JÖRÐIN ER FLÖT

By 12. desember, 2005Fréttir

Margir kirkjunnar menn hafa gegnum aldir haldið í bábiljur og bull um lífið og tilveruna, löngu eftir að þjóðfélagið í heild sinni hefur, annaðhvort fyrir tilstuðlan vísinda eða fyrir önnur áhrif, séð að bábiljurnar standast ekki. Lengi héldu kirkjunnar menn sig hafa guðfræðilegan rökstuðning fyrir því að jörðin væri flöt, að þrælahald væri guðs vilji, að kynþáttaaðskilnaður væri óbreytanlegur hluti sköpunarverksins, að konur skyldu þegja í söfnuðinum (að þær gegndu prestsembætti kom ekki til mála), og nú síðast að samkynhneigðir séu brenglaðir (eða sjúkir). Þess vegna má ekki vígja þá til staðfestrar samvistar í þjóðkirkjunni því „þá hættir hún að að vera kirkja sem byggir á orðum Jesú Krists“…

Nú er það svo að samkynhneigðir eru vanir því að fólk tjái brenglaðar hugmyndir sínar um þá opinberlega og kippa sér mismikið upp við það. Slíkar hugmyndir lýsa frekar þeim sem þær tjá fremur en hommum og lesbíum. Það er hins vegar alvarlegt þegar þessum órum er beint gegn þjóðkirkjunni og því fólki sem vinnur að því að gera hana að hluta af lífi nútímamannsins en ekki að safngripi á öskuhaugum þeirra bábilja sem fyrr voru nefndar. Þeim starfsmönnum og meðlimum þjóðkirkjunnar, prestum og öðrum sem vinna af heilum hug að því að rétta hlut samkynhneigðra innan kirkjunnar, er vorkunn að þurfa að glíma við þá drauga.

Haukur F. Hannesson í Morgunblaðinu, 1999.

Skrifaðu athugasemd