Færeyjar – Dvínandi andstaða við samvistarlöggjöfina

By 29. ágúst, 2002Fréttir

Frettir Stærsta dagblað Færeyinga, Dimmalætting (Dögun), hefur efnt til skoðanakönnunar meðal þingmanna á lögþingi Færeyinga. Spurt var um það hvort þeir séu með eða á móti því að Færeyingar samþykki lög um staðfesta samvist, en nú eru Færeyingar einir Norðurlandaþjóða án slíkrar löggjafar. Þeir eru líka eina norræna þjóðin sem ekki hefur sett verndarlöggjöf til handa samkynhneigðum. Þetta er í fyrsta sinn sem lögþingsmenn eru spurðir slíkrar spurningar í opinberri skoðanakönnun og það þykir tíðindavert að ekki virðist lengur hrein andstaða við lagasetninguna á lögþinginu.

31 þingmaður af 32 svaraði könnuninni og sýnir hún þessar niðurstöður:

Fylgjandi tafarlaust: 7

Vilja bíða um sinn: 11

Á móti: 13

Samkynhneigðir Færeyingar fagna þessum niðurstöðum og tala um byltingu hugarfarsins í því sambandi, en hingað til hefur andstaða stjórnmálamanna verið mikil þar í eyjum við mannréttindakröfur homma og lesbía, sem á ástúðlegu færeysku götumáli kallast ?gjeikarar? og ?lebbur?. Tal þeirra um byltingu hugarfarsins er skiljanlegt í ljósi þeirrar staðreyndar að færeysk stjórnvöld hafa ýmist með þögn sinni eða opinskárri andstöðu við mannréttindi okkar beinlínis stuðlað að þeim hatursáróðri sem heittrúað safnaðarfólk í Færeyjum beitir lesbíur og homma.

Afleiðingarnar fyrir samkynhneigða Færeyinga eru meira og minna þær sömu og fyrir Íslendinga á sínum tíma: Hommar og lesbíur yfirgefa hópum saman heimaland sitt til þess að geta notið sín á eðlilegan hátt í samfélaginu. Þó að almenningsálitið hafi óneitanlega tekið stórstígum framförum og að yfirleitt sé fjallað um samkynhneigða í fjölmiðlum á ábyrgan, teprulausan og upplýsandi hátt, er veldi sértrúarflokkanna engu að síður mikið. Þeir eiga gríðarleg ítök í pólitísku lífi þjóðarinnar og fundamentalistar trúarinnar eru tengdir auði, völdum og framapoti á flóknari og rótgrónari hátt en gesti þeirra grunar. Engin furða þó að hægt miði á lögþingi Færeyinga.

Þið sem viljið kynnast færeyskum hommum og lesbíum, skoðið vefsíðuna www.gjeikari.dk og hafið svo samband. Þau eru þar með sitt spjallsvæði og svara á aðskiljanlegum tungumálum enda eru Færeyingar ágætir tungumálamenn eins og títt er um smáþjóðir.

46 Comments

Skrifaðu athugasemd