Finnland – Lög um staðfesta samvist samþykkt

By 3. október, 2001Fréttir

Frettir Hinn 28. september s.l. samþykkti þjóðþing Finnlands með 99 atkvæðum gegn 84 lög um staðfesta samvist fyrir pör af sama kyni. Lögin eru í meginatriðum eins og löggjöf hinna Norðurlandanna á þessu sviði. Þó öðlast pör i staðfestri samvist í Finnlandi ekki rétt til ættleiðinga neins konar.

Mikill mannfjöldi hafði safnast saman fyrir framan þinghúsið í Helsinki þennan dag eða yfir þúsund manns. Bar þar mikið á mótmælum trúarofstækishópa en einnig var fjöldi stuðningsmanna frumvarpsins á staðnum.

Öll önnur þjóðþing sjálfstæðra Norðurlandaþjóða hafa áður samþykkt löggjöf um staðfesta samvist og er Finnland því síðast í röðinni til að veita samkynhneigðum borgurum þessi réttindi. Danmörk var fyrst í röðinni 1989, síðan Noregur 1993, Svíþjóð 1995 og Ísland 1996. Einungis Ísland og Danmörk leyfa svokallaðar stjúpættleiðingar í staðfestri samvist, en umræður eru heitar í Svíþjóð um þessar mundir um það hvort leyfa eigi pörum í staðfestri samvist að ættleiða börn. Önnur ríki sem sett hafa lög um staðfesta samvist eru Holland, Frakkland, Belgía og Þýskaland. Í Hollandi hefur einnig verið sett löggjöf um að samkynhneigðir geti gengið í hjónaband með fullum réttindum, þ.m.t. rétti til ættleiðinga.

RFSL Homoplaneten; Huvudstadsbladet; Nya Åland

47 Comments

Skrifaðu athugasemd