Skemmtanamenning í blóma – Nýir staðir í Reykjavík

By 20. ágúst, 2003Fréttir

Frettir Samkynhneigðir og vinir þeirra í Reykjavík, eiga nú í fleiri veitinga- og skemmtihús að venda en dæmi eru til í sögunni. Þessi þróun er fagnaðarefni því að vaxandi samkeppni skapar ævinlega betri þjónustu og hollustu við gesti. Hafi eitthvað haldið aftur af þróun vandaðrar kaffihúsa- og skemmtanamenningar homma og lesbía síðustu áratugi er það umfram allt skortur á samkeppni.

Á Hinsegin dögum, aðra helgi í ágúst, var opnaður nýr gay staður Rainbow í Lækjargötu 10, þar sem áður var veitingastaðurinn Si Senor. Þar er opið virka daga frá kl. 13 til 01, og um helgar til 03. Drykkir eru í ódýrari kantinum og þar er boðið upp á mat, íslenska rétti á viðráðanlegu verði. Við óskum veitingamanninum, Sigurði Einarssyni, til hamingju með framtakið og hvetjum alla til að líta við á Regnboganum.

Í sumar hefur Café Cozý í Austurstræti notið mikilla vinsælda samkynhneigðra gesta, en það ævintýri hófst með því að staðarhaldarinn, Ásta B. Vilhjámsdóttir, og dætur hennar Ingunn og Margrét Mýrdal, urðu sér úti um regnbogafána til að flagga utan dyra. Þar hefur FSS haldið Gay Day á miðvikudagskvöldum tvisvar í mánuði frá því í vor, en opið er á Café Cozý frá 10 á morgnana til 01 eftir miðnætti, og um helgar yfirleitt til 03. Boðið er upp á súpur og léttar máltíðir og úrval drykkja.

Þau tíðindi kunnum við helst að segja af Spotlight að þar hafa orðið eigendaskipti nýlega. Föstudaginn 29. ágúst birtist sérkennileg frétt í Fréttablaðinu undir fyrirsögninni ?Diskó í stað homma?. Þar er greint frá því að verið sé að opna nýjan skemmtistað á gömlu Thomsens-kránni við Hafnarstræti, en Spotlight sem var þar síðast til húsa hvergi nefnt á nafn. Svo vitnað sé orðrétt í fréttina:

?Þar mun DJ Margeir stýra nýjustu danstónlistinni en staðurinn hefur undir það síðasta verið helsti samkomustaður homma og lesbía í Reykjavík. Diskóið mun því taka við að hommunum í Hafnarstræti.?

Varla verða þessi orð skilin öðruvísi en svo að samkynhneigðir, sem vilja lyfta sér upp, séu ekki lengur velkomnir í Hafnarstræti 17. Fréttavefurinn skorar á dansglaða homma og lesbíur að fara nánar í saumana á þessum ?fréttaflutningi? og kanna viðmót hinna nýju rekstraraðila, kanna hvort þar sé í rauninni ætlunin að gera mun á mönnum eftir kynhneigð. Munum að það er hluti af mannréttindum okkar að fá að dansa alls staðar þar sem aðrir fá að dansa.

Athugasemd við þessa frétt

Hinn 20. október hafði Margeir tónlistarstjóri á næturklúbbnum Kapital við Hafnarstræti 17, þar sem áður var Spotlight, samband við ritstjóra vefsíðunnar. Lýsti hann þar frétt Fráttablaðsins hina verstu rangtúlkun. “Stefna staðarins er sú að keyra á tónlist sem hvergi annars staðar heyrist eða á framsækinni danstónlist – og fyrir alla,” segir Margeir tónlistarstjóri Kapital og segir að samkynhneigðir séu sannarlega velkomnir í þann hóp sem kunni að meta músíkina sem leikin sé á Kapital – og hafi alltaf verið frá því að staðurinn var opnaður undir nýju nafni og af nýjum rekstraraðilum.

Við þökkum Margeiri fyrir hlýjar kveðjur og komum boðum hans á framfæri: Á Kapital eru allir velkomnir og segjum bara við lesendur: Kannið málin og njótið næturinnar!

Og úr því að verið er að leiðrétta eldri málflutning er rétt að geta þess til upplýsingar þeim sem sjaldan bregða sér á skemmtistaði að Rainbow við Lækjargötu 10 hefur lagt niður starfsemi sína fyrir nokkru. Þannig eru sviptingar þessa jarðlífs.

53 Comments

Skrifaðu athugasemd