Jákvæðar ímyndir í eldhúsi heimsins – Fyrirmyndarhommar í þýsku sjónvarpi

By 11. apríl, 2001Fréttir

Frettir ?Tatarata – maturinn er til,? trallar Max í eldhúsinu meðan Holger stráir rósablöðum yfir borðstofuborðið. Á matseðlinum eru djúpfrystir ljúfmetisréttir frá Iglo, fram bornir af fyrsta hommapari í þýsku auglýsingasjónvarpi. Fjórar auglýsingar hafa verið sýndar og ætlunin er að bæta einni í seríuna í hverjum mánuði.

Það þykir jafngilda dálítilli byltingu þegar stórt auglýsingafyrirtæki leggur blessun sína yfir auglýsingaröð með þessum formerkjum. Í heimi hinnar fullkomnu fjölskylduímyndar í auglýsingum sem lúta að heimilishaldi er þetta djarft spor ? áhættan mikil. ?Kannanir sýna þó að heimilishamingja hommanna tveggja stuðar ekki almenning,? segir einn af auglýsingastjórum fyrirtækisins Iglo, Ute Sievert.

Ekki keppinautar heldur jákvæð fyrirmynd húsmæðra

Nú er það ekki svo að menn telji homma svo stóran markhóp að verið sé að höfða til þeirra, þvert á móti vonast menn til þess að ná til hinnar almennu og ef til vill íhaldssömu húsmóður. Það fari einfaldlega það orð af hommum að þeir séu smekkmenn og kunni góðra hluta að njóta og það sem þeir leggi sér til munns sé væntanlega óhætt að bjóða sómasamlegasta fólki. ?Þar að auki ergja þeir ekki hversdagslegar húsmæður sem finnst þær fara halloka í samanburði við hinar fullkomnu heimilisfreyjur auglýsinganna,? segir Günther Sendmeier, framkvæmdastjóri auglýsingastofunnar McCann-Erickson, sem hannaði herferðina.

Úr heterósexúal hóstasaft í hómósexúal ljúfmetisrétti

Þótt ýmsum þyki týpurnar óþægilega náægt klisjuhugmyndinni um hommana, þá var lögð á það mikil áhersla að þeir skiluðu sér sem alvöru manneskjur á skjánum. Æviágrip og persónulýsing upp á sextán síður var skrifuð fyrir hvora persónu fyrir sig, og 200 leikarar af ýmsum kynhneigðum þreyttu áheyrnarpróf. Loks hrepptu tveir leikarar frá Hamborg hnossið, annar þeirra þegar þekktur úr heimi auglýsinganna sem kærleiksríkur fjölskyldufaðir í auglýsingu fyrir hóstasaft. Þetta þótti vafasöm fortíð fyrir upprennandi fyrirmyndarhomma í sjónvarpi en menn voru sannfærðir um að þessir tveir væru hinir réttu. ?Mikilvægast var að við fyndum týpur sem væru trúverðugar og hefðu hina réttu útgeislun,? sagði talsmaður Markenfilm um hlutverkavalið. Og samkvæmt handriti þarf töluvert til því að Max og Holger eiga að vera sjarmerandi, menntaðir, menningarlegir, fyndnir, uppáfinningasamir, viðfelldnir -og um fram allt ástfangnir. Max hefur dálítið hvella og hommalega framgöngu en Holger er teflt fram sem mótvægi við hann.

Fyrsti samningur leikaranna hljóðaði upp á eitt ár, en eftir rífandi viðtökur áhorfenda urðu þeir að framlengja hann um ár til viðbótar ? hvað sem svo verður.

Til að kynnast Holger og Max liggur slóðin yfir á www.holgerundmax.de

Jón St. Kristjánsson, fréttaritari Berlín

52 Comments

Skrifaðu athugasemd