Samtökin ’78 hljóta viðurkenningu Barnaheilla árið 2018

By 20. nóvember, 2018janúar 25th, 2020Félagsstarf, Fréttir, Ungmennastarf

Samtökin ’78 hlutu í dag Viðurkenningu Barnaheilla – Save the Children á Íslandi fyrir fræðslu, félagsstarf og ráðgjöf um hinsegin málefni sem er sérstaklega sniðin að börnum og ungu fólki og fjölskyldum þeirra. Það er ómetanlegt fyrir börn og ungt fólk sem er að fóta sig í lífinu sem hinsegin einstaklingar að hafa aðgang að ráðgjöf, félagslegum stuðningi og fræðslu sem auðveldar þeim að lifa til fulls í sátt við sig sjálf eins og þau eru. Samtökin hafa verið stoð og stytta margra sem „komið hafa út úr skápnum“ og skipt sköpum í þeirra lífi sem hinsegin einstaklingar.
Í ár er viðurkenning Barnaheilla tileinkuð rétti allra barna til lífs og þroska og réttinum til jafnræðis. Að vera ekki mismunað á grundvelli skoðana, útlits, hegðunar eða nokkurra annarra aðstæðna. Þessi réttur sem hver manneskja fæðist með nær einnig yfir kynvitund og kynhneigð. Það er skýlaus réttur allra að fá að lifa og njóta virðingar óháð kynvitund, kyneinkennum og kynhneigð.
Barnaheill veita árlega viðurkenningu fyrir sérstakt framlag í þágu barna og mannréttinda þeirra í tengslum við afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þann 20. nóvember. Viðurkenningin er afhent til að vekja athygli á Barnasáttmálanum og mikilvægi þess að íslenskt samfélag standi vörð um mannréttindi barna. Barnasáttmálinn er leiðarljós í öllu starfi Barnaheilla.
Afhending viðurkenningarinnar fór fram í veislusal veitingastaðarins Nauthóls. Harpa Rut Hilmarsdóttir, formaður Barnaheilla, flutti ávarp og tilkynnti um viðurkenningarhafann. Sigríður Birna Valsdóttir, fjölskyldufræðingur og ráðgjafi hjá Samtökunum ´78, flutti þakkarræðu f.h. viðurkenningarhafa. Frú Eliza Reid, forsetafrú, flutti ávarp. Þórhildur Elínardóttir Magnúsdóttir fræðari í Hinsegin fræðslunni og fyrrum meðlimur í ungmennastarfi Samtakanna 78 flutti einnig ávarp. Kór Öldutúnsskóla flutti tvö tónlistaratriði undir stjórn Brynhildar Auðbjargardóttur við undirleik Vignis Þórs Stefánssonar. Erna Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla, stýrði athöfninni.