Vinur sá er til vamms segir

By 3. nóvember, 2006Uncategorized

Jógvan á Lakjuni, samstarfsráðherra Færeyja, er víst ævareiður út í Rannveigu Guðmundsdóttur. Hann segir hana hafa móðgað færeysku þjóðina á þingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn. Ég þurfti nú að láta segja mér það tvisvar að íslenskur þingmaður – og það Rannveig Guðmundsdóttir – hefði tekið upp á þeirri ósvinnu að móðga vini okkar Færeyinga.

En svo kom skýringin: Rannveig hóf máls á réttindum samkynhneigðra í Færeyjum, eða öllu heldur réttindaskorti. Auðvitað var hún ekki að móðga færeysku þjóðina með þessum athugasemdum. Vinur er sá er til vamms segir.

Í Færeyjum er staðan eins og hún var fyrir um 20-30 árum hér á landi. Samkynhneigðir eru ósýnilegir, en það er að sjálfsögðu ekki vegna þess að þar sé samkynhneigð óþekkt, heldur vegna þess að samkynhneigðir Færeyingar eru ýmist í felum, eða fluttir úr landi. Þeim er ekki vært í eigin landi vegna fordóma.

Samstarfsráðherrann taldi illa vegið að heimalandi sínu á þingi Norðurlandaráðs og dró fram Norrænu tölfræðiárbókina 2006. Þannig sýndi hann fram á að aðstæður í Færeyjum væru að mörgu leyti betri en í öðrum ríkjum Norðurlanda, meðal annars væru þar sjálfsmorð og skilnaðir fátíðari, glæpatíðni lægri og fæðingartíðni hærri. Hvernig þessar upplýsingar eiga að sýna fram á að ekki sé gengið á mannréttindi samkynhneigðra í Færeyjum er mér hulin ráðgáta. Líklega er svokölluð smjörklípuaðferð ekki bundin við íslensk stjórnmál.

Og þegar ráðherrann lá enn undir ámæli vegna þess að ekki er bannað með lögum í Færeyjum að mismuna fólki eftir kynhneigð, þá var svar hans eitthvað á þá leið að í löggjöf annarra norræna ríkja um bann við mismunun væru t.d. fatlaðir ekki sérstaklega nefndir en þar með væri ekki sagt að mismunun gagnvart þeim væri í lagi. Líklega hefur þessi ráðherra náð langt í lífinu þrátt fyrir rökhugsunina, en ekki vegna hennar.

Færeyjar hafa verið í miklu uppáhaldi hjá mér frá því að ég fór þangað með konu minni og vinkonum okkar árið 1998. Fólkið er yndislegt og landið undurfagurt. En það er ekki hægt að horfa framhjá því að réttindi samkynhneigðra hafa algjörlega setið á hakanum. Færeyska þingið hefur dregið lappirnar og þannig sent þau skilaboð, að mismunun í garð samkynhneigðra sé eðlileg.

Mörgum Færeyingnum hnykkti við fyrir rúmum mánuði þegar ráðist var á færeyskan tónlistarmann, Rasmus Rasmussen, á skemmtistað í Þórshöfn, fyrir það eitt að vera hommi. Fjórir menn réðust að honum, fleiri hópuðust að og umsátursástand myndaðist þegar æstur skríllinn reyndi að ryðjast inn í húsið. Lögreglunni tókst loksins að sundra hópnum og koma Rasmus til síns heima. Rasmus ákvað að fara í opinskátt viðtal við dagblaðið Dimmalætting, en í kjölfarið bárust honum líflátshótanir. Eftir allt þetta fékk hann taugaáfall og var lagður inn á sjúkrahús.

Þetta er veruleikinn í Færeyjum. Þar eru tillögur um að vernd minnihlutahópa samkvæmt hegningarlögunum skuli einnig ná til samkynhneigðra, felldar æ ofan í æ. Skilaboðin til landsmanna eru skýr. Lögreglan nemur líka þessi skilaboð, a.m.k. var haft eftir aðstoðarlögreglustjóranum í Þórshöfn að lögreglan hefði ekki sérstakar lagaheimildir til að vernda og verja samkynhneigða þegna landsins ef að þeim væri sótt með hótunum og ofsóknum. Er hægt að skilja ummælin á annan veg en þann, að samkynhneigðir Færeyingar njóti minni réttar en aðrir landsmenn?

Nú hefur enn verið lögð fram tillaga á færeyska þinginu um að bannað verði að mismuna fólki á grundvelli kynhneigðar. Sama tillaga var felld í fyrra með 20 ákvæðum gegn 12. Það er til marks um hversu skammt á veg Færeyingar eru komnir, að í athugasemdum með tillögunni er talin ástæða til að mótmæla þeim sérstaklega, sem vilja leggja samkynhneigða og barnaníðinga að jöfnu. Tillöguhöfundar segja réttilega að það sé bæði frumstætt og niðurlægjandi að setja samkynhneigða og barnaníðinga undir sama hatt.

Rannveig Guðmundsdóttir hefur að sjálfsögðu ekki móðgað færeysku þjóðina. Hún hefur hins vegar látið brýnt mannréttindamál til sín taka og ýtt duglega við færeyskum stjórnmálamönnum. Einu sinni þurftu íslenskir stjórnmálamenn dálítið spark í afturendann til að taka af skarið og tryggja samkynhneigðum mannréttindi. Þá var staðan hér á landi afskaplega lík þeirri sem uppi er í Færeyjum. Við snerum við blaðinu svo um munaði og það geta Færeyingar líka gert.

Mig grunar að almenningur í Færeyjum sé kominn miklu lengra en sumir stjórnmálamennirnir þar í landi halda. Að minnsta kosti var ánægjulegt að skoða færeyskar bloggsíður í gær, þar sem hver Færeyingurinn á fætur öðrum kvaðst skammast sín fyrir framgöngu stjórnmálamannanna: "Eisni haldi eg at tað er fúl skom at polittikarni i Føroyum standa fram og siga tað er loyvt at diskriminera samkynd!!!"

Og svona að lokum: Íslenzk-Føroysk orðabók, sem gefin var út af Hinu íslenzka bókmenntafélagi á síðasta ári, þýðir orðið samkynhneigð sem samkynd. Til a&
eth; ekkert fari nú milli mála hvað átt er við með íslenska orðinu er orðið "kynvilla" látið fylgja með. Kynvilla? Árið 2005? Ætli viðhorf sumra færeyskra stjórnmálamanna hafi fengið að ráða orðavalinu?

-Ragnhildur Sverrisdóttir

Copyright © Morgunblaðið 2006
Tilvitnun er öllum heimil sé heimildar getið

5,710 Comments

Skrifaðu athugasemd