Sigur í skaðabótamáli – Félagsþjónustan í Kópavogi fremur ólögmæta meingerð

By 20. maí, 2003Fréttir

Frettir Mánudaginn 19. maí var kveðinn upp dómur í skaðabótamáli sem Dofri Örn Guðlaugsson höfðaði gegn Kópavogsbæ. Héraðsdómur Reykjaness dæmdi Kópavogsbæ til þess að greiða Dofra 300.000 krónur í miskabætur og úrskurðaði að með því að gera kynhneigð að umræðuefni í starfsviðtali hefði félagsþjónusta bæjarins framið ólögmæta meingerð gegn persónu Dofra.

Málavextir hafa áður verið raktir í frétt hér á vefsíðunni ? 13. apríl 2002 ? en vorið 2002 sótti Dofri um tilsjónarstarf á samt tólf öðrum á sambýli fyrir unglingspilta í Kópavogi. Dofri hafði drjúga reynslu af því að vinna með unglingum og er auk þess með sérmenntun frá Danmörku í rekstri sambýla fyrir unglinga með félagsleg vandamál. Honum var boðið að koma í starfsviðtal hjá félagsmálastjóra Kópavogs ásamt tveimur öðrum umsækjendum. Við vitnaleiðslur fyrir dómi bar Dofri að hann hefði verið spurður að því í starfsviðtalinu hvort það væri rétt að hann væri samkynhneigður og játti hann því, en kvað allar tilraunir sínar til að beina umræðunni á faglegar brautir hafa reynst gagnslausar, viðtalið hefði eftir þetta ekki snúist um annað en kynhneigð hans. Þá bar annar umsækjandi, tvíkynhneigður karlmaður, svipaða sögu fyrir dómi. Aðspurður hafði hann svarað til um kynhneigð sína og sagst eiga kærasta og þar með hefði viðtalið farið út um þúfur. Þriðji umsækjandinn, sem boðið var í viðtal og lýsti sig gagnkynhneigðan, fékk síðan starfið.

Sérstakt úrræði vegna hagsmuna viðkomandi drengja og foreldra þeirra

Félagsmálastjórinn í Kópavogi, Aðalsteinn Sigfússon, lýsti því fyrir dómi að kynhneigð manna skipti ekki máli við ráðningu í störf hjá félagsþjónustunni bæjarfélagsins, en að í þessu tilviki hefði hins vegar verið um sérstakt úrræði að ræða, m.a. vegna þeirra unglingspilta sem ættu að búa á nefndu sambýli. Sökum þess hefði það skipt máli að fá upp á yfirborðið hver kynhneigð umsækjenda væri, enda væri starf umsjónarmannsins sérstaks eðlis og því eðlilegt að fá þetta atriði strax fram og að það mætti ræða á opinskáan hátt, bæði með tilliti til komandi samstarfs við félagsþjónustuna og vegna hagsmuna viðkomandi drengja og foreldra þeirra.

Í dómsorðum héraðsdóms segir að framangreind ummæli félagsmálastjórans feli í sér fordóma í garð samkynhneigðra, þ.e. að velja þurfti umsækjanda úr hópi þriggja manna sem líklegastur væri til að uppfylla hugmyndir Kópavogsbæjar um árekstralaust samstarf við unglingana, foreldra þeirra og félagsþjónustuna. Með því einu að spyrja umsækjendur um kynhneigð þeirra í starfsviðtölunum yrði vart ályktað á annan veg en að sjónarmið um kynhneigð hafi haft töluvert vægi við val á umsjónarmanni í umrædda stöðu. Sá umsækjandi sem varð fyrir valinu sé gagnkynhneigður og skipti spurning um kynhneigð hans því minna máli en í tilviki mannsins sem sé samkynhneigður.

Spurningin um kynhneigð þjónar ekki lögmætum tilgangi

Ályktunarorð dómsins eru þau að stefnandi, Dofri Örn Guðlaugsson, hafi ekki notið jafnrar stöðu á við þann sem fékk starfið og að með því hafi Kópavogsbær brotið gegn jafnræðisreglu 11. greinar stjórnsýslulaga. Þá segir í dóminum að spurningin um kynhneigð hafi ekki þjónað lögmætum tilgangi í starfsviðtalinu og verið til þess fallin að vekja með Dofra þá hugmynd að hann væri vegna kynhneigðar sinnar óæskilegri starfskraftur en ella. Og að með því einu að gera kynhneigð að umræðuefni í starfsviðtalinu hafi félagsþjónusta Kópavogs framið ólögmæta meingerð gegn persónu Dofra. Hann eigi því rétt til miskabóta.

Dómurinn markar söguleg tímamót

Með þessum dómi er brotið blað í mannréttindamálum lesbía og homma hér á landi. Í fyrsta sinn í réttarsögunni hefur tekist að höfða mál fyrir dómstólum þegar brotið hefur verið á rétti samkynhneigðra á vinnumarkaði. Og það sem meira er: Sigur hefur unnist. Dómurinn, sem kveðinn var upp 19. maí, gefur dýrmætt fordæmi, ekki bara í lögfræðilegum skilningi, heldur hefur hann mikið fordæmisgildi hvað varðar þá framkomu sem ber að sýna samkynhneigðum á vinnumarkaði.

Samtökin ´78 óska Dofra Erni og sækjanda, Huldu Rúriksdóttur, lögmanni, til hamingju með lyktir mála. Enn einn sigur hefur unnist í jafnréttisbaráttu okkar.

54 Comments

Skrifaðu athugasemd