Bandaríkin – Bush segir hjónabandið heilagt og ekki ætlað samkynhneigðum

By 6. febrúar, 2004Fréttir

Frettir Hæstiréttur Massachusetts komst í gær að þeirri niðurstöðu að leyfa yrði hjónabönd samkynhneigðra og að staðfest samvist, líkt og leyfð er í Vermont, veiti ekki sambærileg réttindi. Það var þing Massachussetts sem óskaði álits hæstaréttar á því hve langt yrði að ganga í lagasetningu til þess að tryggja samkynhneigðum fullt jafnrétti. ?Saga þjóðar okkar sýnir að aðskilnaður hefur sjaldan, ef nokkurn tíman, tryggt jafnrétti fólks? segir í meirihlutaáliti dómsins. George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, brást hins vegar hart við og í skriflegri yfirlýsingu sem hann sendi frá sér segir meðal annars:

?Hjónabandið er heilög stofnun karls og konu. Ef dómarar krefjast þess að það verði endurskilgreint með dómsúrskurði þá er breyting á stjórnarskránni, sem tryggir að samkynhneigðir fái ekki að giftast, eina lausnin. Það er skylda okkar að framkvæma það sem er lagalega nauðsynlegt til að verja heilagleika hjónabandsins.?

John Kerry, sem nú er efstur í forvali Demókrataflokksins, er einmitt Öldungardeildarþingmaður fyrir ríkið sem styrinn stendur nú um; Massachussetts. Af viðtölum að dæma er hann hlynntur staðfestri samvist, en aftur á móti andvígur borgaralegum giftingum samkynhneigðra. Sú afstaða virðist ríkjandi meðal þeirra sem eiga raunhæfa möguleika á tilnefningu flokksins til þess að etja kappi við Bush um Hvíta húsið næsta haust. Það má því segja að þó svo að frambjóðendur Demókrata vilji ekki ganga alla leið í réttindamálum samkynhneigðra, þá sé munurinn á afstöðu frambjóðenda flokkanna tveggja eins og svart og hvítt. Andstyggð George W. Bush og ríkisstjórnar hans á samkynhneigðum er enda löngu þekkt og hefur af ýmsum tilefnum komið í ljós á undanförnum árum.

Þrjátíu og sjö ríki Bandaríkjanna hafa nú þegar samþykkt lög sem koma eiga veg fyrir ?slys? eins og það sem er að verða í Massachussetts, og brátt mun Ohio einnig bætast í þann hóp. Fyrirhuguð lög í Ohio ganga raunar mun lengra en áður hefur sést því samkvæmt þeim verður gifting karls og konu eina viðurkennda sambúðarformið í ríkinu; þ.e öll sambúð önnur en gifting veitir þar engin réttindi. Þrátt fyrir jákvæðar fréttir frá Massachussetts eru Bandaríkin því enn áratugum á eftir Evrópu þegar kemur að frelsi og lýðréttindum lesbía og homma.

53 Comments

Skrifaðu athugasemd