Málþing: – Minnihlutahópar, kynferði og jafnrétti

By 12. maí, 2004Fréttir

Tilkynningar Næstkomandi laugardag, 15. maí, gengst jafnréttisnefnd Reykjavíkurborgar fyrir málþinginu Minnihlutahópar, kynferði og jafnrétti á Hótel Borg. Málþingið hefst kl. 10 og stendur til kl. 13.30. Húsið opnar kl. 9.30 og er morgunverður af hlaðborði á boðstólum sem kostar kr. 1.000.

Tilefnið er vaxandi umræða um réttindi og stöðu minnihlutahópa í samfélaginu og sú opna spurning hvort stjórnsýslunni beri að gera sérstakar ráðstafanir umfram það sem leiðir af jafnræðisreglu stjórnsýslulaga til að tryggja að fólki sé ekki mismunað á grundvelli minnihlutastöðu þeirra. Er í því sambandi oft vísað til þess að stjórnsýslan lögum samkvæmt hefur komið á fót sérstökum embættum, stofnunum eða nefndum sem starfa að jafnrétti kvenna og karla, bæði á vettvangi sveitarfélaga og ríkisins. Um leið er á það bent að baráttan fyrir jafnrétti karla og kvenna megi ekki einskorðast við þá þjóðfélagshópa sem sýnilegastir eru í samfélaginu, heldur verði hún að ná til allra hópa samfélagsins, enda sé staða karla og kvenna innan minnihlutahópa einnig ólík.

Þessi umræða er alþjóðleg, en tilskipanir ESB gegn mismunun hafa víða haft áhrif í átt að aukinni samþættingu milli starfs að jafnrétti kvenna og karla og starfs að stöðu annarra minnihlutahópa. Þá hafa alþjóðlegir straumar innan stjórnunar- og mannauðsfræða (mulitculturalism – diversity management) einnig ýtt undir þessa þróun.

Jafnréttisnefnd Reykjavíkurborgar, sem starfar á grundvelli laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, lítur á það sem hlutverk sitt að stuðla að aukinni umræðu um þessi mál.

Morgunverðarmálþingið Minnihlutahópar, kynferði og jafnrétti
Dagskrá:

10.00 – 10.10 Setning: Guðný Hildur Magnúsdóttir starfandi formaður jafnréttisnefndar Reykjavíkurborgar

10.10 – 10.30 Jafnrétti kynjanna og jafnræðisreglan: Helga Jónsdóttir borgarritari

10.30 – 10.50 Rannsóknin Minnihlutahópar, kynferði og jafnrétti: Berglind Rós Magnúsdóttir, jafnréttisfulltrúi HÍ

HÍ 10.50 – 11.10. Jafnréttisstarf Háskóla Íslands: Hómfríður Garðarsdóttir lektor HÍ

11.10 – 11.20 Fyrirspurnir / umræður

11.20 – 11.40 Tilskipanir ESB gegn mismunum: Ragnheiður Þorsteinsdóttir lögfræðingur í utanríkisráðuneyti

11.40 ? 12.25 Minnihlutahópar og jafnrétti – ávörp fulltrúa minnihlutahópa

Arnþór Helgason framkvæmdastjóri ÖBÍ
Hafdís Hannesdóttir kvennahópi ÖBÍ
Anh-Dao Tran formaður Samtaka kvenna af erlendum uppruna
Akeem Cujo Oppong, Alþjóðahúsi
Sara Dögg Jónsdóttir fræðslufulltrúi Samtakanna ´78
Hrafnkell Tjörvi Stefánsson framkvæmdastjóri Samtakanna ´78

12.25 – 12.35 Fyrirspurnir / umræður

12.35 – 13.00 Hvernig fara þau að í Ráðhúsinu í Kaupmannahöfn? Hanna Ziadeh jafnréttisráðgjafi innflytjenda hjá Kaupmannahafnarborg

13.00 – 13.20 Fyrirspurnir / umræður

13.20 – 13.30 Samantekt og slit

Fundarstjóri er Hildur Jónsdóttir jafnréttisráðgjafi Reykjavíkurborgar

Aðgangseyrir er kr. 1.000, en innifalið í því er morgunverður af hlaðborði og kaffiveitingar.

Skrifaðu athugasemd