Spánn – Samkynhneigðir fá að ganga í hjónaband

By 22. apríl, 2005Fréttir

Frettir Neðri deild spænska þingsins hefur samþykkt lagafrumvarp sem mun heimila samkynhneigðum að ganga í hjónaband og ættleiða börn. Búist er við því að efri deildin muni einnig samþykkja frumvarpið á næstunni. Spánverjar munu þá fylgja Belgum og Hollendingum í þessum efnum.

Stuttu eftir að jafnaðarmannflokkur Jose Luis Rodriguez Zapatero vann óvæntan sigur í þingkosningunum á síðasta ári lýsti hinn nýi forsætisráðherra því yfir að ríkisstjórnin stefndi að fullu jafnrétti samkynhneigðum til handa. Var þar um að ræða algjöra kúvendingu frá stefnu hægri stjórnarinnar sem á undan sat. Eins og fyrr segir þá er ætlunin er að lögleiða eiginleg hjónabönd lesbía og homma að fullu og því verður ekki um að ræða staðfesta samvist eins og víðast tíðakast. Lögleiðing hjónabanda samkynhneigðra er aðeins einn liður af mörgun í jafnréttisáætlun stjórnarinnar. Talsmenn kaþólsku kirkjunnar hafa barist hart gegn breytingunni svo og þingmenn stjórnarandstöðunnar.

Viðhorf almennings á Spáni til samkynhneigðra hefur lengi verið mun jákvæðara en meðal annara kaþólskra landa og er líkast því sem best þekkist í Norður-Evrópu. Þannig sýna nýlegar kannanir að um 70% þjóðarinnar eru hlynnt rétti samkynhneigðra til að ganga í hjónaband.

-HTS

Skrifaðu athugasemd