HINSEGIN BÍÓDAGAR HAFNIR

By 19. september, 2008Fréttir

Kvikmyndahátíðin hefst fimmtudaginn 25. september og lýkur sunnudaginn 5. október. Á dagskrá eru fimm nýjar leiknar kvikmyndir og fjórar heimildarmyndir. Nánari dagskrá er að finna á www.hinbio.org

Í ár taka Hinsegin bíódagar í fyrsta sinn höndum saman við Alþjóðlega kvikmyndahátíð í Reykjavík – RIFF. Það er í anda þeirrar stefnu okkar að reyna að ná betur til hins almenna áhorfanda og rjúfa þá einangrun sem enn vill umlykja hinsegin kvikmyndagerð. Af þessu tilefni gefa Hinsegin bíódagar út sérstakan kynningarbækling til að vekja athygli á þeim myndum sem varða sérstaklega lesbíur, homma og annað hinsegin fólk og á vefsíðu Hinsegin bíódaga, www.hinbio.org, er þetta efni einnig kynnt sérstaklega. Í aðalkynningarbæklingi Alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Reykjavík má síðan sjá regnbogahjólið, merki Hinsegin bíódaga, við þessar kvikmyndir.
Í upphafi þessa samstarfs tóku Hinsegin bíódagar þá stefnu að sýna færri kvikmyndir en áður en leggja áherslu á nýjar myndir, enda verður hátíð okkar trúlega árlega hluti Alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Reykjavík í stað þess að við höldum hana annað hvert ár. Á dagskrá eru fimm leiknar kvikmyndir og fjórar heimildarmyndir. Þar á meðal má nefna kanadísku gamanmyndina  Morgunverður með Scot en hún hefur verið opnunarmynd á öllum helstu hinsegin kvikmyndahátíðum heimsins á þessu ári. Þá er hér boðið upp á glænýja taívanska kvikmynd, Blóm á reki, sem veitir óvenjulega innsýn í líf og ástir asískra kvenna. Einnig vekjum við athygli á myndinni Heilagt stríð fyrir ástina sem er athyglisverð heimildarmynd um samkynhneigða múslima og togstreitu trúar og kynhneigðar.
Í lok Alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar munu Hinsegin bíódagar í Reykjavík veita „Hinsegin kvikmyndaverðlaunin 2008“. Þau hlýtur sú kvikmynd sem að mati þriggja manna dómnefndar þykir besta framlag hátíðarinnar til hinsegin menningar og hinsegin kvikmyndalistar.

Miðar á einstakar sýningar eru seldir í Regnboganum, Iðnó og Norræna húsinu.
Klippikort og hátíðarpassar eru seldir í Kringlunni og á Laugavegi 35.
Miðaverð á stakar sýningar: 900 kr.
Klippikort (8 sýningar): 5.000 kr.
Hátíðarpassi: 7.000 kr.
Hægt er að kaupa klippikort og hátíðarpassa á skrifstofu Samtakanna ´78. Félagsmenn fá 500 kr. afslátt á korti eða hátíðarpassa gegn framvísun gildra félagsskírteina.

Dagskrá Hinsegin bíódaga 2008 má finna á heimasíðu hátíðarinnar:

www.hinbio.org

10 Comments

Skrifaðu athugasemd