1. Stjórnarfundur 2016

By 13. september, 2016mars 16th, 2020Fundargerðir, Stjórn

Fundinn sátu: María Helga Guðmundsdóttir formaður, Kitty Anderson alþjóðafulltrúi via skype, Álfur Birkir Bjarnason meðstjórnandi, Unnsteinn Jóhannsson varaformaður, Júlía Margrét Einarsdóttir ritari og Benedikt Traustason gjaldkeri. Einnig sat fundinn Auður Magndís Auðardóttir framkvæmdastýra.
Forföll boðaði: Guðmunda Smári Dísuson Veigarsdóttir meðstjórnandi.

Þriðjudaginn 13. september 2016 var haldinn fundur stjórnar Samtakanna ‘78 í húsnæði samtakanna að Suðurgötu 3 í Reykjavík.

Fundur settur kl. 12:07.

Auður mun fara á ráðstefnu í lok næstu viku (fimmtudag til mánudags) og stefnt er að því að stjórn dekki skrifstofuna á meðan.

1. Nígeríubréf

Tveir nígerískir menn koma til landsins brátt og sýslumaður hefur gefið út leyfi. Þá vantar boðsbréf (invitation letter) frá íslenskum aðila til að fá vegabréfsáritun til landsins frá norska sendiráðinu í Nígeríu. Annar þeirra hefur sent okkur afrit af öllum skjölum o.s.frv. Erindið barst fyrst til Pink Iceland sem segja að þetta líti út fyrir að vera allt með felldu en þau eru fyrirtæki og geta ekki gert svona bréf. Þeir áætla að koma hingað 28.október. Unnsteinn mun skoða þetta með Auði. Við verðum að ganga úr skugga um að það sé ekki hægt að herma upp á okkur að þeir hafi komið hingað á okkar vegum og við höfum verið að greiða fyrir komu fólks til landsins á röngum forsendum.

2. Iceland Airwaves og málun listaverks á gaflinn

Listamenn á vegum Iceland Airwaves hafa áhuga á að mála gaflinn á Suðurgötunni. Það er samþykkt af okkar hálfu. Nágrannar eru ekki á einu máli um það hvort málverkið fái að lifa að hátíðinni lokinni. Iceland Airwaves bjóðast til þess sjálf að mála aftur yfir þetta að hátíðinni lokinni. Unnsteinn hefur verið í sambandi við þau um þetta mál. Stjórn samþykkir að það sé vilji stjórnar að fá þetta listaverk á vegginn og að við munum skoða það að láta mála yfir það að hátíð lokinni.

3. Aðgerðaáætlun fram að vori

3.1 Ungliðahópur – styrkjasókn, viljum við sækja um til Rvk
Við erum að reyna að fá meira fjármagn fyrir að halda Hrefnu í yfirumsjón með ungliðastarfinu. Velferðarráðuneytið hefur beðið um og fengið fleiri gögn og fjárhagsáætlun en á enn eftir að svara. Þetta er í ferli hjá Reykjavíkurborg líka. Þau sýna þessu skilning en beina okkur inn á skammtímastyrki sem duga bara í nokkra mánuði. Ræddar eru leiðir til að afla frekara fjármagns.

3.2 Hugmynd framkvæmdastýru um áframhaldandi fjármögnun á stöðu fræðslustýru

Frestað fram á næsta fund.

3.3 Fimmtudagskvöldin, fyrirkomulag?

Mikilvægt er að við virkjum alla í utanumhald fimmtudagskvöldanna og að passa að það sé einhver skráður af fundinum. Gott væri að við tryggjum einhverja 6-8 aðila sem taka að sér fimmtudagskvöldin. Þá er einhver sem ber alltaf ábyrgð á að loka húsinu á kvöldin. Kitty hefur nú þegar þreifað fyrir sér og margir hafa lýst yfir áhuga. María mun bera það undir trúnaðarráð að taka þetta að sér.

3.4 Hlutverk og ábyrgð (UJ)

Unnsteinn sendi á okkur skjal sem við getum sett athugasemdir inn á varðandi hlutverk og ábyrgð stjórnarliða. Þetta skjal má gjarnan verða opinbert þegar það er fullunnið. Þannig getur fólk vitað hvað við erum búin að áætla hvert öðru. Ef einhver hefur mikla þekkingu á tilteknum málaflokki  getur sú hin sama verið talsmanneskja þess málefnis út á við.

3.5 Félagsfundur eftir tvær vikur? Og kall eftir áhugasömum í nefndir og ráð (UJ)

Við þurfum að kalla félaga saman aftur fljótlega til að halda samtalinu gangandi. Eftir ca tvær vikur væri gott að boða félagsfund og óskum eftir fulltrúum til að bjóða sig fram í nefndir og ráð. Lagt er til að við stefnum að því að halda félagsfundinn 6. október og við getum boðað hann í næstu viku með tveggja vikna fyrirvara.

Klukkan 12:50 bætist Guðmunda inn á fundinn via Skype.

3.6 Aðgerðaráætlun stjórnar sem opin verður öllum (UJ)

Við viljum gera almenna aðgerðaáætlun svo fólk geti fylgst með verkefnum okkar og markmiðum. Við munum kynna hana á félagsfundinum. Einnig munum við hérleiðis setja fundargerðir inn mánaðarlega.

Unnsteinn leggur til að við förum í ferðalag til Akureyrar, hittum HIN Hinsegin Norðurland og stjórnsýsluna þar, til dæmis til að ræða jafningjafræðsluna. 11-13. nóvember er helgin sem er lögð til í þetta mál.

3.7 Siðareglur (ÁB)

Ákveðið er að gera drög að siðareglum og leggja fyrir félagið á félagsfundi fljótlega. Siðareglur eru ræddar.

3.8 Húsnæðismál (MHG, GSV)

Guðmunda bendir á að það séu nokkrir hlutir varðandi viðhald, að gera fjárhagsáætlun og týna til það sem þarf að kaupa inn í húsnæðið td varðandi filmur í gluggana, glasagrindur, auka hillur og hægt væri að samþykkja það allt og að ekkert verði keypt án samþykkis. María leggur til að Guðmunda punkti þessa hluti niður svo hægt verði að senda póst á Fríðu með tillögunum og í leiðinni boðað hana á fund um húsnæðismálin. Guðmunda hringir í Fríðu og María sendir póst um framhaldið.

4. Mál hælisleitanda eru rædd

Hælisleitendur sem leitað hafa til okkar þurfa á félagslegum stuðningi að halda. Kitty hefur verið að gera þessháttar en hefur takmarkaðan tíma til að sinna því. Seinasta haust fór af stað hópur sem var að vinna í þessu máli en það hefur svolítið flosnað upp. Gott væri að setja þau mál aftur í farveg, auglýsa eftir fólki til að taka þátt í hælisleitendamálum. Við þurfum að kalla saman hóp sem er tilbúinn til að vinna í málinu. Það sem okkur vantar allra allra mest er félagsvinir.

Frekari umfjöllun um málefni hælisleitenda er færð í trúnaðarbók.

5. Fjármál og bókhald

Rætt var um bókhaldsmálin og næstu skref í þeim efnum.

Fundi slitið 13:11

529 Comments

Skrifaðu athugasemd