Starfsskýrlsa Samtakanna '78 2005-2006

By 20. september, 2006Uncategorized

1.  Stjórn starfsmenn, fjármál, samvinna við önnur félög, félagslög

2. Upplýsing og fræðsla, fjölmiðlun og félagslegur stuðningur

3. Almenn félagsstarf

4. Mannréttindamál

5. Að lokum

1. Stjórn, starfsmenn, fjármál, samvinna við önnur félög, félagslög

 

1.1 Aðalfundur, kjör stjórnar og starf með trúnaðarráði

Aðalfundur Samtakanna ’78 var haldinn 19. mars 2005 í húsakynnum félagsins. Viðstaddir voru 43 félagar. Fylgt var dagskrá aðalfundar svo sem lýst er í félagslögum. Aðeins einn listi barst til stjórnarkjörs, listi uppstillingarnefndar, og var hann sjálfkjörinn. Í stjórn tóku sæti:

Hrafnhildur Gunnarsdóttir, formaður
Sigursteinn Másson, varaformaður
Guðbjörg Ottósdóttir, ritari
Þóra Björk Smith, gjaldkeri
Guðjón R. Jónasson, meðstjórnandi
Rannveig Traustadóttir, meðstjórnandi
Viðar Eggertsson, meðstjórnandi

Í trúnaðarráð félagsins voru kosnir 10 félagar, Alfreð Hauksson, Ásta Ósk Hlöðversdóttir, Birna Hrönn Björnsdóttir, Eygló S. Aradóttir, Guðmundur Arnarsson, Jóhann Karl Hirst, Jón Þorsteinsson, Katrín Jónsdóttir, Kristín Sævarsdóttir og Þórhallur Vilhjálmsson. Félagslegir skoðunarmenn reikninga voru kjörnir Sigurjón Guðmundsson og Svavar G. Jónsson.

Stjórnin fundaði 17 sinnum á starfsárinu. Þar sem nýliðun var mikil í stjórn þótti henni nauðsynlegt að funda stíft fram eftir vori til að setja sig inn í margþætta starfsemi félagsins, samskipti við önnur félög, stjórnvöld og stofnanir. Í því skyni efndi stjórn m.a. til kynningarfundar í félagsmiðstöð með trúnaðarráði og fulltrúum annarra félagasamtaka samkynhneigðra og tvíkynhneigðra um miðjan maí. Á fundinum kynntu formaður og varaformaður starf og stefnumið félagsins og hvöttu til virkra samskipta milli stjórnar og trúnaðarráðs. Stjórn og trúnaðarráð funduðu öðru sinni 12. nóvember á Kaffi Reykjavík á ráðstefnu sem stóð heilan dag. Fyrri hluti fundarins var helgaður innri málefnum félagsins en eftir hádegi var vikið að öðrum málefnum þar sem ýmsir höfðu framsögn: Grétar Einarsson ræddi réttindabaráttu samkynhneigðra innan þjóðkirkjunnar. Rannveig Traustadóttir kynnti samkynhneigð fræði, hvernig þau geta nýst samkynhneigðum og þeim áskorunum sem hreyfing þeirra stendur frammi fyrir. Umræður spunnust um hinsegin fræðasetur og hvernig slíkt gæti styrkt aðstæður samkynhneigðra. Guðrún Ögmundsdóttir og Þorvaldur Kristinsson fjölluðu um þær réttarbætur sem felast í frumvarpi ríkisstjórnar sem nú liggur fyrir Alþingi og svöruðu fyrirspurnum þátttakenda.

Síðasti hluti fundarins var opinn gestum til að ræða málefni samkynhneigðra innan íþróttahreyfingarinnar. Umræða og fræðsla um samkynhneigð hefur verið sáralítil innan íslenskrar íþróttahreyfingar og samkynhneigðir, einkum þó hommar, svo til ósýnilegir innan hennar. Til þess að ræða málið buðu Samtökin ’78 Inga Þór Jónssyni, fyrrum Ólympíusundkappa, til fundarins, en hann er nú aðalframkvæmdastjóri Pride Games í Manchester, starfar fyrir bresku ríkisstjórnina að verkefninu Proud Britain og vinnur að undirbúningi Heimsleika samkynhneigðra íþróttamanna í Montreal – Gay Games á næsta ári. Klara Bjartmarz starfsmaður KSÍ og fyrrum stjórnarliði í Samtökunum ’78 hélt einnig framsögu um brottfall samkynhneigðra íþróttamanna. Þar ræddi hún leiðir til að kanna stöðu homma og lesbía innan íþróttahreyfingarinnar og hvernig efla mætti fræðslu innan hennar. Á eftir erindum þeirra Inga og Klöru hófust gagnlegar umræður, en til fundarins var m.a. boðið forystufólki úr íþróttahreyfingunni og stjórnmálum. Meðal þeirra sem tóku til máls voru Anna Kristinsdóttir, formaður íþrótta- og tómstundasviðs Reykjavíkur, Stefán Snær Óskarsson, framkvæmdastjóri ÍSÍ, Líney R. Halldórsdóttir frá menntamálaráðuneytinu og Kjartan Magnússon borgarfulltrúi. Fundarhöld sem þessi kosta drjúga vinnu en Guðjón R. Jónasson og Hrafnkell T. Stefánsson báru hita og þunga af skipulagi fundarins.

1.2. Starfsmannahald, tækjakostur og viðhald húsnæðis

Framkvæmdastjóri félagsins, Hrafnkell T. Stefánsson, starfaði annað árið í fullu starfi. Annast hann dagleg skrifstofustörf svo sem umsjón með félagaskrá og innheimtu félagsgjalda, uppgjör og umsjón með bókhaldi, greiðslu og innheimtu reikninga, bréfaskriftir, fréttaskrif og ritstjórn heimasíðu. Framkvæmdastjóri hefur jafnframt yfirumsjón með daglegu fræðslu- og ráðgjafarstarfi félagsins auk þess sem hann annast tengsl við fjölmiðla og sinnir fyrstur manna þeim sem leita hvers kyns aðstoðar á vettvangi félagsins. Sara Dögg Jónsdóttir fræðslufulltrúi félagsins starfaði á árinu sem lausráðinn verktaki. Sigþór Sigþórsson vann ómetanlegt starf sem umsjónarmaður félagsmiðstöðvar en með honum starfar hópur sjálfboðaliða sem leggur af mörkum mikla og óeigingjarna vinnu.

Síðastliðið vor var sett upp langþráð skilti á framhlið hússins á Laugavegi 3. Fáeinum dögum síðar voru unnin á því skemmdarverk og það rifið niður. Nýtt skilti var þá sett upp nokkru hærra, úr seilingarfjarlægð skemmdarvarga, og hefur það staðið óáreitt síðan og vísað gestum félagsins veginn. Hluti félagsmi&eth
;stöðvarinnar var málaður á árinu og lýsing í Regnbogasal endurbætt. Ljóst er að fasteignin kallar á frekara viðhald í náinni framtíð, múrviðgerðir og allsherjar málningu utan dyra.

Á árinu var keyptur prentari á bókasafn fyrir bókasafnsskírteini og önnur skráningargögn úr Gegni. Þá skutu nokkrir félagsmenn saman í færanlegt hátalarakerfi sem nýtist félagsstarfinu hvar sem efnt er til ræðu- og tónlistarflutnings innan dyra.

1.3. Fjármál og félagatal

Að tillögu félagsmálanefndar Alþingis veitti fjárlaganefnd félaginu 1.000.000 kr. rekstrarstyrk. Forsætisráðuneyti veitti félaginu 1.500.000 kr. til að standa straum af kostnaði við fræðslu, fjölmiðlun og ráðgjöf og félagsmálaráðuneyti 1.500.000 kr. til þess að mæta almennum rekstrarkostnaði. Þá greiddi Reykjavíkurborg félaginu 1.000.000 kr. á þriggja ára þjónustusamningi sem tók gildi á árinu og er m.a. ætlað að mæta kostnaði við stöðugildi framkvæmdastjóra, störf félagsráðgjafa, störf með ungliðahópi, bókakaup og fræðslustarf til starfsmanna Reykjavíkurborgar.

Tekjur félagsins námu alls 12.243.989 kr. og gjöld 11.692.587 kr. Með markvissri fjáröflun hefur því tekist að vinna upp hallarekstur undanfarinna ára. Munar þar mest um stórauknar tekjur af dansleikjum, fjáröflun með merkjasölu á Hinsegin dögum í Reykjavík og styrki til einstakra verkefna. Þá dró verulega úr útgjöldum við endurfjármögnun áhvílandi lána á húsnæði félagsins í lok árs 2004. Þess ber að geta að stór hluti af hagnaði ársins, 370.491 kr., er gengishagnaður af öðru húsnæðisláninu sem tekið var í fjórum erlendum myntum, en vegna þróunar á gengi íslensku krónunnar lækkaði höfuðstóll lánsins sem þeirri upphæð nemur.

Eiginfjárstaða félagsins er góð og styrkist ár frá ári. Verðmæti fasteignarinnar á Laugavegi 3 vex jafnt og þétt en fasteignamat þess hækkaði um 3.381.000 kr. á árinu og er nú 20.285.000, en brunabótamat er 26.700.000 kr. Áhvílandi húsnæðisskuldir um áramót voru 7.726.594 kr.

 Félagar á árinu voru 337. Til samanburðar má nefna að árið 2004 voru þeir 306 og 2003 voru þeir 284. Þegar er ljóst að félögum mun fjölga umtalsvert árið 2006. Félagsgjöld og gjafir félagsmanna námu 1.321.000 kr. á árinu.

1.4. Aðild að öðrum félagasamtökum og mannréttindahreyfingum

Samtökin ’78 urðu aðili að Mannréttindaskrifstofu Íslands vorið 2001. Skrifstofan hefur á undanförnum árum unnið að umræðu, fræðslu og upplýsingaöflun um mannréttindamál hér á landi. Aðalfulltrúi Samtakanna ’78 í stjórn Mannréttindaskrifstofunnar er Hrafnkell T. Stefánsson og varafulltrúi Þóra Björk Smith. Núverandi formaður skrifstofunnar er Brynhildur Flóvenz. Samtökin ’78 eiga aðild að ILGA, International Lesbian and Gay Association, og eru eitt elsta aðildarfélag þess.

1.5. Ný félagslög

Á aðalfundi félagsins 2005 voru samþykkt ný félagslög. Helstu nýmæli þeirra eru að í 1. grein félagslaga er nú skýrt kveðið á um að unnið skuli að málefnum tvíkynhneigðra á sambærilegan hátt og samkynhneigðra. Þá skal uppstillingarnefnd nú kosin á félagsfundi sem gerir lýðræðislegt umboð hennar skýrara gagnvart félagsmönnum. Með lagabreytingunum er félagsmönnum jafnframt auðveldað að boða til félagsfunda, sem eru æðsta ákvörðunarvald félagsins næst aðalfundi.
 

 

2. Upplýsing og fræðsla, fjölmiðlun og félagslegur stuðningur

 

2.1. Fræðslustarf

Líkt og undanfarin ár býður starfsfólk Samtakanna ’78 upp á fræðslufundi fyrir nemendur á öllum skólastigum landsins. Fræðsla til kennara, hjúkrunarfræðinga, félagsráðgjafa og annarra fagstétta færist auk þess í vöxt og sá þess stað á starfsárinu.

Sara Dögg Jónsdóttir, grunnskólakennari, hefur gegnt starfi fræðslufulltrúa félagsins frá árinu 2001. Veturinn 2005–2006 sinnti hún starfinu eingöngu sem lausráðinn verktaki en yfirumsjón með því höfðu Hrafnkell T. Stefánsson og Birna Hrönn Björnsdóttir, leiðbeinandi í ungliðahópi. Með þeim hefur verið myndað sérstakt fræðsluteymi sem í eru núverandi og fyrrverandi meðlimir í ungliðahópi félagsins auk annars ungs fólks sem áhuga hefur á að sinna skólafundum. Þannig hafa einnig komið að starfinu félagar í FSS, félagi-STK stúdenta, og veitt ómetanlega hjálp. Lögð er áhersla á að fundirnir séu á grundvelli jafningjafræðslu, lifandi, skemmtilegir og fræðandi í senn. Í því skyni hefur aðkoma ungliðahópsins að fræðslufundunum heppnast mjög vel því að þannig fræðast nemendurnir af samkynhneigðum jafnöldrum sínum.

Mikil fjölgun funda frá fyrri árum er skýr vísbending um það að kennarar og skólastjórnendur geri sér æ betur grein fyrir því að fræðsla um líf og reynslu samkynhneigðra er sjálfsögð og eðlileg í skólastarfinu. Á starfsárinu voru haldnir alls 53 skólafundir, þar af 22 á grunnskólastigi, 25 á framhaldsskólastigi og 6 fundir í félagsmiðstöðvum. Þá hélt fræðslufulltrúi tvo fundi með kennurum í grunnskóla, einn fund með fræðsluráði Hafnarfjarðar auk þess sem tvívegis voru haldnir fræðslufundir með hjúkrunarfræðingum í Kópavogsbæ og einn fundur með starfsf&oacut
e;lki heilsugæslunnar á Norðurlandi. Þá hélt framkvæmdastjóri erindi um starfsemi félagsins á sérstöku kynningarkvöldi með símsvörunarfólki í hjálparsíma Rauða krossins, 1717. Það var hluti af stærra átaksviku á vegum Rauða krossins um samkynhneigð en fulltrúar þeirra leituðu aðstoðar við að hanna kynningarefni um samkynhneigð sem var þemað í þetta skipti. Eitt af markmiðum 1717 eru forvarnir gegn sjálfsvígum en almennt er talið að þeir hópar sem ekki hafa viðurkennt og öðlast sátt við kynhneigð sína séu í meiri sjálfsvígshættu en aðrir vegna innri togstreitu og vanlíðunar. Einnig hafa rannsóknir sýnt að mjög margir sem eru í þessari stöðu þjást af þunglyndi og kvíða. Tilgangur átaksvikunnar er því m.a. að reyna að ná til þessa hóps og aðstandenda þeirra.

Með þjónustusamningi félagsins við Reykjavíkurborg varð sú nýbreyttni á starfsárinu að nú annast félagið skipulega fræðslu til handa fagstéttum sem starfa á þjónustumiðstöðvum Reykjavíkurborgar. Með fræðslunni gefst ómetanlegt tækifæri til þess að kynna félagsráðgjöfum og öðru starfsfólki þjónustumiðstöðvanna þjónustu félagsins svo sem sérhæfða félagsráðgjöf, ungliðahóp, bókasafn og fleira. Guðbjörg Ottósdóttir og Birna Hrönn Björnsdóttir hafa annast þessa fundi saman.

Fundahöld og fyrirlestrar eru aðeins einn þáttur í starfi félagsins að fræðslumálum því auk þess ræðir Hrafnkell T. Stefánsson við hópa nemenda sem koma á vettvang og leita fræðslu um félagið og málefni samkynhneigðra við ritgerða- og verkefnavinnu. Slíkir fundir eru tíðari eftir því sem ofar er komið í skólakerfinu, og á háskólastigi er nánast eingöngu um slíka fundi/viðtöl að ræða. Á starfsárinu töldu slíkar heimsóknir 18 hópa. Fjöldi upplýsinga í gegnum síma og tölvupóst vegna verkefnavinnu nemenda liggur hins vegar ekki fyrir.

Með styrk Landlæknisembættisins voru upplýsingakort til nemenda endurprentuð í 4000 eintaka upplagi. Þar er í hnitmiðuðum texta á annarri hlið talað við samkynhneigða og tvíkynhneigða unglinga og hvert sé hægt að leita eftir stuðningi. Á hinni hliðinni er talað til gagnkynhneigðra unglinga og hvað þeir geti gert til þess að styðja samkynhneigða félaga sína þegar þeir taka fyrstu skrefin í átt til sýnileika. Kortunum var dreift í alla 10. bekki grunnskóla landsins og nýtast líka vel á fræðslufundum.

Anna Einarsdóttir og Þorvaldur Kristinsson hafa um skeið unnið að texta í útgáfuefni um samkynhneigða á vinnumarkaði og hvað hafa beri í huga til að búa hinsegin fólki sem bestar aðstæður á vinnustað, hvernig stuðla megi að sýnileika þess og forða einelti. Nokkurt fé hefur fengist til þessa verkefnis og stefnt er að því að prenta og gefa það út á miðju ári.

Langtímamarkmið fræðslustarfsins er að gera kennara og aðrar fagstéttir smám saman sjálfbjarga í fræðslu um samkynhneigða. Til þess að svo megi verða er afar brýnt að kynhneigðar verði getið í námsskrám skóla og að verðandi kennurum sé boðið upp á fræðslu um samkynhneigð í námskeiðum til kennaraprófs en nú hillir undir að fyrra atriðið verði að veruleika eins og lesa má um í kafla 4.1. hér á eftir.

Á hausti ákvað stjórn félagsins að styrkja nemendur á háskólastigi með dálítilli upphæð til vinnu við lokaritgerð sem fjallaði að einhverju leyti um þau málefni sem félagið ber fyrir brjósti. Fimm umsóknir bárust og verður gengið frá styrkveitingu innan skamms.

2.2. Ráðgjafarstarf

Félagsráðgjöf Samtakanna ’78 starfaði fimmta árið í röð. Anni G. Haugen og Guðbjörg Ottósdóttir, sinntu henni, en þær eru báðar félagsráðgjafar með mikla reynslu. Boðið er upp á 1–3 viðtöl, en ef talin er þörf á fleiri viðtölum eða meðferð er bent á aðra sérfræðinga utan félagsins. Eftirspurn eftir viðtölum er sveiflukennd og langmest var hún síðari hluta árs. Mun fleiri konur en karlar komu í viðtöl, en einnig komu nokkur pör í viðtöl svo og aðstandendur samkynhneigðra. Þá unnu félagsráðgjafarnir að réttindamálum samkynhneigðra foreldra við nokkrar stofnanir, m.a. með fundarhöldum og símtölum. Tæplega 30% þeirra sem leituðu ráðgjafar voru undir þrítugu, 20% yfir fertugu, en alls sinntu ráðgjafarnir 56 viðtölum og hafa þau aldrei verið fleiri. Fyrir marga er viðtalið fyrsta heimsókn í húsnæði Samtakanna ’78 og að því loknu er viðkomandi boðið að skoða sig um og bent á að í bókasafninu sé að finna mikið efni um samkynhneigð. Greinilegt er að Netið skiptir flesta sem koma miklu máli, bæði til að leita upplýsinga og til að komast í samband við aðra.

Helstu ástæðurnar fyrir því að óska eftir viðtali við félagsráðgjafa voru ýmsar vangaveltur sem tengjast því að „koma út“ og óöryggi tengt kynhneigð. Spurningarnar sem tengjast því að „koma út“ varða ekki síst eigin sjálfsmynd, hvernig og hverjum eigi að segja frá, og spurningum um það hvernig líf samkynhneigðra sé. Hjá þeim sem eiga börn vaknar nær alltaf spurningin um hvort kynhneigðin eða breytt lífsmynstur muni hafa áhrif á börnin, hvernig og hvenær eigi að segja þeim frá, og hvort rétt sé að ræða þessi mál við kennara og aðra sem sinna börnunum. Margir velta einnig fyrir sér hvar hægt sé að hit
ta aðra samkynhneigða, sérstaklega ef viðkomandi hefur takmarkaðan áhuga á að sækja skemmtistaði. Óöryggi varðandi kynhlutverk tengist oftar en ekki eigin fordómum og því hvernig hægt sé að taka á þeim. Nokkur þeirra sem komu í viðtöl voru í gagnkynhneigðu hjónabandi, óörugg um eigið kynhlutverk og full angistar, kvíða og sektarkenndar yfir því að finna fyrir tilfinningum sem samræmist ekki félagslegri stöðu sem maki í gagnkynhneigðu hjónabandi. Vangaveltur um ýmsar hliðar barnamála bar oft á góma í viðtölunum, t.d. spurningar sem tengjast ólíkum leiðum til að eignast barn, forsendum stjúpættleiðinga, réttindamálum, kjörforeldrum barnanna sjálfra og foreldrum sem ekki fara með forsjá barna sinna. Þá ber transgender-tilfinningar fólks stundum á góma. Athyglisvert er að nokkur þeirra sem koma hafa áður verið í viðtölum hjá öðrum sérfræðingum, svo sem sálfræðingum eða geðlæknum án þess að hafa nokkru sinni rætt um kynhneigð sína. Þá ber að nefna að æ fleiri sérfræðingar benda þjónustuþegum sínum á félagið og óska eftir viðtölum fyrir þá, þannig að þeir geti bæði rætt um samkynhneigð sína og kynnst starfi Samtakanna ’78.

Framkvæmdastjóri starfar í nánu samstarfi við félagsráðgjafana en hann sér um allar tímapantanir. Auk þess sinnir hann fjölda fólks sem kemur á skrifstofu félagsins eða hringir í leit að stuðningi og annast með þeim hætti stuðningsviðtöl á skrifstofutíma. Um 70 slík viðtöl voru skráð á starfsárinu. Framkvæmdastjóri býður ætíð þjónustu félagsráðgjafanna sem margir þiggja, auk þess að gefa upplýsingar um starfsemi FAS, FSS og ungliðahóps Samtakanna ’78 eftir því sem við á.

Með þjónustusamningi Reykjavíkurborgar við félagið hefur ráðgjafarþjónustan treyst sig í sessi á árinu. Samkvæmt samningnum greiðir Reykjavíkurborg félagsráðgjöfunum fyrir hvert viðtal auk þess sem samningurinn kveður á um fræðslu til fagstétta hjá þjónustumiðstöðvum borgarinnar. Er lítill vafi á því að sú kynning sem þar hefur farið fram á sérhæfðri félagsráðgjöf Samtakanna ’78 svo og annarri starfsemi félagsins mun skila sér í aukinni eftirspurn þessarar þjónustu.

2.3. Bókasafn

Bókasafn félagsins var sem fyrr opið á mánudögum og fimmtudögum kl. 20–23. Vorið 2005 var aukið við opnunartíma á laugardögum kl. 13–17, svo alls eru bókaverðir nú til þjónustu 10 tíma í viku. Einnig var safnið opið gestum til lestrar án útlána alla virka daga milli kl. 13–17, alls 20 tíma, og urðu margir til að nýta sér þann möguleika. Hinn nýi opnunartími á laugardögum hlaut dræmar undirtektir í fyrstu en það breyttist til batnaðar í byrjun nýs árs og lofar nú góðu. Safnkosturinn er allur skráður á gagnagrunninn Gegni og aðgengilegur á Netinu. Alls tóku átta félagar vaktir í sjálfboðavinnu en yfirumsjón með rekstri safnsins hefur Jón Sævar Baldvinsson, bókasafnsfræðingur.

Eignir bókasafnsins umfram afskriftir jukust um 223 gögn (157 árið 2004); bókakostur jókst um 155 titla, myndböndum og mynddiskum fjölgaði um 68 titla milli ára, en eldra efni hefur talsvert verið endurnýjað á því formi. Tíu tímarit berast safninu ókeypis en þrjú í innkaupum. Nemendur sækja sem fyrr aðstoð til safnsins við ritgerðaskrif, en með tilkomu greinasafns á vefsíðu félagsins er flestum framhaldsskólanemendum vísað þangað núna. Háskólastúdentar og fræðimenn rata hins vegar í vaxandi mæli á safnið, m.a. í tengslum við námskeið í kynjafræðum, hinsegin fræðum, hjúkrunarfræðum, kennslufræðum og fleiri greinum, enda geymir það safnkost sem ekki er annars staðar til hér á landi. Það er trú þeirra sem að safnamálum félagsins vinna að sú þjónusta skili sér í sterkari meðvitund og auðveldi til muna rannsóknir á veruleika okkar.

Heildarútlán safnsins töldu 1338 titla; aukning er 8.9% frá fyrra ári (4.5% 2004), og skiptast útlán þannig: Skáld- og fræðirit 465, myndbönd og mynddiskar 873. Bækur voru um 35% af útlánum og kvikmyndir um 65%.

Telja má að bókasafn með svo takmarkaðan opnunartíma og mestallan bókakost sinn á erlendum málum megi vel una við um 5–10% aukningu útlána milli ára ef tekið er mið af öðrum söfnum. Þar sem útlán á íslenskum almenningsbókasöfnum stóðu víðast hvar í stað eða drógust jafnvel saman á liðnu ári verður það að teljast ávinningur að hafa náð nokkurri aukningu í útlánum á safni félagsins. En til að halda því marki þarf stöðugt að gæta að eðli innkaupa og ekki síður kynningum. Bæklingi um safnið var á árinu dreift nokkrum sinnum til allra almenningsbókasafna landsins og mæltist vel fyrir. Varð það meðal annars til þess að nokkrir skólabókaverðir heimsóttu safnið og leituðu álits um innkaup á sínum söfnum. Á árinu skráði bókavörður öll tímarit Samtakanna ’78 frá 1980 á gagnagrunn Gegnis og var það mikið verk.

Á síðustu árum hefur verið unnið skipulega að innkaupum, reynt er að gæta jafnvægis í kaupum á myndefni fyrir konur og karla þó að úrvalið sé margfalt meira af efni sem talið er höfða til karla. Hlutfall kvikmynda í safnkostinum er um 60% karlar og 40% konur hvað skráða tilhöfðun varðar í leitarorðum. Þá er leitast við að þétta ákveðna efnis&thor
n;ætti við innkaup á fræðiritum og í byrjun árs 2006 er sérstaklega unnið að því að auka þann bókakost sem lýtur að myndlist, tónlist og kvikmyndum, lögfræði og stjórnmálafræði. Það sætir tíðindum að á árinu veitti menntamálaráðuneytið í fyrsta sinn fjárstyrk til bókakaupa á safnið

2.4. Ný vefsíða

Í desember 2005 birtist á Netinu ný vefsíða Samtakanna ’78. Fyrsta vefsíða félagsins fór í loftið árið 1997, en síðan sem gestir á slóð félagsins þekkja best hóf göngu sína fyrir rúmum sex árum og hefur notið vinsælda og vaxandi aðsóknar. Mjög hefur verið vandað til hinnar nýju síðu. Eftir vandlega skoðun taldi stjórn félagsins farsælast að taka tilboði tölvufyrirtækisins Innn til þess að forrita og setja upp nýja síðu, en útlit hennar hannaði Tómas Hjálmarsson. Síðan er sett upp í ms-sql gagnagrunni og er stuðst við nýjustu útgáfu LISA-vefumsjónarkerfisins sem Innn hefur þróað. Síðan er hýst hjá Símanum en Nettækni gerir félaginu þann góða greiða að hýsa lén og póstþjón félagsins án endurgjalds líkt og undanfarin ár.

Eins og fyrr er lögð áhersla á aðgengilegar upplýsingar um félagið, tilgang þess og markmið, félagsstarf, fræðslu og ráðgjöf. Í öðru lagi er vefsíðan vettvangur fræðslu um baráttumál, líf, menningu og sögu lesbía, homma og tvíkynhneigðra. Við breytingarnar var lögð áhersla á að efni gömlu síðunnar tapaðist ekki og er það meðal annars að finna í ítarlegu safni eldri tilkynninga, frétta og greina. Brynjar Hauksson hjá Nettækni vann óeigingjarnt starf til þess að tryggja að sú yfirfærsla tækist sem best en Þorvaldur Kristinsson og Hrafnkell T. Stefánsson endurskoðuðu alla grunntexta nýju síðunnar. Eftir er að setja upp enskan hluta hennar og er erlendum gestum vísað á upplýsingasíðuna gayice.is Við flutning vefsíðunnar til nýs hýsingaraðila datt síða ungliðahópsins út en hún hefur verið hýst á léninu samtokin78.is/unglidar. Ungliðahópurinn er samt sem áður rækilega kynntur á undirsíðu og unnið er að því að koma síðu hópsins upp aftur á gömlu vefslóðinni.

Með nýrri síðu og bættri tækni bjóðast nýir möguleikar sem ekki voru til staðar á eldri vefsíðum félagsins. Öll vinna við texta er einfaldari en áður, svo og myndvinnsla og aðrar stillingar. Fréttir og tilkynningar birtast á forsíðu en ekki á innsíðum eins og á eldri síðu, og á forsíðu er reglulega vakin athygli á merkilegum greinum í greinasafni. Þá hafa nýir efnisflokkar orðið til eins og Viðtal mánaðarins og Pistilinn skrifar. Í glugganum Moli dagsins er umræða fortíðar daglega rifjuð upp. Þá er hægt að skrá sig í félagið á netinu og greiða verðandi félagar árgjaldið með millifærslu í banka eða fá sendan greiðsluseðil. Þó nokkrir nýir félagsmenn hafa gengið til liðs við Samtökin ’78 með þessum hætti á síðustu mánuðum.

Árið 2006 mun sala auglýsinga á síðuna duga nokkurn veginn til að greiða kostnað við að koma henni upp, en eftir það mun auglýsingasalan skila félaginu drjúgum tekjum. Sá öflugi grunnur sem síðan hvílir á í tæknilegum efnum tryggir að hægt verður að þróa hana áfram eftir því sem fjárráð leyfa. Meðal viðbóta sem vert er að skoða má nefna skrár með hljóði og hreyfimyndir (efni úr sjónvarpi, útvarpi eða almennt kynningarefni), sölu varnings yfir netið, greiðslu félagsgjalda með kreditkorti, skráningu á póstlista, leitarvél og fleira.

Alls birtust 170 tilkynningar á starfsárinu, 53 fréttir, 4 pistlar, 13 nýjar greinar og eitt viðtal. Er þetta svipað og árið á undan.

2.5. Forvarnarverkefnið „Notum smokkinn“

Í kjölfar uggvænlegra talna um aukin nýsmit HIV-veirunnar meðal homma í Evrópu og Norður-Ameríku hleyptu Samtökin ’78 af stokkunum umfangsmikilli dreifingu á ókeypis smokkum undir kjörorðinu „Notum smokkinn“. Þó að aukning HIV-smita meðal homma væri kveikjan að átakinu var ákveðið að beina athyglinni ekki aðeins að þeim hópi heldur einnig að tvíkynhneigðum og gagnkynhneigðum af báðum kynjum.

Félagið leitaði til samstarfsaðila með það fyrir augum að fjármagna innkaup og dreifingu á 50.000 smokkum og sleipiefni og ákvað Sjónvarpsstöðin Skjár einn að styrkja átakið með myndarlegum hætti. Arnheiður Sigurðardóttir og Ívar Magnússon hjá fyrirtækinu Ýmus sáu um innflutning á smokkum frá Sico með magnafslætti sem nam þriðjungi af verði helsta samkeppnisaðilans. Þau önnuðust einnig kaup á sleipiefni frá BioFilm, framleiðanda Astroglide sleypiefnisins. Samstarfið við Ýmus var ánægjulegt enda er þar á ferð fyrirtæki sem á sér þá hugsjón að bæta heilsu almennings. Haraldur Briem sóttvarnarlæknir veitti verkefninu faglega ráðgjöf og Landlæknisembættið styrkti átakið. Þar sem FSS var að vinna að heilsuátaki undir nafninu STK-Heilsa var óskað eftir samstarfi við félagið og var það auðsótt. Alnæmissamtökin tóku einnig þátt í verkefninu og komu að dreifingu smokkanna. Tómas Hjálmarsson hannaði glæsilegar umbúðir til að hýsa þessa litlu gjöf sem í eru tveir smokkar og bréf af sleipiefni. Prentmet annaðist prentun á vildarkjörum til styrktar málefninu.

Átakið hófst 28. júlí með því að boðað var til blaðamannafundar og va
r hann vel sóttur af fjölmiðlum. Fyrir svörum sátu þau Hrafnhildur Gunnarsdóttir formaður Samtakanna ´78, Jón Þór Þorleifsson framkvæmdastjóri verkefnisins, Haraldur Briem sóttvarnarlæknir, Ásta Ósk Hlöðversdóttir formaður FSS og Ingi Rafn Hauksson, formaður Alnæmissamtakanna. Á Hinsegin dögum dreifðu fimmtán sjálfboðaliðar, þar af nokkrar sjónvarpsstjörnur Skjás eins, smokkum til hátíðargesta við Laugaveg með miðstöð á pallbíl sem var sérmerktur átakinu. Ánægjulegt var að sjá að samkeppnisaðili Ýmus mætti þar einnig með sjálfboðaliða til að dreifa ókeypis smokkum frá Durex. Fáir fóru því óvarðir heim þann daginn úr miðborg Reykjavíkur.

Sjálfboðaliðar á vegum Samtakanna ’78 hafa síðan reglulega staðið að dreifingu á smokkum til skemmtistaða og hefur það mælst vel fyrir meðal gesta og starfsfólks skemmtistaðanna. Einnig hafa nemendafélög framhaldsskólanna fengið sinn hluta af vörunni til dreifingar á dansleikjum sínum.

Fyrir tæpum tveimur áratugum lögðu Samtökin ’78 mikið af mörkum í forvarnarstarfi gegn alnæmi. Það starf er mörgum enn í fersku minni enda varð það til að auka mjög sýnileika félagsins á árunum kringum 1990. Forvarnarátakið 2005 sýnir að hreyfing samkynhneigðra á Íslandi hefur ekki sofnað á verðinum gagnvart þeim háska sem stafar af alnæmi og öðrum kynsjúkdómum. Er það von stjórnar að framhald geti orðið á enda þarf stöðugt að hvetja til varkárni í kynlífi og upplýsa nýjar kynslóðir um hætturnar.

2.6. Fyrirlestrarröð í Háskóla Íslands

Í samvinnu við námskeið í hinsegin fræðum við Háskóla Íslands efndi félagið til fyrirlestrahalds á vormisseri 2006. Var það í annað sinn sem slíkt var gert en fyrsta fyrirlestraröðin var haldin 2003. Fyrirlestrarnir voru haldnir undir yfirskriftinni Kynhneigð – Menning – Saga og fékk félagið nokkrar stofnanir Háskóla Íslands og Mannréttindaskrifstofu Íslands til liðs við framtakið auk þess sem tuttugu fyrirtæki og stofnanir stóðu straum af kostnaði. Af hálfu félagsins unnu Þorvaldur Kristinsson, Guðjón R. Jónasson og Rannveig Traustadóttir að skipulagningu fyrirlestranna í samstarfi við Þorgerði Einarsdóttur, kennara í kynjafræði við Háskóla Íslands.

Sex fræðimenn tóku þátt í fyrirlestraröðinni: Halldór Guðmundsson talaði um Halldór Laxness og samkynhneigt ívaf í lífi hans og list, Þorgerður H. Þorvaldsdóttir fjallaði um samkynhneigð og refsilöggjöf 1869–1992, Haukur F. Hannesson ræddi um list og menningarpólitík frá samkynhneigðu sjónarhorni, Susan Stryker frá Bandaríkjunum flutti fyrsta opinbera fyrirlestur í íslenskum háskóla um líf og reynslu transgender-fólks og fræðastarf á því sviði, og Anna Einarsdóttir lýsti rannsóknum sínum á gildi staðfestrar samvistar fyrir íslenskar lesbíur í erindi sem hún nefndi „Örugg með lífið og vel gift“. Þá mun breski félagsfræðingurinn Ken Plummer fjalla um sjálfskilning og baráttu hinsegin fólks í Bretlandi síðustu fimmtíu ár og líta vítt til átta á fyrirlestri sem hann flytur í apríl.

Fyrirlestraröðin vakti mikla athygli, hún hlaut góða kynningu í fjölmiðlum og hafa gestir á hverjum fyrirlestri verið á bilinu 60–120. Þar hefur margt verið reifað sem ekki hefur áður borið á góma í íslenskri umræðu og gagnast mun sjálfskilningi og þekkingarleit hinsegin fólks á Íslandi í framtíðinni.

 

3. Amennt félagsstarf

 

3.1. Félagslíf – skemmtanir og aðrir viðburðir

Opið hús í félagsmiðstöð var hvert mánudags- og fimmtudagskvöld. Vegna dræmrar aðsóknar lögðust opnanir á laugardagskvöldum af um miðjan ágúst. Fjöldi gesta á opnu húsi var 3212 eða 268 að meðaltali í mánuði. Er það talsverð fækkun frá fyrri árum (374 árið 2004 og 418 árið 2003). Gestakoma á öðrum tímum er hins vegar góð enda hafa umsvif starfshópa aukist á árinu. Varleg tilraun til þess að telja þann fjölda sem sækir fundi hópa eða leitar til félagsins á skrifstofutíma telur um 2100 manns (1600 árið 2004 og 1100 árið 2003). Mikil fjölgun í ungliðahópi vegur þar þungt.

Haldnar voru tvær sýningar í Regnbogasal: Í ágúst opnaði Skjöldur Eyfjörð myndlistarsýningu undir heitinu „Töfragarðurinn“ og febrúar opnaði Svavar G. Jónsson sýningu með fjölda ljósmynda, „Úr safninu mínu, hefur þú áhuga að…“ Á hausti var efnt til dagskrár átta fimmtudagskvöld í röð undir heitinu „Fimmtudagsfjör í Regnbogasal“. Þorvaldur Kristinsson skipulagði dagskrána en fram komu Andrea Gylfadóttir sem söng vinsæl lög úr ýmsum áttum við undirleik Eðvarðs Lárussonar; söngvarar úr sýningunni Gestur – Síðasta máltíðin sungu valin atriði úr hinsegin óperettu sinni; Bjarni Snæbjörnsson og Viðar Eggertsson lásu ástarljóð karla til karla undir yfirskriftinni „Á elleftu stundu“; Páll Óskar og Móníka fluttu dagskrá sem þau kölluðu „Homminn og hörpuleikarinn“; Ingrid Jónsdóttir, Jón St. Kristjánsson og Viðar Eggertsson lásu íslensk átthagaljóð með laufléttu erótísku ívafi í dagskrá sem nefndist „Lifi sauðféð í drottins náð“; Kristjana Stefánsdóttir söng lög af nýjum diski sínum við undirleik Agnars Más Magnússonar og síðan flutti Jódís Skúla
dóttir söng- og sagnaskemmtun sem hún kallaði „Listin að vera lesbía“. Jólabókakvöld var í desember þar sem fjórir rithöfundar lásu úr nýútkomnum bókum. Undir merkjum Fimmtudagsfjörs í Regnbogasal var svo að vanda haldið glæsilegt jólabingó sem margir komu að, en mest munaði þar um framlag Jóns Þórs Þorleifssonar. Bingóstjórar voru Ingrid Jónsdóttir og Árni Pétur Guðjónsson.

Félagið stóð fyrir fjórum dansleikjum á starfsárinu, þar af einum í samstarfi við FSS á Hótel Borg í apríl. Í nóvember var haldinn dansleikur á Kaffi Reykjavík undir yfirskriftinni „Ást, hamingja, vinátta“ og fékk ungliðahópur félagsins hluta ágóðans. Þá hélt félagið fjölmenn jóla- og áramótaböll, bæði á Kaffi Reykjavík. Í september stóð Frosti Jónsson sem stýrir vefsíðunni www.gayice.is fyrir viðburði sem nefndist „Bears on Ice“. Einn dagskrárliðurinn var Bjarnarball í Þjóðleikhúskjallaranum en vefsetrið færði Samtökunum ’78 allan ágóða þess til fræðslumála.

Kynningarfundur á frumvarpi um réttarbætur til samkynhneigðra var haldinn í húsakynnum félagsins í desember. Þar sátu fyrir svörum Páll Þórhallsson lögfræðingur í forsætisráðuneyti og Hrefna Friðriksdóttir lögfræðingur. Þar gafst félagsmönnum tækifæri til að spyrja Pál en hann er sá sem einkum vann að samningu frumvarpsins og kannaði alla þá lagabálka sem þarf að leiðrétta með tilliti til réttarstöðu samkynhneigðra; Hrefna Friðriksdóttir svaraði spurningum varðandi lagatæknilegar hliðar ættleiðinga og tæknifrjóvgana.

Hinn 21. október veitti Siðmennt – félag siðrænna húmanista á Íslandi Samtökunum ’78 húmanistaviðurkenningu ársins 2005 fyrir framlag félagsins til mannréttindabaráttu samkynhneigðra og tvíkynhneigðra á Íslandi. Þetta er í fyrsta sinn sem Siðmennt veitir slíka viðurkenningu sem verður veitt árlega eftirleiðis. Viðurkenningin var afhent við hátíðlega athöfn á Kaffi Reykjavík en auk viðurkenningarskjals færði Siðmennt félaginu veglega bókagjöf auk þriggja ára áskriftar að tímaritinu Gay and Lesbian Humanist sem gefið er út af félagi samkynhneigðra húmanista í Bretlandi (Gay and Lesbian Humanist Association). Í rökstuðningi Siðmenntar fyrir valinu segir m.a.: „Barátta Samtakanna ’78 hefur ætíð einkennst af æðruleysi, hógværð og festu. Æðruleysi Samtakanna hefur birst í því hvernig félagið hefur tekið á þeim ótrúlegu fordómum sem þrifust hér fyrir ekki svo mörgum árum síðan án þess að hafa gripið til óþarflega „róttækra“ ráða. Hógværðin birtist í því að Samtökin hafa ætíð haft skýra stefnu og barist fyrir henni án hamagangs. Festan lýsir sér í því hvernig Samtökin hafa ætíð staðið á sinni skoðun en aldrei vikið þrátt fyrir oft mikla fyrirstöðu og fordóma sem þau hafa mætt frá háum sem lágum … Við í Siðmennt teljum að Samtökin ’78 hafi gert meira til að gera íslenskt samfélag umburðarlyndara og víðsýnna en nokkur annar aðili síðastliðinn aldarfjórðung!“

3.2. Starfshópar – samstarf við aðrar hreyfingar samkynhneigðra og tvíkynhneigðra

Samtökin ’78 líta á það sem eitt af hlutverkum sínum að leggja margvíslegum hópum lið sem óska eftir fyrirgreiðslu og aðstöðu í félagsmiðstöðinni til að sinna hugðarefnum sínum. Sumir þessara hópa starfa undir merkjum Samtakanna ’78, en í öðrum tilvikum eru um að ræða sjálfstæð félög með eigin stjórn og félagsaðild.

Ungliðahópur. Mikil fjölgun varð í ungliðahópnum á árinu. Sýnileiki hans í tengslum við Hinsegin daga í ágúst, vefsíða og mikill áhugi á skólafundum höfðu þar ótvíræð áhrif. Frá upphafi formlegrar skráningar í ágúst 2004 hefur fjöldi á póstlista farið úr 10 upp í u.þ.b. 100 manns. Sum koma á fundi hópsins, önnur halda aðeins tengslum gegnum tölvupóst. Aldurinn í hópnum er miðaður við 14–20 ára. Mikil fjölgun meðal þeirra yngstu, jafnvel barna undir 14 ára aldri, vekur þá spurningu hvort orðið sé tímabært að skipta hópnum upp eftir aldri og sinna yngsta aldurshópnum sérstaklega á öðrum tímum. Hópurinn hittist hvert sunnudagskvöld og ræðst dagskráin af óskum meðlimanna og getu umsjónarmanna til að verða við þeim. Af starfseminni 2005 má nefna fjölmennt foreldrakvöld þar sem hópurinn bauð upp á glæsileg skemmtiatriði og heimalagaðar veitingar, kökubasar í Kringlunni og atriði í göngu Hinsegin daga. Þá skipulagði Sigga Birna Valsdóttir leiklistarmeðferðarfræðingur námskeið fyrir hópinn í leiklist og tjáningu. Umsjónarfólk hópsins voru Birna Hrönn Björnsdóttir, Erlingur Óttar Thoroddsen og Jóhann Karl Hirst og starfa þau í nánu samstarfi við framkvæmdastjóra og formann félagsins.

Norðurlandshópur – S78N. Starf hópsins var í nokkurri lægð á árinu en hann hittist þó öðru hvoru á kaffihúsum Akureyrar og skipulagði að vanda minningargöngu 1. desember á alþjóða alnæmisdeginum. Eftir vel heppnaða ráðstefnu vorið 2005 um málefni samkynhneigðra og tvíkynhneigðra hefur starf hópsins að fræðslumálum verið blómlegt. Ráðstefnuna sóttu rúmlega 100 manns, kennarar á öllum skólastigum utan leikskólastigs frá Húsavík til Skagaf
jarðar, auk starfsmanna Akureyrarbæjar. Eftir ráðstefnuna tók Akureyrarbær af skarið í jafnréttis- og fjölskyldustefnu sinni og bannaði hvers kyns mismunun á grundvelli kynhneigðar. Jafnframt gáfu yfirvöld út þá stefnuyfirlýsingu að fræða beri nemendur um samkynhneigð í grunnskólum bæjarins. Á haustdögum skipaði skólanefnd bæjarins síðan undirbúningsnefnd til að meta það hvernig best yrði að fræðslunni staðið. Allir grunnskólar Akureyrarbæjar áttu fulltrúa í nefndinni auk Norðurlandsdeildar FAS og S78N. Haustið 2006 er því áformað undirbúningsnámskeið fyrir kennara og starfsmenn í grunnskólum Akureyrar þar sem ætlunin er að búa þá undir kennslu um samkynhneigð. Skólanefnd Akureyrarbæjar hefur sótt um styrki til að þróa námsefni sem hæfir yngstu skólastigunum, en stefnt er að því að beina fræðslunni jafnt að yngstu aldurshópunum og þeim eldri í stað þess að ætla henni aðeins stað á unglingastigi.

Áhugahópur samkynhneigðra um trúarlíf – ÁST. Hópurinn kom saman einu sinni í mánuði á starfsárinu og fékk til sín gesti, m.a. prestana Jónu Hrönn Bolladóttur og Ásu Björk Ólafsdóttir sem efndi til guðsþjónustu í húsnæði Samtakanna ´78. Regnbogamessa var haldin í Neskirkju í febrúar þar sem Örn Bárður Jónsson þjónaði fyrir altari og Toshiki Toma predikaði. Grétar Einarsson tók þátt í starfshópi biskups um málefni kirkjunnar og samkynhneigðra ásamt prestunum Jóni Helga Þórarinssyni og Kristínu Þ. Tómasdóttur og á Kirkjudögum í Hallgrímskirkju 2005 opnaði hópurinn sitt svæði á vef kirkjunnar. Þetta var liður í því starfi hópsins að gera aðgengilegt sem mest af því efni sem tiltækt er um samkynhneigða og kristna kirkju.

Óperuhommarnir. Nýr hópur áhugahomma um óperutónlist kom saman á stofnfundi í húsnæði Samtakanna ´78 18. mars 2006. Hópurinn er öllum opinn og áhersluefnin eru í mótun en búast má við að félagar haldi í framtíðinni hópinn á ferðalögum um óperuhús heimsins, stofni til kynna við erlenda hópa af sama tagi, deili fréttum, upptökum og fræðslu um þá góðu list. Fyrsti talsmaður hópsins er Ásgeir Þ. Ingvarsson og vefsíðan er www.operuhommarnir.blogspot.com.
AA-deild samkynhneigðra og tvíkynhneigðra hefur komið saman í félagsmiðstöð Samtakanna ’78 hvert þriðjudagskvöldi frá 1987, og mun það vera elsta samfellda fundarstarf sem fram fer í húsnæði félagsins. AA-deild fyrir samkynhneigðar og tvíkynhneigðar konur starfaði einnig um hríð á starfsárinu. Al-Anon fundir aðstandenda eru einnig haldnir vikulega í húsnæði félagsins og sama er að segja um enskumælandi AA-deild, Gay AA. AA-starf samkynhneigðra og tvíkynhneigðra er að öllu leyti óháð starfi Samtakanna ’78 en nýtir sér húsnæði félagsins gegn vægri húsaleigu.

Samstarf við FSS – félag STK-stúdenta. Í upphafi starfsárs gekk formaður Samtakanna ’78 á fund með formanni FSS, Ástu Ósk Hlöðversdóttur, til að ræða samstarf félaganna. Það leiddi síðan til ánægjulegrar samvinnu sumarið 2005 um átakið Notum smokkinn. Nokkrum sinnum hélt FSS sinn hefðbundna GayDay með dagskrám og uppákomum í Regnbogasal. Við það rötuðu ýmsir úr hópi FSS í fyrsta sinn í félagsmiðstöð Samtakanna ’78 og margir úr hópi hinna heimavanari á Laugavegi 3 eignuðust nýjan og fjölbreyttari kunningjahóp. Þá tóku félögin einu sinni saman höndum um undirbúning dansleiks og skiptu með sér ágóða.

Samstarf við Konur með konum – KMK. Hópur lesbía heldur úti félagsstarfi og vefsíðunni www.kmk.is Þær starfa ekki innan vébanda Samtakanna ´78 en eiga ágætt samstarf við félagið um upplýsingamiðlun og fundaraðstöðu auk þess sem félögin mætast í samstarfi að Hinsegin dögum í Reykjavík, en þar hafa fulltrúar KMK um árabil borið hitann og þungann af göngustjórninni. Íþróttir skipa mikinn sess í starfi KMK, m.a. fóru þær stöllur til í Belgíu og kepptu í blaki á páskamóti þar og stefna aftur til keppni í Þýskalandi um páskana 2006. Í ársbyrjun 2005 endurnýjaði KMK vefsíðu sína sem nýtur mikilla vinsælda og stuðlar ótvírætt að samheldni og sýnileika lesbía.

Samstarf við FAS – Samtök foreldra og aðstandenda samkynhneigðra. FAS á náið samstarf við Samtökin ’78 og heldur reglulega félagsfundi sína í félagsmiðstöðinni á Laugavegi 3. Þá heldur félagið fræðslufundi í Þjóðarbókhlöðu og þennan vetur eru þeir fimm talsins. Í byrjun desember afhenti stjórn FAS forseta Alþingis áskorun um að jafna rétt samkynhneigðra til jafns við aðra þegna landsins. Á málþingi FAS og Prestafélag Íslands 10. mars 2005 var samþykkt að koma á starfshópi um nýtt hjónavígsluritual. Hlutverk hópsins er að gera hjónavígsluritual sem gildir jafnt fyrir vígslu allra hjóna óháð því hvort um gagnkynhneigða eða samkynhneigða er að ræða. Starfshópur FAS hvetur til umfjöllunar um samkynhneigð í skólum og hefur skorað á skólastjórnendur í grunn- og framhaldsskólum að auka fræðslu. Þrívegis á síðastliðnum árum hefur FAS efnt til málþinga í samvinnu við Prestafélag Íslands. Erindi af þessum málþingum komu út sumarið 2005 í sérriti Kirkjuritsins. Harpa Njáls formaður FAS annaðist útgáfuna. Samtökin ’78 veittu FAS fjárstyrk á starfsárinu og þjónustu vi&e
th; dreifingu sérritsins til félaga í Samtökunum ’78. Haustið 2005 var Norðurlandsdeild FAS stofnuð, en þá höfðu aðstandendur lesbía og homma hist reglulega á fundum á Akureyri á annað ár. Formaður hennar er Brynjar I. Skarphéðinsson.

3.3. Hinsegin bíódagar 2006

Hinsegin bíódagar í Reykjavík eru sjálfstætt félag en Samtökin ´78 og FSS tilnefna fulltrúa í stjórn þeirra. Þeir voru haldnir í þriðja sinn dagana 16.–26. mars 2006 en undirbúningur hófst haustið 2005 þegar hópur áhugafólks um kvikmyndir hittist til að kanna hvaða úrval kvikmynda væri í boði og velja það besta úr hinsegin kvikmyndalist síðustu ára. Að starfi hópsins komu Auður Halldórsdóttir, Baldvin K. Sveinbjörnsson, Erlingur Ó. Thoroddsen, Frosti Jónsson, Guðlaugur Kristmundsson, Hrafnhildur Gunnarsdóttir, Hrafnkell T. Stefánsson, Óskar Ástþórsson, Sigga Birna Valsdóttir og Þorvaldur Kristinsson. Hrafnhildur var sem fyrr stjórnandi hátíðarinnar en Þorvaldur gegndi formennsku í framkvæmdastjórn þetta starfsár. Þá naut hópurinn dýrmætrar aðstoðar Jankees Boer sem stýrir Rosen Filmdagen í Amsterdam, og Svanfríður Lárusdóttir veitti hátíðinni mikilsverða aðstoð til að gera opnunarhátíð í Iðnó sem veglegasta úr garði. Gefinn var út dagskrárbæklingur og vefsíðan er www.hinbio.org.

Á dagskrá voru níu leiknar kvikmyndir og ellefu heimildarmyndir þar af sex í fullri lengd og fimm stuttar. Einnig var boðið upp á þrettán stuttmyndir á sérstökum sýningum. Stuttmyndirnar hlutu mikla aðsókn enda höfðar þetta listform sterkt til homma og lesbía á Íslandi. Þá lögðu stjórnendur hátíðarinnar metnað sinn í að finna kvikmyndir úr öllum áttum en á dagskrá voru myndir frá Ástralíu, Bretlandi, Bandaríkjunum, Danmörku, Íslandi, Indlandi, Kanada, Líbanon, Spáni, Sviss, Suður-Afríku og Þýskalandi. Tvær myndir eftir Íslendinga voru sýndar á hátíðinni, Einu sinni var… kynvilla eftir Evu Maríu Jónsdóttur og stutta heimildarmyndin Transplosive eftir Höllu Kristínu Einarsdóttur. Tvær dómnefndir störfuðu á hátíðinni.

Heiðursgestir Hinsegin bíódaga voru þessir: Bandaríski sagnfræðingurinn Susan Stryker hélt fyrirlestur í Háskóla Íslands og sýndi heimildarmynd sína Screaming Queens. Breski leikstjórinn Jan Dunn, höfundur GYPO, heimsótti hátíðina ásamt framleiðandi myndarinnar, Elaine Wickham. Heklína, Steven Grykelko, skemmtikraftur af íslenskum ættum frá San Francisco sýndi heimildarmyndin Trannyshack, Trönsukofa Heklínu. Er þá ótalinn Jankees Boer sem áður var nefndur.

Upplýsingar um aðsókn liggja ekki fyrir þegar þetta er ritað en ljóst er að hún hefur farið talsvert fram úr Hinsegin bíódögum 2004 þegar rúmlega 1100 manns sáu sýningarnar. Menningarmálaráð Reykjavíkurborgar og Kvikmyndastofnun Íslands veittu fjárstyrki til hátíðarinnar og kvikmyndahúsið Regnboginn sýndi einstaka lipurð og velvilja í samstarfi, en Hinsegin bíódagar deila ágóða af miðasölu með kvikmyndahúsinu. Áætlaður kostnaður við hátíðina er um 1.200.000 kr. og hefur aukist talsvert frá síðustu hátíð, einkum vegna þess að reynt er að mæta öllum óskum handhafa höfundarréttar um greiðslur fyrir sýningarrétt.

Óvíst er hvort hátíðin er komin til þess að vera. Enn er langt í land að hún dragi að þá 2000 gesti sem telja má að tryggi rekstrargrundvöll hennar til framtíðar litið. Einnig er erfitt að tryggja hverri þeirri hátíð sess í alþjóðlegu tilliti sem haldin er annað hvert ár. Þá krefst naumur fjárhagur alfarið sjálfsboðavinnu og hún er lýjandi. Ef vel ætti að vera yrði í framtíðinni að vera hægt að launa starfsfólk hátíðarinnar sem nemur tveimur verkmánuðum. Undirtektir gesta sýna hins vegar ótvírætt að hinsegin fólk kann að meta það framtak sem Hinsegin bíódagar eru.

3.4. Þátttaka í Hinsegin dögum 2005 í Reykjavík

Á sama hátt og áður voru Samtökin ’78 eitt af aðildarfélögum Hinsegin daga 2005 í Reykjavík. Þau komu hér að máli sem einn samstarfsaðili í hópi. Aðilar að Hinsegin dögum 2005 voru auk

Samtakanna ´78: FSS, félag STK-stúdenta; KMK, Konur með konum og MSC Ísland.
Samstarfsnefnd um Hinsegin daga hóf starf sitt í byrjun árs og hittist á reglulegum fundum fram á sumar. Fundir voru flestir haldnir í húsnæði Samtakanna ’78 en Hinsegin dagar eru reknir á eigin kennitölu sem sjálfstætt félag. Aðildarfélögin og hóparnir áttu tvo formlega fulltrúa í samstarfsnefnd þó að öllum væri boðin þátttaka á fundum hennar. Í þriðja sinn veitti Reykjavíkurborg styrk til hátíðarinnar, í þetta sinn 1.600.000 kr. og mun svo verða 2006 skv. samningi. Þá gaf samstarfsnefndin út kort af miðborg Reykjavíkur með auglýsingum frá um 50 styrktaraðilum. Um miðjan júlí kom út dagskrárrit Hinsegin daga í 15.000 eintaka upplagi en Tómas Hjálmarsson hannaði hvort tveggja. Var dagskrárritið fjármagnað með auglýsingum og skilaði arði. Af öðrum tekjustofnum munaði mest um sölu á fjölbreyttum varningi, en salan rúmlega tvöfaldaðist frá árinu áður. Í lok júlí var verkstæði Hinsegin daga opnað í húsnæði Klink & Bank við Hlemm.

Fimmtudaginn 4. ágúst hófst leðurhátíð MSC Ísland og sama dag var haldið Dívukvöld á NASA með sönggkonunni Carol Laula, Evu Karlottu og fleiri skemmtikröftum. Föstudaginn 5. ágúst var svo opnun
arhátíð Hinsegin daga í Loftkastalanum. Þar skemmtu m.a. Carol Laula, Eva Karlotta, Uta Schrecken og félagar frá San Francisco, Namosh frá Berlín að ógleymdum þeim Vigdisi & Ruth frá Osló, en kynnir var Viðar Eggertsson. Laugardaginn 7. ágúst hélt svo hin árlega gleðiganga af stað frá Hlemmi niður Laugaveg. Á útisviði Hinsegin daga í Lækjargötu ávarpaði Árni Magnússon félagsmálaráðherra samkomuna en Viðar Eggertsson kynnti skemmtikrafta dagsins. Þar komu fram leikarar og söngvarar úr Kabarett, Eva Karlotta, Ylfa Lind, Arnar Þór, Allstars, Eva María og Love Guru, Hanna María & Ingrid, Ruth og Vigdis frá Osló, Namosh frá Berlín, hljómsveitin Eldkex og Páll Óskar. Sviðsstjóri hátíðarinnar var Ásdís Þórhallsdóttir og henni til aðstoðar Baldvin K. Sveinbjörnsson en Hrafnkell Sigurðsson hannaði sviðsmynd. Talið er að yfir 40.000 manns hafi verið á götum miðborgarinnar þennan dag. Deginum lauk með dansleikjum á NASA og Pravda. Sunnudaginn 7. ágúst kepptu svo Íslensku fótboltalesbíurnar við New York Ramblers Soccer Club.

Mikill fjöldi fólks vann að undirbúningi, en að skipulagi á fundum samstarfsnefndar kom allstór hópur og í hópi hins þrautseiga fundarfólks voru: Anna Sif Gunnarsdóttir, Ásdís Þórhallsdóttir, Ásta Ósk Hlöðversdóttir, Birna Hrönn Björnsdóttur, Erlingur Ó. Thoroddsen, Guðbjörg Ottósdóttir, Heimir Már Pétursson, Hrafnkell T. Stefánsson Jóhann Karl Hirst, Katrín Jónsdóttir, Páll Óskar Hjálmtýsson, Sigursteinn Másson, Svavar G. Jónsson, Þorvaldur Kristinsson og Þórarinn Þór.

Endanlegt uppgjör Hinsegin daga liggur ekki fyrir, en svo er góðri fjármálastjórn fyrir að þakka að hátíðin skilaði í fyrsta sinn ágóða sem mun renna til hátíðahalda næsta árs. Samtökin ’78 lögðu hátíðahöldunum ekki til neinn beinan fjárstuðning, en veittu Hinsegin dögum ýmsa fyrirgreiðslu hvað aðstöðu snerti.
 

 

4. Mannréttindamál

 

4.1. Lagamál

Í hátíðarávarpi á Hinsegin dögum í Reykjavík 2005 lýsti Árni Magnússon, þáverandi félagsmálaráðherra, yfir eindregnum stuðningi sínum við fullar réttarbætur samkynhneigðum til handa, eins og þeim er lýst í skýrslu nefndar um réttarstöðu samkynhneigðra 2004. Tveimur dögum síðar lýsti forsætisráðherra síðan yfir stuðningi ríkisstjórnar við þá þætti sem Árni vék að í ræðu sinni og það rættist í stjórnarfrumvarpi sem lagt var fyrir Alþingi í nóvember 2005.

Efnislega felur frumvarpið í sér heildstæða réttarbót til handa samkynhneigðum sambúendum sem ekki hafa staðfest samvist sína, að það fólk öðlist rétt til að skrá sambúð sína á Hagstofu og mæti þannig þeim réttindum og skyldum sem gagnkynhneigðir sambúendur njóta í sömu stöðu. Þá leggur frumvarpið til að samkynhneigð pör njóti sama réttar til frumættleiðinga íslenskra og erlendra barna og gagnkynhneigð hjón, og að lesbíur í staðfestri samvist eigi aðgang að tæknifrjóvgun á opinberum sjúkrastofnunum. Með þessu fylgir ríkisstjórnin tillögum fulltrúa félagsmálaráðuneytis, menntamálaráðuneytis og Samtakanna ’78 í nefnd um réttarstöðu samkynhneigðra.

Í frumvarpi ríkisstjórnar er ekki vikið að einu baráttumáli samkynhneigðra, heimild til presta og forstöðumanna safnaða um að gerast vígslumenn þeirra sem staðfesta samvist sína. Því lýsti Guðrún Ögmundsdóttir alþingismaður yfir við 1. umræðu um frumvarpið að hún hygðist leggja fram breytingartillögu við það fyrir 2. umræðu sem veitti forstöðumönnum trúfélaga þessa heimild. Þetta atriði hefur kallað á hörð mótmæli þeirra sem draga jafnan rétt samkynhneigðra og gagnkynhneigðra í efa, einkum þá meðal forystumanna trúfélaga, og kvað biskup Íslands svo fast að orði í því sambandi í nýárspredikun sinni og viðtali í sjónvarpi degi síðar að stjórn Samtakanna ’78 fann sig knúna til andmæla. Andmæli samkynhneigðra og aðstandenda þeirra hafa fyrst og fremst komið fram í úrsögnum úr þjóðkirkjunni. Þá kærði formaður félagsins Gunnar Þorsteinsson safnaðarhirði til lögreglu fyrir ummæli hans um fjölskyldur samkynhneigðra í grein í Morgunblaðinu í mars.

Þegar þetta er ritað hefur allsherjarnefnd Alþingis frumvarpið til meðferðar og má búast við að það verði á næstunni afgreitt þaðan til 2. umræðu. Ekki er búist við því að nefndin leggi til miklar breytingar á því. Væntanlega fáum við að sjá lyktir þessa máls á þingi á vordögum og þá eru vonandi í höfn einar víðtækustu réttarbætur Íslandssögunnar til handa samkynhneigðu fólki.

Við þetta er því að bæta að aðrir þættir skýrslunnar frá 2004 hafa borið fyrsta árangur. Samkynhneigð er nú nefnd í nýjum drögum að námskrám grunn- og framhaldsskóla og frumvarpi til laga um breytingar á lögum um grunnskóla, sem menntamálaráðherra lagði fram í janúar 2006, en þar skal samkynhneigðra getið í jafnréttisákvæðum laganna.

4.2. Endurskoðun stjórnarskrárinnar

Á vordögum kallaði stjórnarskrárnefnd eftir tillögum að breytingu á íslensku stjórnarskránni og fór stjórn Samtakanna ’78 þess á leit við stjórnvöld að hugtakinu „kynhneigð“ yrði bæ
tt inn í 65. grein mannréttindakafla stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Til að fylgja máli sínu eftir bað stjórn Samtakanna ’78 Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmann um að vinna rökstudda greinargerð til stuðnings málflutningi sínum sem hann gerði og var henni komið á framfæri við stjórnarskrárnefnd ásamt málaleitan félagsins.

Forysta Samtakanna ’78 hefur lengi talið það eitt af mikilvægustu markmiðum stjórnvalda á hverjum tíma að tryggja jafnrétti og mannréttindi einstaklinga og ólíkra hópa. Í 65. grein stjórnarskrárinnar segir: „Allir skuli vera jafnir fyrir lögum óháð kynferði, trúarbrögðum, skoðunum, þjóðernisuppruna, kynþætti, litarhætti, efnahagi, ætterni og stöðu að öðru leyti.“ Augljóst er að slík breyting væri eðlilegt framhald af þeim lagabótum og auknu mannréttindum sem samkynhneigðir hafa öðlast á undanförnum árum. Það hefur sýnt sig að í hvert skipti sem löggjafavaldið hefur tekið af skarið og rétt hlut samkynhneigðra með lagasetningum og reglugerðum hefur sljákkað í röddum fordómanna gagnvart hommum og lesbíum. Breytt viðhorf hafa fært samkynhneigðum á Íslandi betra líf og gert þá hæfari til virkrar þjóðfélagsþátttöku, til að skapa betra samfélag. Með því að nefna orðið kynhneigð í stjórnarskránni er fólgin æðsta viðurkenning samfélagsins, viðurkenning sem tæki af allan vafa um að samkynhneigðum beri sami réttur og öðrum þegnum þessa lands.

4.3. Leiðrétting á skilgreiningu jafnréttis

Jafnréttisráð Reykjavíkurborgar hefur á síðasta ári haft til endurskoðunar jafnréttishugtakið en í jafnréttisyfirlýsingum og jafnréttisáætlunum borgarinnar nær það nú einungis til jafnrar stöðu karla og kvenna. Í nóvember og í janúar voru fulltrúar Samtakanna ’78 kallaðir á fund þeirra sem að jafnréttismálum vinna á vegum borgarinnar til að kynna hvað samkynhneigðir hefðu fram að færa í þessu tilliti. Þar ítrekuðu fulltrúar félagsins, Rannveig Traustadóttir, Hrafnkell Stefánsson og Hrafnhildur Gunnarsdóttir, þá afstöðu Samtakanna ’78 að hugtakið jafnrétti skuli ná til fleiri en karla og kvenna – bæði samkynhneigðra, fatlaðra og fólks af erlendum uppruna. Talsmenn félagsins hvöttu eindregið til þess að Reykjavíkurborg beitti sér fyrir því að leiðrétta eldri skilning á jafnréttishugtakinu í ljósi mannréttindaumræðu liðinna ára. Þá tjáðu þau Rannveig Traustadóttir og Viðar Eggertsson sjónarmið sín á landsfundi jafnréttisnefnda á Radisson SAS í febrúar. Þar voru saman komnar jafnréttisnefndir sveitarfélaga og fólk úr öðrum nefndum sem fjalla um þennan málaflokk á vegum sveitarfélaga, bæði kjörnir fulltrúar og starfsmenn jafnréttismála.

 

5. Að lokum

 

Fyrir félag sem stöðugt verður að berjast hart fyrir rekstrar- og fjárhagsgrundvelli sínum og takmarka öll umsvif árum saman við það takmarkaða fé sem tiltækt er hverju sinni, er það mikið framfaraskref að smám saman er okkur að takast að tryggja lágmarks rekstrargrundvöll með stuðningi hins opinbera. Um árabil hefur verið unnið að því að skapa félaginu fastan sess í fjárlögum íslenska ríkisins. Það hefur að vísu enn ekki tekist, en það fólk sem kemur að fjárlagagerð á Alþingi hefur lýst yfir miklum skilningi á málinu og kemur það m.a. fram í auknum fjárveitingum til starfseminnar. Í þessari vinnu munaði þó sennilega mest um þátt fyrrverandi félagsmálaráðherra, Árna Magnússonar, sem öðrum stjórnmálamönnum fremur hefur skilið þá staðreynd að samkynhneigðir eru sjálfir bestu sérfræðingar í málum síns fólks og því ber að styrkja starf þeirra með ráðum og dáð. Þó ber að hafa í huga að opinberar fjárveitingar eru enn ekki hærri en svo að varla verður föstum starfsmönnum félagsins fjölgað í bráð þó að verkefnin blasi við. Það verður baráttumál næstu missera að auka opinberan fjárstuðning til frekari umsvifa í starfi.

Á kvikmyndahátíðinni sem nú er að ljúka var sérstök áhersla lögð á það að kynna ýmislegt efni sem hinsegin fólk þegir gjarnan um og lætur liggja í láginni, oft af ótta við að málstaður þess verði misskilinn og afbakaður. Allir þeir sem hafa átt undir högg að sækja skilja þennan ótta, hann er mannlegur en engu að síður varhugaverður, því að hann getur leitt til þess að hreyfing okkar staðni og glati sambandi við strauma tímans. Það er ánægjulegt hve vel var tekið við því efni sem þarna var borið á borð, svo sem vitnisburðum um kynferðislega og trúarlega valdbeitingu í æsku, kynþáttahatri meðal samkynhneigðra sjálfra, ellegar reynslu þeirra sem fæddust í röngum líkama. Heimsókn Susan Stryker til Íslands varð t.d. til að opna augu margra fyrir öllu því skapandi afli sem býr í margbreytileikanum. Vonandi ber félagið gæfu til þess á komandi árum að styrkja viti borna umræðu um margbreytileika hinsegin fólks, falda reynslu þess og leynda kúgun hvar sem slíkt birtist.

Áherslumálin breytast þó ekki í grundvallaratriðum. Sem fyrr hljóta stjórn og starfsfólk Samtakanna ´78 að vinna að þeim málum sem verið hafa rauði þráðurinn í starfinu frá upphafi. Við erum aðeins að stíga fyrstu sporin í átt til faglegrar vinnu að fræðslumálum, ráðgjöf og stuðningi. Enn þarf að efla gerð fr&a
elig;ðsluefnis og ná til eyrum fleira fólks í fræðslu. Nægir þar að nefna öll þau flóknu verkefni sem bíða hreyfingarinnar á landsbyggðinni á næstu árum og hvernig hægt sé að bæta lífsskilyrði okkar þar. Það verk endist okkur ævina og það bíður síðan næstu kynslóða að tryggja hamingju og þroskamöguleika okkar fólks í hvaða stétt sem er, af hvaða kynþætti sem er og hvar sem er á Íslandi. Mestu máli skiptir er að koma auga á þarfirnar, heyra raddir þeirra sem tala lágt og fara með veggjum og leggjast síðan á árarnar.
 

f.h. stjórnar Samtakanna ’78

Frá stjórn

 

5,029 Comments

Skrifaðu athugasemd