87% Íslendinga fylgjandi því að samkynhneigðir gangi í hjónaband

By 30. júní, 2004Fréttir

Frettir Rúmlega 87% íslensku þjóðarinnar telja að lögleiða beri giftingar samkynhneigðra að því er fram kemur í þjóðarpúlsi Gallup sem birtist mánudaginn 28. júní. Þar af telja 69% að leyfa beri giftingar samkynhneigðra í kirkju. Um 18% telja að eingöngu beri að leyfa borgaralegar giftingar þeirra en um 3% að þeir eigi eingöngu af fá að gifta sig í kirkju. Tæp 13% þjóðarinnar telja að lesbíur og hommar eigi ekki að njóta þessa réttar, hvorki með borgaralegri vígslu né kirkjulegri.

Niðurstöður könnunarinnar sæta tíðindum því að hér lýsir hærra hlutfall þjóðarinnar stuðningi við baráttumál samkynhneigðra en nokkru sinni fyrr þegar spurt hefur verið í íslenskum skoðanakönnunum um aðgang þeirra að borgaralegum réttindum. Niðurstöðurnar benda til þess að nú sé almenningsálit á Íslandi nokkurn veginn hið sama og í þeim ríkjum Evrópu ? Hollandi og Danmörk ? sem lýsa eindregnast yfir stuðningi við lýðréttindi homma og lesbía.

Umræða um hjúskaparrétt samkynhneigðra hefur risið hátt síðasta árið og tengist það einkum þeim hræringum og átökum sem átt hafa sér stað í Bandaríkjunum um þetta mál. Forsendur spurninganna sem Gallup lagði fyrir íslenska þjóðarúrtakið á dögunum vekja þó á móti þær neyðarlegu spurningar hvort spyrjendum sé ekki fyllilega ljóst að í átta ár hafa lög um staðfesta samvist samkynhneigðra verið við lýði á Íslandi og í þeim er skýrt tekið fram að staðfesting samvistar hafi sömu réttaráhrif og stofnun hjúskapar ? þó með ákvæðum sem meina samkynhneigðum pörum að frumættleiða börn og konum í staðfestri samvist að njóta aðstoðar við tæknifrjóvgun á opinberum sjúkrastofnunum. Þá er í lögum um staðfesta samvist að finna takmarkanir sem lúta að ríkisfangi og búsetu þeirra sem hyggjast staðfesta samvist sína.

Hjúskaparlög í átta ár

Íslensk þjóð hefur í átta ár lifað við hjúskaparlög til handa samkynhneigðum pörum, þó að þau beri ekki það nafn og séu þeim takmörkunum háð sem hér er lýst. Þessi lög eiga sér nánast samhljóða hliðstæður í norrænum lögum um staðfestingu samvistar. Lög um staðfesta samvist eru nú í gildi á öllum Norðurlöndum, aðeins færeyska lögþingið neitar enn við að samþykkja þau. Réttur til ættleiðinga er mismunandi eftir ríkjunum. Lengst hafa Svíar gengið í lýðræðisátt en þar samþykkti Riksdagen breytingar á lögum árið 2002 sem veitti pörum í staðfestri samvist fullan rétt til ættleiðinga.

Þrátt fyrir þær lítilsvirðandi takmarkanir sem enn eru víðast á norrænum lögum um staðfesta samvist, eru þau fullkomnustu hjúskaparlög til handa samkynhneigðum sem til eru í heiminum í dag með einni undantekningu þó ? Hollandi. Þar lúta nú samkynhneigð og gagnkynhneigð pör einum og sömu hjúskaparlögum og ljóst er að þróunin stefnir í sömu átt á Norðurlöndum. Þróun mála í Hollandi hefur haft mikil áhrif á réttarumræðu í ríkjum Skandinavíu síðustu misseri og að fengnum fullum ættleiðingarrétti samkynhneigðra í Svíþjóð hófust þar lífleg skoðanaskipti um ein hjúskaparlög fyrir samkynhneigð og gagnkynhneigð pör, enda fátt sem skilur á milli lagabálkanna eins og málum er komið þar í landi. Af þessari umræðu hljóta íslenskir alþingismenn að taka mið á næstu misserum.

Semjum ein hjúskaparlög

Af sænskri þjóðmálaumræðu að dæma virðist meirihluti þingmanna nú fylgjandi því að sett verði ein hjúskaparlög í Svíþjóð og með slíkri lagasetningu verði staðfest samvist úr sögunni. Jafnvel Kristilegir demókratar (Kristdemokratarna) sem barist hafa harðast gegn réttindum samkynhneigðra hafa klofnað í afstöðu til málsins. Fylgi hefur hrunið af flokknum síðustu tvö ár og ungliðahreyfing hans telur flokknum ekki lengur stætt á andófi sem stríðir svo mjög gegn almenningsálitinu. Meginrök fjölmargra sænskra þingmanna eru þau að eftir síðustu réttarbætur sé nú nánast enginn munur á hjúskaparlögum og lögum um staðfesta samvist og því beri að fara að dæmi Hollendinga og semja ein hjúskaparlög fyrir alla. Um leið líta þeir svo á að málið strandi á kirkjunni sem ekki staðfestir samvist samkynhneigðra með löggerningi frekar en á Íslandi. Ef ein hjúskaparlög yrðu að veruleika og staðfest samvist hyrfi úr sögunni, yrði sænska kirkjan að taka þátt í löggerningnum eða missa réttinn til hans. Færi svo að hún missti hann yrði öllum verðandi hjónum skylt að leita borgaralegrar vígslu en síðan í sjálfsvald sett hvort þau leituðu kirkjulegrar blessunar á hjónabandi sínu líkt og víða í ríkjum Mið-Evrópu, m.a. í Hollandi. Nokkur spenna ríkir milli sænskra stjórnmálamanna og kirkjuyfirvalda um þetta mál.

Telja má víst að Norðurlönd munu á næstu árum fylgja hinu hollenska fordæmi þó að réttur kirkjunnar til hjónavígslu sem löggernings hljóti að setja þar strik í reikninginn. Í Svíþjóð spyr stjórnmálafólk nú hvort ekki sé tímabært að kirkjan afsali sér réttinum til hjónavígslu sem löggernings til að höggva á þennan hnút. Um leið vekur það athygli að sömu raddir hafa líka heyrst úr röðum kirkjunnar manna þar í landi.

?ÞK

Skrifaðu athugasemd