MANNRÉTTINDI HINSEGIN FÓLKS: ÁRIÐ 2006 GERT UPP

By 1. febrúar, 2007Fréttir

Það er af mörgu taka ef reyna á að gera upp árið 2006 með tilliti til mannréttinda hinsegin fólks í heiminum. Þar skiptast á skin og skúrir og verður farið fljótt yfir sögu í þessu fréttayfirliti Grétars Einarssonar. Myndin hér til hliðar talar sýnu máli, en hún er tekin í upphafi Gay pride göngunnar í Krakow í Póllandi á síðasta ári. Þrátt fyrir að þungvopnuð lögregla ætti að gæta göngumanna tókst samt sem áður ekki að koma í veg fyrir steinkast og árásir á göngufólk.

Það er af mörgu taka ef reyna á að gera upp árið 2006 með tilliti til mannréttinda hinsegin fólks í heiminum. Þar skiptast á skin og skúrir og verður farið fljótt yfir sögu.

Þróunin í Evrópu er ákaflega athyglisverð. Þau ríki sem sækjast eftir inngöngu í Evrópusambandið þurfa einnig að taka upp lög sambandsins og það hefur reynst mörgum erfiður biti að kyngja, ekki síst hvað varðar réttindi lesbía, homma, tvíkynhneigðra og transgender fólks. Aukin áhrif öfgafullra trúarhópa og hreyfinga innan og utan stærri trúardeilda, sem berjast m.a. gegn réttindum þessara þjóðfélagshópa, hafa einnig orðið til að efla andstöðuna. Í flestum ríkjum Austur- Evrópu, Afríku og Asíu eru trúarstofnanir ákaflega sterkar og gegna mikilvægu hlutverki í lífi fólks og móta oft umræðu og ákvarðanatöku. Þetta hefur berlega komið í ljós í Póllandi, Lettlandi, Rúmeníu og Rússlandi. Þær öru breytingar sem orðið hafa í Austur- Evrópu á skömmum tíma valda mikilli spennu í þessum samfélögum, en ástandið er þó kannski verst í Austurlöndum nær, Afríku og SuðurAmeríku. Margar trúardeildir í fátækari löndum ýta undir ofbeldi og þarf svo sem ekki að leita til ríkja þriðja heimsins í því sambandi. Kirkjur Austur-Evrópu hafa víða verið mjög opinskáar í andstöðu sinni, meðal annars í Póllandi.

Samtök hinsegin fólks fá áheyrnarfulltrúa í efnahags- og félagsmálanefnd Sameinuðu þjóðanna

Sennilega er einn stærsti og merkilegasti viðburður ársins í réttindabaráttu okkar á alþjóðavetvangi sá að þrjú samtök hinsegin fólks fengu áheyrnarfulltrúa í efnahags- og félagsmálanefnd Sameinuðu þjóðanna (Economic and Social Council, ECOSOC). Þessi samtök eru Evrópudeild ILGA og dönsku og þýsku landssamtökin LBL og LSVD.

Fulltrúi Bandaríkjanna sameinaðist m.a. Zimbabwe og Íran í andstöðu sinni við að leyfa slíkum samtökum að fá aðgang að ráðinu gegn atkvæðum ríkja eins og Þýskalands, Frakklands og Bretlands, en Íran og Zimbabwe eru þekkt fyrir að beita samkynhneigða þegna sína miklu harðræði og misþyrmingum.

Það var svo 11. desember sl. að ofangreindum samtökum var veitt það sem heitir „consultative status“ að ECOSOC- nefndinni. Nú liggja fyrir umsóknir fleiri félaga að nefndinni sem teknar verða fyrir á þessu ári og því næsta. Hér er um mikinn sigur að ræða fyrir mannréttindabaráttu hinsegin fólks á alþjóðavettvangi. Í lok nóvember setti sendinefnd Noregs hjá Sameinuðu þjóðunum fram yfirlýsingu fyrir hönd 54 ríkja í mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna varðandi mannréttindabrot vegna kynhneigðar.

Ráðist að fólki í Gay Pride göngum

Gay Pride göngur í Riga í Lettlandi og í Búkarest í Rúmeníu enduðu með ofbeldi þar sem ráðist var á göngufólk. Það vakti athygli að lögregluyfirvöld í Riga töldu sig ekki geta verndað göngufólk, en síðar á árinu var leiðtogafundur NATO haldinn í borginni og var ekki að sjá að það ylli lögreglunni vandræðum. Um tugur manna slasaðist í Búkarest, en nunnur og prestar tóku m.a. þátt í árásum á göngufólk og réðust mótmælendurnir í gegnum hindranir lögreglu. Bæði í Búkarest og í Rúmeníu lýstu trúfélög og ýmsir stjórnmálamenn yfir mikilli andstöðu við Gay Pride göngurnar. Helgistund var haldin í anglikönsku kirkjunni í Riga með göngufólki en að henni lokinni var ráðist á það á leið frá kirkju til fréttamannafundar á hóteli í nágrenninu. Sigur vannst í Varsjá í Póllandi þar sem borgarstjóri veitti leyfi fyrir göngu, en tvö hin fyrri ár hafði slíkt verið bannað. Lögregla í Moskvu stöðvaði Gay Pride göngu eftir að hún hafði verið bönnuð og voru 120 manns handteknir. Þrátt fyrir mótmæli ráðamanna í Póllandi við þeirri útbreiddu skoðun að stjórnvöld þar ýti markvisst undir andstöðu við mannréttindi samkynhneigðra, hefur Evrópuráðið séð ástæðu til að setja ofan í við stjórnvöld þar vegna þessa svo og við stjórnir annarra ríkja þar sem ofbeldi virðist fara vaxandi, meðal annars í Rússlandi og Lettlandi.

Lög um staðfesta samvist

Nú hillir undir að yfirvöld í í Uruguay samþykki lög um staðfesta samvist. Í Suður-Afríku var samþykkt að samkynhneigðir mættu ganga í hjónaband. Ekki eru allir á einu máli um hvort sú ákvörðun hafi verið tekin vegna vilja um að auka mannréttindi samkynhneigðra og hafa sumir bent á að hér sé fremur um hluta af sáttarferli post-apartheid-tímans að ræða. Engu að síður er það orðið að veruleika. Annars staðar í Afríku er mannréttindamálum samkynhneigðra illa komið. Þrettán menn, sá yngsti 17 ára, voru handteknir í Cameroon, sakaðir um samkynhneigð, en sleppt eftir nokkurn tíma. Í Úganda hafa árásir verið skipulagðar á lesbíur og homma og hafa myndir og nöfn fólks sem ásakað er um samkynhneigð verið birt í fjölmiðlum. Ekki þarf að fjölyrða að samkynhneigð er stranglega bönnuð í Úganda.

Í Nígeríu ganga stjórnvöld æ lengra við að útskúfa hinsegin fólk. Samkvæmt nýjum lögum þar verður brátt saknæmt að hygla eða láta í ljósi stuðning við réttindi hinsegin fólks, fyrir mök einstaklinga af sama kyni skal refsað og allt það sem minnt getur á eða leitt athygli að hinsegin fólki er bannað eða ámælisvert. Samtök samkynhneigðra í Chile hafa lýst yfir áhyggjum af auknu ofbeldi þar í landi sem stjórnvöld virðast ekki hafa mikinn hug á að stöðva. Í El Salvador hefur ofbeldi verið viðvarandi gegn samkynhneigðum og hefur kaþólska kirkjan í El Salvador m.a. barist fyrir stjórnarskrárákvæðum þess efnis að samkynhneigðir megi ekki ganga í hjónaband eða ættleiða börn.

Herferð Amnesty gegn ofbeldi í Bandaríkjunum

Sú deild Amnesty International í Bandaríkjunum sem vinnur að málum lesbía, homma, tvíkynhneigðra og transgender-fólks, efndi til mikillar herferðar gegn lögregluofbeldi á hendur hinsegin fólki þar í landi. Komið hefur í ljós að það er beitt ofbeldi af hálfu lögreglu auk þess sem kærum þess efnis er illa eða alls ekki sinnt. Þá hefur umræða um hjónabönd samkynhneigðra vart farið framhjá neinum þar sem þeim hefur verið hafnað í flestum fylkjum Bandaríkjanna.

Amnesty International

Amnesty International (www.amnesty.is / www.amnesty.org) eru virtustu mann-réttindasamtök í heimi. Þau hafa árum saman barist fyrir mannréttindum í svokölluðu LGBT-neti (Lesbian, Gay, Bisexual and Transgender Net). Amnesty lítur svo á að það sé brot á alþjóðamannréttindum að mismuna fólki eftir kynhneigð og þetta starf samtakanna er í örum vexti.

Mannréttindastarf Amnesty byggist á þrýstingi á þá sem fremja mannréttindabrot með því að upplýsa um brotin eftir ítarlega rannsókn. Með því að virkja almennng til bréfaskrifta í gegnum hópastarf Amnesty hafa margir verið leystir úr haldi. En ekki er nauðsynlegt að vera félagi í Amnesty International til að taka þátt, því að hægt er að nálgast upplýsingar á vefsíðum samtakanna um þau mál sem verið er að berjast fyrir og þannig geta allir t
ekið þátt. Það hefur staðið til um nokkurra ára skeið að stofna starfshóp lesbía, homma, tvíkynhneigðra og transgender-fólks innan Amnesty International hér á landi. Þau sem áhuga hafa á slíku starfi eru hvött til að hafa samband við skrifstofu samtakanna hér á landi.

-GE

Skrifaðu athugasemd