Fyrirlestrarröð: Líf og reynsla transgenderfólks

By 26. janúar, 2006Fréttir

Í vetur bjóða Samtökin ´78 til hádegisfyrirlestra í Háskóla Íslands. Sex fræðimenn, innlendir og erlendir, fjalla um margvísleg fræðasvið sín undir yfirskriftinni „Kynhneigð – Menning – Saga“. Meðal fyrirlesara eru tveir virtir fræðimenn, Susan Stryker frá Bandaríkjunum og Ken Plummer frá Bretlandi. Fyrirlestrarnir eru haldnir í samvinnu við félagsvísindadeild HÍ, RIKK – Rannsóknarstofu í kvenna- og kynjafræðum, Hugvísindastofnun HÍ, FSS – Félag STK-stúdenta og Mannréttindaskrifstofu Íslands. Fyrirlestrarnir eru haldnir annan hvern föstudag í stofu 101 í Odda, húsi félagsvísindadeildar, þeir hefjast kl. 12 á hádegi og eru öllum opnir.

LÍF OG REYNSLA TRANSGENDER FÓLKS

Föstudaginn 10. mars er svo komið að Susan Stryker frá Bandaríkjunum, en fyrirlestur sinn kallar hún An Introduction to Transgender Studies – A Personal and Professional Account. Susan Stryker er þekkt fyrir framlag sitt til upplýstrar umræðu um líf og reynslu transgender-fólks og hefur sent frá sér fjölda fræðigreina og ritstýrt safnritum um það efni. Eftir hana liggja tvö vinsæl heimildarit, Gay by the Bay og Queer Pulp, og hún er annar höfundur heimildamyndarinnar Screaming Queens sem sýnd er á Hinsegin bíódögum í Reykjavík í mars. Í fyrirlestri sínum fjallar Susan um reynslu sína sem yfirlýst transsexual manneskja í bandarísku fræðasamfélagi, upphaf fræðirannsókna um transgender-reynslu á síðasta áratug, samband þeirra fræða við kvennafræði og hinsegin fræði og mögulegt gildi þeirra fyrir félags- og hugvísindi framtíðarinnar.

Skrifaðu athugasemd