþróttamenn, til dæmis Gay Games (14.000 þátttakendur 1998 frá 78 þjóðum, 40.000 áhorfendur) og Eurogames.
  • Sérstök íþróttafélög samkynhneigðra (í opinberum keppnisíþróttum) spretta upp – sums staðar sjálfsagðir þátttakendur í heildarhreyfingunni, en annars staðar fá þau ekki að taka þátt, til dæmis í Þýskalandi. Hér má líka ne
    fna dæmi frá Hollandi um keppendurna í skautaíþróttum sem fengu hótun um að fá ekki að taka þátt í Hollandsmótinu ef þeir tækju þátt í Gay Games.

Þar sem eru sérfélög er þátttaka samkynhneigðra meiri , en eru sérfélög það sem við viljum?

Lokaorð

Einkennist íslensk íþróttahreyfing af ósýnileika og fordómum? Í grein á heimasíðu Samtakanna ’78 (www.samtokin78.is > Spurt og svarað) er íþróttahreyfingin kölluð hið „volduga vígi hómófóbíunnar“. Erum við sammála þessu? Íþróttahreyfingin er stærsta félagsmálahreyfing Íslands en hreyfingin er lifandi og breytanleg. Hún samanstendur að mestu leyti af iðkendum og sjálfboðaliðum sem gera hana af því sem hún er.

Málefni samkynhneigðra er hvorki einkamál samkynhneigðra né íþróttahreyfingarinnar. Við þurfum öll að taka þátt og vinna að breytingum. Við eigum að geta verið við sjálf í íþróttum, það er ekki ásættanlegt að það sé sagt við okkur að það sé í lagi að vera samkynhneigður í íþróttum ef við erum stillt og höngum eins og hver annar gamall garmur inni í okkar skáp

Hvort sem við höfum áhuga á íþróttum eða ekki þá kemur íslensk íþróttahreyfing okkur öllum við, á sama hátt og staða samkynhneigðra innan íslensku þjóðkirkjunnar kemur okkur öllum við hvort sem við erum hluti af henni eða ekki – þetta er spurning um það hvort að við njótum fullra mannréttinda innan allra sviða samfélagsins sem við búum í.

Réttur til þátttöku í íþróttum er nefnilega spurning um velferð og mannréttindi. Við getum líka litið á fjölgun samkynhneigðra í íþróttum sem gott tækifæri fyrir okkur samkynhneigða til að bæta líðan okkar (sem ekki er vanþörf á samkvæmt erlendum rannsóknum), en einnig getur það verið gott tækifæri fyrir íþróttahreyfinguna að fjölga iðkendum og minnka brottfall.

Íþróttir geta verið öflugt tæki til að vinna gegn fordómum. Það hefur barátta Knattspyrnusambands Evrópu gegn kynþáttafordómum sýnt.

Það er því okkar sem störfum í hreyfingunni að taka á málum, opna umræðuna, sýna gott fordæmi og vera fyrirmyndir þeirra sem á eftir koma. Baráttan vinnst ekki á einum degi eða á einu ári. En hún byrjar með því að hvert eitt og einasta okkar vakni til meðvitundar um ástandið eins og það er – og að mínu mati er of mikil þögn og of mikill ósýnileiki, en ég get aldrei samþykkt það að sú hreyfing sem ég er hluti af sé “voldugt vígi hómófóbíunnar”.

[Þessi grein er unnin upp úr tveimur erindum, annað þeirra var flutt á ráðstefnunni „Hver er sá veggur“ í apríl 2005 en hitt á fundi stjórnar og trúnaðarráðs Samtakanna ’78 í nóvember sama ár]

Copyright © Klara Bjartmarz 2006

 

42 Comments

Skrifaðu athugasemd