? Við erum að verða vitni að breytingu á samfélaginu? – Kanada lögleiðir giftingu samkynhneigðra!

By 25. júní, 2003Fréttir

Frettir Kanada verður þriðja landið í heiminum til þess að lögleiða giftingu samkynhneigðra. Nýja löggjöfin mun hugsanlega einnig hafa áhrif á stöðu samkynhneigðra í Bandaríkjunum. Kanada gengur lengra í frjálsræðisátt en bæði Holland og Belgía.

Jean Chretien, forsætisráðherra Kanada, hefur lýst því yfir að hann muni á næstunni leggja fyrir kanadíska þingið frumvarp sem veita mun samkynhneigðum pörum sama rétt til hjúskapar og gagnkynhneigðum. Gangi þetta eftir verður Kanada þriðja landið í heiminum, á eftir Hollandi og Belgíu, sem gengur alla leið og heimilar eiginlegar giftingar samkynhneigðra. Þessi ákvörðun kemur í kjölfar dóma þar sem úrskurðað hefur verið að hin hefðbundna skilgreining á hjónabandi, sem einungis miðast við karl og konu, brjóti gegn stjórnarskrá landsins. Þannig hefur áfrýjunardómstóll í Ontario nú þegar ógilt hina kynbundnu skilgreiningu á hjónabandi og breytt í ?hjúskapur tveggja einstaklinga?. Dómstólar í Bresku Kólumbíu og í Quèbec hafa einnig komist að svipaðri niðurstöðu og þannig þvingað stjórnvöld til þess að endurskoða hjúskaparlöggjöfina.

?Við erum að verða vitni að breytingu á samfélaginu,? er haft eftir Chretien eftir ríkisstjórnarfund á þriðjudaginn. Hann tekur fram að trúfélögum muni verða í sjálfsvald sett hvort þau leggi blessun sína yfir hjónabönd samkynhneigðra því að ekki sé ætlunin að löggjöfin skerði trúfrelsi í landinu. Skoðanakannanir sýna að naumur meirihluti landsmanna er fylgjandi málinu, en hins vegar er ekki búist við mikilli andstöðu í flokki Chrètiens, Frjálslynda flokkinum, sem hefur mikinn þingstyrk og hreinan meirihluta á kanadíska sambandsþinginu.

Athygli vekur að löggjöfin í Kanada mun ganga lengra í frjálsræðisátt en bæði í Hollandi og Belgíu því að ekki verður krafist kanadísks ríkisborgararéttar (hins vegar þarf fólk að dvelja minnst eitt ár í landinu til þess að fá lögskilnað!). Kanada mun því verða fyrsta landið í heiminum sem gefur bandarískum hommum og lesbíum kost á að ganga í hjónaband. Vegna nálægðar landanna tveggja gæti þetta orðið mikilvægt skref í réttindabáráttu samkynhneigðra í Bandaríkjunum. Nú þegar hafa fjölmörg bandarísk pör lýst yfir áhuga á að skreppa yfir landamærin í norðri og ganga í það heilaga. Það hefur þó enn sem komið er fyrst og fremst táknræna merkingu því ólíklegt er talið að slíkar giftingar verði viðurkenndar af þar til bærum stjórnvöldum heima fyrir. Samkvæmt bandarískum alríkislögum getur viðurkennt hjónaband aðeins orðið milli karls og konu.

Það flækir hins vegar myndina að nokkur fylki Bandaríkjanna svo sem Kalifornía, Hawaii og Connecticut veita samkynhneigðum pörum nokkur samvistarréttindi og í Vermont er í gildi löggjöf um staðfesta samvist. Líklegt er að látið verði reyna á það fyrir dómstólum á þessum stöðum hvort ?kanadísk gifting? verði tekin gild. Einnig verður athyglivert að fylgjast með því að hve miklu leyti bandarísk stjórnvöld muni viðurkenna giftingu kanadískra hjóna af sama kyni. Lendi til dæmis kanadískur ríkisborgari í slysi á ferðalagi í Bandaríkjunum, munu þá bandarísk stjórnvöld viðurkenna rétt maka af sama kyni til að taka ákvarðanir um læknismeðferð? Hvað sem slíkum vangaveltum líður er ljóst að Kanada er nágranna sínum í suðri ? landi frelsisins ? holl fyrirmynd þegar kemur að réttindum samkynhneigðra!

– Hrafnkell Tjörvi Stefánsson

Heimildir: The New York Times / Advocate

2 Comments

Skrifaðu athugasemd