Samtökin '78 stækka

By 3. ágúst, 2018janúar 25th, 2020Félagsstarf, Ráðgjafarþjónusta, Tilkynning

Vegna aukinna umsvifa í rekstri og þjónustu Samtakanna þá var auglýst eftir skrifstofustýri í júní síðastliðnum. Samtökin tóku á móti fjölda góðra umsókna og við tók erfitt ferli að velja gott skrifstofustýri. Eftir viðtöl og matsfundi var ákveðið að bjóða Heiðrúnu Fivelstad stöðu skrifstofustýris, mun hún hefja störf 13. ágúst næstkomandi.

Heiðrún Fivelstad hefur verið virk hjá Samtökunum ’78 í jafningjafræðslunni, einnig hefur hún komið að skipulagningu vísindaferða og unnið ötullega með Q-félagi hinsegin stúdenta þar sem hún var m.a. ritari, varaformaður og fræðslustýra. Einnig hefur Heiðrún starfað með Rauða Krossi Íslands og Cornell LGBT Resource Center. Fyrr á árinu var hún verkefnastýra verkefnisins #sjúkást sem Stígamót stóð fyrir.

Nýr ráðgjafi

Ásamt ráðningu Heiðrúnar þá hafa Samtökin ’78 bætt við ráðgjafaþjónustu sína en nýr ráðgjafi, Guðrún Häsler, hefur tekið til starfa.

Guðrún fékk B.S. gráðu í sálfræði, meistaragráðu í sálfræði og meistaragráðu í klínískri sálfræði frá Háskóla Íslands á árunum 2013-2018. Guðrún er með starfsleyfi frá Landlækni til að starfa sem klínískur sálfræðingur og er í Sálfræðingafélagi Íslands. Hún vinnur á Þroska og hegðunarstöð heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. Reynsla og þekking Guðrúnar á sviði hinsegin málefna er helst í tengslum við BDSM hneigð og transbörn.

Samtökin ’78 eru ákaflega stolt að geta eflt þjónustu sína við hinsegin fólk og þar með unnið með meiri krafti að markmiðum sínum.