Þýskaland – Rassía í Ruhr

By 7. mars, 2001Fréttir

Frettir Frá Bandaríkjunum og öðrum þróunarríkjum berast anað slagið sögur af rassíum sem til þess eru gerðar að auðmýkja samkynhneigða. Í stórborgum Evrópu hafa menn talið þær heyra til liðinni tíð. Því var mörgum hommum og málsvörum þeirra brugðið þegar lið lögreglumanna ruddist inn í þrjár sánur Phoenix-keðjunnar, í Düsseldorf, Essen og Köln, í sameiginlegu átaki lögregluyfirvalda borganna.

Vitað er að allt frá því að sánunni í Essen var komið á fót höfðu ærukærar viðskiptastofnanir í nágrenninu horn í síðu staðarins. Nokkrar þeirra réðu til sín spæjara til þess að grennslast fyrir um hvað óhreint kynni að leynast í pokahorninu hjá Poenix-keðjunni. Og fagmennirnir fundu út að í sánunni í Düsseldorf ættu sér stað viðskipti af vændistoga. Þar áttu ólögráða drengir undir 16 ára aldri að vera að bjóða blíðu sína rosknum gestum baðhússins. Prósentur af hórhýrunni voru svo sagðar lenda í vasa eigendanna.

Skýrsla spæjaranna var lögð fyrir lögregluyfirvöld sem aftur lagði hana fyrir dómsvaldið. Eitthvað virðast menn hafa verið í vafa um tilefni aðgerða þar sem ár leið frá því skýrslan var afhent og þar til rassían var gerð. Í millitíðinn var reyndar gerð húsleit hjá eigendum keðjunnar án þess að nokkur gögn fyndust sem styddu ásakanirnar. Þó varð úr á endanum að lögreglan gerði áhlaup sitt – samtímis á allar þrjár sánurnar. Óð lögregluliðið inn í baðhúsin með vasaljós og myndbandsupptökuvélar á lofti og heimtaði skilríki. Það er með nokkru stolti að blöð samkynhneigðra í Þýskalandi herma frá því að flestir hafi sýnt af sér Stonewall-anda og neitað að gera grein fyrir sér. Eftir að hafa stormað um stofnanirnar um stund varð lögreglan svo slyppifeng frá að hverfa. Hvergi var ólögráða pilta að finna ? hvað þá vændisstarfssemi.

Gengið framhjá samkynhneigðu lögreglufólki

Þar með má segja að sagan sé öll. Nema hvað mönnum hér er brugðið og fjölmiðlar samkynhneigðra, einkum í Ruhr-héraðinu, hefur mikið fjallað um málið og lesendur látið áhyggjur sínar í ljósi í bréfum. Mörgum er mikið niðri fyrir og spyrja sig hvernig slíkt geti gerst og það hjá lögregluyfirvöldum sem hafa í sínum röðum starfshóp samkynhneigðrar lögreglu, bæði konur og karla, AlsPol, sem auglýsir tilvist sína og starfsemi meðal annars á glasamottum á veitingastöðum samkynhneigðra. Hefðu ekki verið hæg heimatökin að kynna sér hjá þeim hvers eðlis þjónusta sánanna er? Eða eins og einn lesandi skrifaði: ?Það eru ekki veraldarvanir menn sem halda að sánur séu vænlegastar til vændisstarfa.?

Maður getur rétt ímyndað sér hvað er í gangi!

Svör fást væntanlega aldrei um það hverjar orsakirnar voru fyrir þessu upphlaupi. Blaðamaður tímaritsins RIK lagði sig eftir því að komast nánar að hvaða sterku rök spæjarinn hefði fært fram fyrir ásökunum sínum í upphafi. Þau voru til dæmis þessi: Hann og kollegar hans töldu sig hafa séð fjölda roskinna manna í sánunum og dálítinn hóp ungmenna sem ?augsýnilega? voru milli 14 og 17 ára. Þessi ungmenni ?dúkkuðu upp? svo sem eins og inn um bakdyr sánunnar. Ungmennin, hélt spæjarinn áfram, völsuðu um á munkakuflum uns þeir hurfu inn í lokaða klefa.

Hvort fé hefði milli manna farið treysti spæjarinn sér ekki til að segja. En ? ?þegar ungmenni hverfur inn í lokaðan klefa með eldri manni getur maður rétt ímyndað sér hvað er í gangi?.

En hvað svo sem spæjarinn ímyndaði sér, var það ekki í gangi, í neinni af þessum þremur sánum þennan föstudag.

Eigendur Phoenix hafa nú í hyggju að höfða mál á hendur spæjaranum og lögregluyfirvöldum.

Jón St. Kristjánsson, fréttaritari Berlín.

53 Comments

Skrifaðu athugasemd