Sýnileikinn – skiptir hann máli?

By 1. janúar, 2006Uncategorized

Hvað er átt við með því þegar talað er um sýnileika samkynhneigðra? Er hann einhvers virði og fyrir hvern þá? Í allri umræðu um réttindi lesbía og homma beinist athyglin að því hvað sé áhrifaríkast til þess að almenn mannréttindi til handa samkynhneigðum nái fram að ganga.

Að samkynhneigðir hljóti viðurkenningu samfélagsins og öðlist frelsi til þess að gangast við sínum innstu tilfinningum. Frelsi til þess að elska aðra manneskju af sama kyni og deila lífi sínu með án þess að þurfa að vernda það eins og dýrmætt leyndarmál. Ekki blundar síður sú þrá með samkynhneigðum að eiga þess kost að eignast og ala upp börn. Heitasta ósk þeirra samkynhneigðu sem eiga börn er að samfélagið viðurkenni það fjölskyldumynstur sem börn þeirra alast upp í – að réttur þeirra sé virtur eins og annarra barna.

Sýnileiki samkynhneigðra foreldrar

Það eru dæmi þess í okkar, til þess að gera, upplýsta samfélagi að samkynhneigðir foreldrar virðast ekki sjá sér annað fært en að hafa hljótt um líf sitt og það fjölskyldumynstur sem börn þeirra lifa í. Beita sjálfan sig sjálfskúgun sem felur meðal annars í sér einangrun og mikla vanlíðan.

Árekstrar víða í samfélaginu reka þessa einstaklinga til baka með viðmóti sem á engan hátt er viðunandi. Viðmóti sem felur í sér þögn og bann við því að um þeirra líf sé rætt. Innan skólakerfisins þar sem, af öllum stöðum helst, ætti að ríkja víðsýni og skilningur á fjölbreytileika mannlífsins eru enn dæmi þess að samkynhneigðir foreldrar og börn þeirra mæti höfnun og litið er niður á fjölskyldumynstur þeirra. Skýrt dæmi um slíkt er foreldri sem lýsti reynslu sinni þannig, er það ætlaði að fara þá leið að koma hreint fram við kennara barnsins síns – barnsins vegna. Gekk þá leið í þeirri trú að réttast væri að gera skólanum grein fyrir aðstöðu barnsins svo að um fjölskyldumynstur þess yrði rætt. Réttur samkynhneigðra til þess að vera foreldri, foreldri sem er fyrirmynd ábyrgðar, víðsýni og væntumþykju er með því móti hafður að engu. En samkynhneigðir foreldrar er staðreynd sem verður að draga fram í dagsljósið.

Sjálfsagt má kenna því um að fræðsla um samkynhneigð meðal þeirrar stéttar, sem einkum ber að sýna hverjum einstaklingi skilning og virðingu, hefur verið ábótavant. En önnur dæmi sýna þó og sanna að þessum málum þokar nokkuð í rétta átt, þar sem samkynhneigðir foreldrar hafa farið fram á það með góðum árangri við kennara barna sinna að um þeirra fjölskyldumynstur sé rætt líkt og önnur fjölskyldumynstur. Sýnileiki foreldranna er börnum þeirra afar mikilvægur; að um þeirra fjölskyldumynstur sé rætt og þeim sýnd viðurkenning gefur slíkum börnum ákveðna festu og öryggi í lífinu.

Samkynhneigðir og sýnileikinn

En hvernig öðlumst við, sem samkynhneigð erum, þessa viðurkenningu? Ef ekki með sýnileikanum þá hverju? Samkynhneigðir þurfa að vera sýnilegir til þess að samfélagið átti sig á tilvist þeirra, horfist í augu við þá og kynnist þeim. Því er sýnileiki hvers og eins eitt áhrifaríkasta aðferðin til þess að fá samfélagið til að takast á við mannlegan fjölbreytileika.
En hvað er átt við með sýnileika? Hann felst í ótal mörgu en kannski fyrst og fremst í því að koma fram í eigin persónu. Samkynhneigð er hluti af þeim persónuleika sem einstaklingurinn hefur að geyma og það stór hluti. Líf hvers einstaklings litast mjög af því hver hann er og það birtist ekki síst viðhorfum hans til lífsins. Því er það ekki síst í höndum samkynhneigðra að láta til skarar skríða og hjálpa hinum gagnkynhneigða heimi að takast á við veruleikann með því að hlífa engum við sjálfum sér. Að víkjast aldrei undan því að tala um einkalíf sitt, sinn lífsstíl, þá ákvörðun að gangast við þeim tilfinningum að hrífast af eigin kyni. Það er það sem raunverulega skiptir öllu máli.

Það kostar sinn tíma fyrir hvern og einn að átta sig á þessu og öðlast þann styrk sem til þarf til þess að vera í stakk búinn að takast á við ófyrirsjáanleg viðbrögð annarra. En á meðan við, sem samkynhneigð erum, gefum óskýr skilaboð, förum leynt með kynhneigð okkar – okkar líf, þá verður ekki hjá því komist að skilaboðin sem við sendum verða óljós eða öllu heldur nokkuð mörkuð því að samkynhneigð sé eitthvað sem ekki þykir í lagi, ekki er rætt um og þar af leiðandi ekki tekið sem sjálfsögðum hlut. Ekki getur maður vænst þess að hljóta virðingu annarra ef maður ber ekki virðingu fyrir sjálfum sér. Og það að bera virðingu fyrir sjálfum sér felst einmitt í því að gefa skýr skilaboð til þeirra sem maður mætir í lífinu – hvort sem um er að ræða fjölskylduna, vini og kunningja eða starfsfélaga.

Samanlögð áhrif okkar vega þungt í samfélaginu. Af því leiðir að samkynhneigðir einstaklingar verða að gerast sýnilegir til þess að hópurinn hljóti viðurkenningu samfélagsins. Það er og verður okkar hlutskipti í lífinu að klífa hvern vegginn eftir annan í hinum gagnkynhneigða heimi til þess að hljóta þessa viðurkenningu. Gleymum því samt ekki að sumir veggir eru afar lágir, en aðrir hærri. T&ouml
;kum þetta skref fyrir skref og gerumst sýnileg, krefjumst þess að samfélagið sýni okkur og þeim börnum sem við erum að ala upp viðurkenningu. Við eigum það skilið sem manneskjur.

Höfundur er kennari við Hjallastefnuna.

Copyright © Sara Dögg Jónsdóttir
Tilvitnun er öllum heimil sé heimildar getið

6,046 Comments

Skrifaðu athugasemd