Takk fyrir fundinn!

By 19. nóvember, 2014Fréttir

Kæra félagsfólk. Mig langar rétt að færa ykkur kærar þakkir fyrir góðan, líflegan, hreinskiptinn og uppbyggjandi fund í kvöld. Ég vil líka nota tækifærið og þakka Íslandsdeild Amnesty International kærlega fyrir að hýsa okkur.

Fjárhagur, jafnrétti og umhverfi

Í kvöld ræddum við um hálfsárs uppgjör félagsins og fjárhagsáætlun. Gjaldkerinn okkar hann Vilhjálmur Ingi fór yfir sviðið og tók við spurningum en skemmst er frá því að segja að fjárhagurinn er á góðu róli. Þá tók nýjasta stjórnarmanneskjan hún Auður Magndís Auðardóttir við og fór yfir fyrstu drög að jafnréttis- og umhverfisstefnu. Auður kynnti til sögunnar Hrönn Hrafnsdóttur sérfræðing hjá Reykjavíkurborg en hún kynnti okkur fyrir Grænu skrefunum sem Reykjavíkurborg hefur unnið eftir að fyrirmynd Harvard háskóla í Bandaríkjunum. Skrefin eru aðgerðaáætlun og tékklisti sem hægt er að nota til að framfylgja stefnu um vistvæna og grænni framtíð. Hrönn sagði þetta í fyrsta skipti sem frjáls félagasamtök hyggðust stíga þessi grænu skref hérlendis, svo hún vissi til, og taldi það vissulega mikið gæfuspor. Við líka.

Húsnæði, kjörnefnd og önnur mál

Að þessu loknu tóku Helgi Steinar Helgason arkitekt og Vilhjálmur Ingi gjaldkeri til máls og röktu sögu, stöðu og horfur í framkvæmdum við nýjar höfuðstöðvar á Suðurgötu 3. Margt hefur tafið, og ýmislegt óvænt komið upp, en ágætis gangur er í framkvæmdum og fjárhagsáætlun staðist að mestu. Við sjáum fyrir endann á verkinu von bráðar.

Þá voru kynnt til sögunnar framboð þriggja félagsmanna í kjörnefnd, en hlutverk hennar er að kalla eftir framboðum til stjórnar og trúnaðarráðs félagsins. Þau sem höfðu gefið kost á sér voru Anna Pála Sverrisdóttir, Matthías Matthíasson og Anna Kristjánsdóttir. Lýst var eftir fleiri framboðum en þau bárust ekki og er þrenningin því réttkjörin í kjörnefnd.

Að þessu loknu tóku við önnur mál og var farið um víðan völl undir röggsamri stjórn Svandísar Önnu varaformanns. Rætt var um upplýsingaflæði, gegnsæi og opin vinnubrögð – og skort á þeim. Talað var um þátttökumöguleika félagsfólks í starfinu, starfshópa, starf ungliða og margt, margt fleira. Góðar samræður, ábendingar og gagnrýni sem stjórn mun taka til sín – ekki síst hvað varðar það að bjóða fólk velkomið á vettvang í starfinu og efla félagsandann.

Kaffi og kleinur og sjáumst í næsta pósti

Að þessu loknu bauð Gunnar Helgi Gunnarsson meðstjórnandi upp á kaffi og kleinur og fleira gott. Fundargerð fundarins verður birt í örlitlum upplýsingapósti í næstu viku – þar sem fundinum verða gerð betri skil. Formaður lofaði víst að bæta upplýsingaflæðið og opna betur starfið og taka upp reglulega pósta til félagsmanna. Hann mun að sjálfsögðu reyna að standa við stóru orðin og er hér með byrjaður að æfa sig.

Ást og friður

Hilmar

 

 

One Comment

Skrifaðu athugasemd