Þeir mismuna – við mótmælum – það ber árangur!

By 23. nóvember, 2007Uncategorized

Nicuragua mun brátt fella úr gildi lög sem banna mök fólks af sama kyni, en við slíku "broti" hefur legið allt að þriggja ára fangelsi. Skemmst er að minnast þess að Verndarvættirnar, undir alþjóðlegri forystu Amnesty International, beindu spjótum sínum sérstaklega að Nicaragua nú á haustdögum fyrir að ganga gegn ýmsum ákvæðum í alþjóða mannréttindalögum. Vættirnar gengu í þessu augnamiði á fund Margrétar S.Björnsdóttur ræðikonu Nicaragua á Íslandi, afhentu henni mómælaskjal til þarlendra stjórnvalda og kröfðust afnáms sódómalaganna.

Hýra fréttaveitan pinknews.co.uk í Bretlandi skýrir frá því þann 16.þessa mánaðar að hinsegin fólk í Nicaragua muni brátt upplifa stórkostleg vatnaskil í baráttu sinni fyrir mannsæmandi lífi. Samkvæmt fréttinni eru meiriháttar breytingar framundan á löggjöf landsins, sem gera það að verkum að kynlíf milli tveggja fullveðja einstaklinga af sama kyni verður ekki lengur talið lögbrot. Þjóðþing Nicaragua tilkynnti um þessar óvæntu breytingar í síðustu viku og er áætlað er að hin nýja löggjöf taki gildi í mars á næsta ári.

Nýju lögin eru mikil réttarbót, því samkvæmt löggjöf þeirri er tók gildi árið 1992 "er hver sá sem þrýstir á um, kynnir, rekur áróður fyrir eða stundar kynmök með persónu af sama kyni sekur um sódómískan glæp og skal sæta eins til þriggja ára fangelsi." Ekki er nóg með að núverandi lagagrein geri samkynhneigð sambönd að refsiverðu athæfi. Hún er nefnilega einnig það óljós að á grundvelli hennar er hægt að ákæra einstaklinga fyrir ýmislegt annað. Það eitt að berjast fyrir réttindum hinsegin fólks, eða að bjóða upp á upplýsingar og þjónustu á sviði kynfræðslu og kynheilbrigðis nægir til dæmis til ákæru.

Í nýrri refsilöggjöf hafa allar tilvísanir í ofangreind ákvæði verið fjarlægðar og er það talið endurspegla breytt samfélagsleg viðmið í landinu. Landið fetar þarna í fótspor nágranna sinna, því mikill meirihluti landa í N-og S-Ameríku hefur nú þegar afnumið þau sódómalög sem hafa verið við lýði. José Pallais, formaður dómsmálanefndar þjóðþings Nicaragua segir að breytingarnar beri vott um þá nútímavæðingu sem felist í því að lagaleg réttindi fólks séu bætt á kostnað siðgæðisregla ríkisins. Hann bætir við: "Við erum ekki að innleiða reglur kaþólsku kirkjunnar hér. Við erum að skapa lýðræðislegar reglur sem byggjast á nútímalegum grundvallarsjónarmiðum og hvíla á lagalegum forsendum."

Fréttinni fylgir að fóstureyðingar verði eftir sem áður ólöglegar í landinu.

Hinn alþjóðlegi þrýstingur í baráttunni fyrir réttindum hinsegin fólks og afnámi sódómalaga um heim allan virðist því vera að bera árangur. Nicaragua er á réttri leið…

…og nú eru ekki nema u.þ.b. 99 lönd eftir.

-HM

 

5,231 Comments

Skrifaðu athugasemd