4. Stjórnarfundur 2015

By 1. júní, 2015apríl 8th, 2020Fundargerðir, Stjórn

Fundinn sátu: Hilmar Hildarson Magnúsarson formaður (HHM), María Rut Kristinsdóttir varaformaður (MRK), Aldís Þorbjörg Ólafsdóttir alþjóðafulltrúi (AÞÓ), Steina Dögg Vigfúsdóttir gjaldkeri (SDV), Jósef Smári Brynhildarson ritari (JSB), Kitty Anderson meðstjórnandi (KA), Matthew Deaves meðstjórnandi (MD) og Sesselja María Mortensen áheyrnarfulltrúi trúnaðarráðs (SMM).

Ár 2015, mánudaginn 1. júní kl. 17.00 var haldinn fundur stjórnar Samtakanna ‘78.
Jósef Smári Brynhildarson ritaði fundargerð.

1.Fjármál: Samningar við Reykjavíkurborg

Eftir viðræður um nýjan samning um þjónustu við Reykjavíkurborg, og í kjölfarið tilboð Samtakanna ‘78 til Reykjavíkurborgar, liggur fyrir lokatilboð frá borginni. Fyrir liggja drög að tveimur samningum fyrir árin 2015, 2016 og 2017. Annars vegar er um að ræða samning vegna fræðslu upp á 3,0 m.kr. á ári, og hins vegar samning vegna annarrar þjónustu upp á 2,0 m.kr. á ári. Alls er um tvöföldun upphæða að ræða frá núverandi samningi, úr 2,5 m.kr. í 5,0 m.kr. á ári.

Ljóst er að niðurstaðan er langt undir því tilboði sem samtökin höfðu gert borginni en engu að síður er um verulegan árangur að ræða, enda um að ræða tvöföldun framlaga. Stjórn hefur yfirfarið fyrirliggjandi samningsdrög og samþykkir eftirfarandi:

Samningur um fræðslu

Orðalagi verði breytt þannig að allir hópar hinsegin samfélagsins séu ávarpaðir. Engar aðrar efnislegar breytingar.

Samningur um aðra þjónustu

Breyta þarf orðalagi þannig að nái yfir allt hinsegin samfélagið. Intersex, asexual og pansexual verði bætt við í inngangi. Breyta þarf orðalaginu ‘kynhneigðarhroka’ til að vera meira inclusive . Starfshlutfall framkvæmdastjóra og fræðslustjóra verði lækkað úr 100% í 50%.

2. Starfsmannamál: Uppstokkun í starfsmannahaldi og ráðning nýs framkvæmdastjóra

Stjórn samþykkti með tölvupóstum þann 28. maí sl., að undangenginni ítarlegri umræðu, að veita formanni óskorað umboð til að ráðast í skipulagsbreytingar hjá félaginu. Greinargerð vegna þessa, sem jafnframt var samþykkt þann 28. maí sl., fylgir hér að aftan.

Í skipulagsbreytingum felst uppsögn framkvæmdastjóra frá 1. júní 2016 að telja og fræðslustýru frá 1. júlí 2016 að telja. Þá felst í breytingunum ráðning framkvæmdastjóra í fullt starf.

Formaður hitti framkvæmdastjóra sl. föstudag, 29. maí 2015, og afhenti honum uppsagnarbréf. Fræðslustýru var afhent uppsagnarbréf í dag, mánudaginn 1. júní 2015. Fræðslustýra var stödd erlendis fyrir mánaðamót og ræddi formaður við hana í síma um helgina, en formleg uppsögn beið dagsins í dag þegar formaður hitti framkvæmdastýru í eigin persónu. Greiðslur á uppsagnarfresti fræðslustýru taka því mið af þessu.

Framkvæmdastjóri og fræðslustýra njóta bæði 3ja mánaða uppsagnarfrestar, framkvæmdastjóri til og með 31. ágúst 2015 og fræðslustýra til og með 30. september 2015. Ekki verður farið fram á vinnuframlag á uppsagnarfresti, umfram eðlileg skil á gögnum og upplýsingagjöf.

Samþykkt að auglýsa í fullt starf framkvæmdastjóra, sem sinni bæði stjórnun og fræðslu, fyrir
5. júní 2015. HHM geri drög að starfslýsingu og auglýsingu í samvinnu við aðra stjórnarfulltrúa. Umsóknarfrestur verði til 19. júní 2015.

Skipulagsbreytingar hjá Samtökunum ‘78

Stjórn Samtakanna ‘78 veitir formanni samtakanna Hilmari Hildarsyni Magnúsarsyni fullt og óskorað umboð til að segja upp framkvæmdastjóra félagsins frá og með 1. júní 2015 að telja og fræðslufulltrúa félagsins frá og með 1. júlí 2015 að telja. Þá veitir stjórnin formanni umboð til að ganga frá starfslokum framkvæmdastjóra og fræðslufulltrúa hjá félaginu. Starfslok skulu gerð í samræmi við góðar venjur, almenn réttindi starfsfólks og skyldur félagsins skv. þeim samningum sem unnið er eftir. Uppsagnarfrestur er 3 mánuðir og gerir stjórn félagsins ekki ráð fyrir vinnuframlagi á þeim tíma, utan eðlilegra skila á gögnum o.fl. í samráði við formann.

Stjórn félagsins færir starfsfólkinu kærar þakkir fyrir framlag þeirra til félagsins og óskar þeim velfarnaðar við breyttar aðstæður.

Reykjavík, 28. maí 2015

Hilmar Hildarson Magnúsarson, formaður
María Rut Kristinsdóttir, varaformaður
Steina Dögg Vigfúsdóttir, gjaldkeri
Jósef Smári Brynhildarson, ritari
Aldís Þorbjörg Ólafsdóttir, alþjóðafulltrúi
Matthew Deaves, meðstjórnandi
Kitty Anderson, meðstjórnandi

Greinargerð

Að baki uppsögnunum liggja fyrirhugaðar skipulagsbreytingar hjá samtökunum sem stjórn hefur ígrundað vandlega og hefur nú ákveðið að ráðast í til að efla félagið og styrkja. Þetta er í samræmi við þá stefnu sem formaður setti fram á aðalfundi félagsins í mars, en þar boðaði hann m.a. tiltekt í innra starfi félagsins, endurskoðun á kjarnastarfsemi þess og mögulegar breytingar á starfsmannahaldi.

Skipulagsbreytingar ‐ ný 100% staða framkvæmdastjóra

Breytingarnar fela í sér að tvær 50% stöður framkvæmdastjóra og fræðslufulltrúa eru lagðar niður í núverandi mynd en í þeirra stað auglýst ein staða framkvæmdastjóra í fullu starfi. Nýtt starf mun gera breyttar kröfur til starfsfólks frá því sem nú er.

Aukin yfirsýn, drifkraftur, samfella og utanumhald

Stjórn félagsins er afar þakklát fyrir allt það frábæra fólk sem lagt hefur gott til félagsins í gegnum árin. Það er hins vegar mat stjórnar að núverandi fyrirkomulag, að launað starfsfólk félagsins sinni félaginu í hlutastarfi, takmarki nauðsynlega yfirsýn, samfellu og utanumhald verkefna. Þá náist ekki upp sú viðvera og drifkraftur sem nauðsynleg séu til að tryggja faglegt og kraftmikið starf við aðstæður þar sem þungi verkefnanna fer stöðugt vaxandi. Með breytingunum vonast stjórn til að tryggja góða yfirsýn, nauðsynlegan drifkraft, samfellu í starfseminni og utanumhald þeirra verkefna sem samtökin fást við.

Breyttar áherslur

Meginverkefni félagsins snúa einkum að hlutverki þess sem málsvara hinsegin fólks í opinberri umræðu, almennri hagsmunagæslu, m.a. gagnvart löggjafa og opinberum stofnunum, fræðslu um málefni hinsegin fólks, ráðgjöf og stuðningi við hinsegin fólk, vini þess og fjölskyldur, ungmennastarfi, sem og menningar‐, stuðnings‐ og félagsstarfi almennt. Stjórn samtakanna hyggst nú leggja aukna áherslu á þessa þætti.

Ný staða framkvæmdastjóra mun í meira mæli en hingað til fela í sér lykilþætti á borð við fjáröflun, daglegan rekstur, almannatengsl og hagsmunagæslu gagnvart löggjafa og öðrum stofnunum samfélagsins. Eins er gert ráð fyrir að framkvæmdastjóri hafi yfirumsjón með fræðslustarfi samtakanna. Þessar breytingar á eðli starfsins kalla á breyttar kröfur um hæfni og/eða menntun.

Nýtt starf auglýst ‐ horft til framtíðar

Stjórn Samtakanna ‘78 mun á næstunni auglýsa nýtt starf framkvæmdastjóra í samræmi við það sem nefnt hefur verið að framan. Að sinni verður ekki um fleiri launaðar stöður að ræða. Að því sögðu er það stefna stjórnarinnar að efla félagið áfram og vonandi bæta við starfskröftum, hvort sem um er að ræða í hlutastörfum eða heilum stöðum. Þar horfir stjórn til þess að geta notið krafta og þekkingar þeirra félaga sem komið hafa að starfinu undanfarin ár, m.a. á sviði fræðslumála og ungmennastarfs.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 19.00.

5,055 Comments

Skrifaðu athugasemd