6/10 2016 Fyrsti fundur stjórnar og trúnaðarráðs 2016-17

By 6. október, 2016Fundargerðir

Fyrsti sameiginlegi fundur stjórnar og trúnaðarráðs

Fundurinn var haldinn þann 6. október 2016 á Tacobarnum, Hverfisgötu, kl. 17:30.

Mætt voru:

  • María Helga Guðmundsdóttir, formaður
  • Unnsteinn Jóhannsson, varaformaður
  • Benedikt Traustason, gjaldkeri
  • Júlía Margrét Einarsdóttir, ritari
  • Kitty Anderson, alþjóðafulltrúi
  • Álfur Birkir Bjarnason, meðstjórnandi
  • Alda Villiljós, formaður trúnaðarráðs
  • Þórhildur Elínardóttir Magnúsdóttir, varaformaður trúnaðarráðs
  • Sólveig Rós, áheyrnarfulltrúi trúnaðarráðs í stjórn
  • Sigurður Júlíus Guðmundsson, varaáheyrnarfulltrúi
  • Erica Pike / Sigríður J. Valdimarsdóttir, kjörinn trúnaðarráðsfulltrúi
  • Lotta B. Jóns, kjörinn trúnaðarráðsfulltrúi
  • Jóhann G. Thorarensen, kjörinn trúnaðarráðsfulltrúi
  • Bryndís Ruth Gísladóttir, fulltrúi Félags hinsegin foreldra
  • Svanhvít Ada Sif Björnsdóttir, fulltrúi Trans Íslands
  • Brynjar Benediktsson, fulltrúi BDSM á Íslandi
  • Auður Magndís Auðardóttir, framkvæmdastýra

Dagskrá

  1. Hlutverk og samstarf stjórnar og trúnaðarráðs
  2. Aðkoma trúnaðarráðs að nefndum og starfshópum
  3. Fræðsla / samtal við frambjóðendur til Alþingis

María Helga setur fundinn og kynnir dagskrána.

1. Hlutverk og samstarf stjórnar og trúnaðarráðs

María kallar eftir hugmyndum frá trúnaðarráði um óskir, hugmyndir, vangaveltur, spurningar varðandi samstarf. Rætt er um nefndarstarf. Stjórn hefur lagt upp með að nefndirnar verði teknar föstum tökum á næstu mánuðum. Ástæðan fyrir tilurð þeirra er að svara kalli er að það sé betri aðgengi að þátttöku almenns félagsfólks í starfinu. Á félagsfundinum mun áhuginn á nefndunum ráðast en það er okkar hlutverk að sjá til þess að það verði virkni í þeim. 

María kynnir plan stjórnar varðandi félagsfund og kynnir aðgerðaráætlun stjórnar á starfsárinu.

Þjóðfundurinn er ræddur en hann hefur verið í undirbúningi síðan í síðasta trúnaðarráði. Rætt er um mikilvægi þess að hafa þjóðfundinn og hluta af starfinu aðgengilegt fyrir enskumælandi fólk svo þau hafi greiðari aðgang að starfinu og möguleika á að taka þátt.

Viðburðardagatalið hefur verið rætt og sú hugmynd sem hefur borist vefstjóra um að vera með viðburðadagatal á síðunni en því hefur ekki verið hrint í framkvæmd.

2. Aðkoma trúnaðarráðs að nefndum og starfshópum

Óskað er eftir aðkomu trúnaðarráðs að starfshópunum. María leggur til að trúnaðarráðs beiti sér í félagsmálanefnd þar sem hluti af ábyrð trúnaðarráðsins er að halda utan um félagsstarfið (td opnu húsin og jólabingóið). Unnsteinn mun kynna starfshópana á félagsfundinum og núþegar hafa borist framboð í hinar ýmsu nefndir en flest í starfshóp um málefni hinsegin eldri borgara. Samstöðuhópurinn mun hafa það hlutverk að stuðla að samstöðu, skipulagningu þjóðfundar ofl. Félagsmálanefndin mun sjá um opin hús, jólabingó og fleiri viðburði á vegum félagsins en þess má geta að búið er að bóka húsnæði fyrir bingóið svo húsnæði og tímasetning er nú þegar komið á hreint.

Lagabreytinganefnd hefur nú þegar verið sett á fót og einn fundur hefur átt sér stað. Í nefndinni eru sex manns og fjórir hafa lýst yfir áhuga á að taka þátt í því starfi. Ræddir eru mögulegir hnökrar á að hafa of marga sitjandi í slíkri nefnd og lagt er til að sérstaklega vel verði haldið utan um starfið svo að öllum verði gefið pláss, mögulega með skipun starfshópa innan nefndarinnar eða eitthvað slíkt.

Síðasti starfshópurinn, sem ég sérstaklega mikilvægur, er stuðningshópur fyrir flóttafólk og hælisleitendur. Til okkar leitar reglulega hópur sem er oft afar félagslega einangrað og það er okkar markmið að setja saman teymi sem getur sinnt þessum hópi félagslega. Núþegar eru þrjár til fjórar manneskjur starfandi í þessum hópi en það þarf meira mannafl til að bregðast við þörfinni sem hefur margfaldast á milli ára. Nefndin hefur verið að auka á það að ÚTL bendi á Samtökin og í kjölfarið ættum við að fá fleiri til okkar. Við þurfum til að geta sinnt markvissri vinnu að vera með um það bil 15 manna hóp.

María kallar eftir frekari hugmyndum að nefndum. Hugmynd kemur fram að það væri gott að setja á fót ritnefnd.

Almennt félagsstarf

Rætt er mikivægi þess að störf stjórnar séu aðgengileg trúnaðarráði og að fundargerðir séu settar á netið í tæka tíð. Einnig er hyggilegt að kynna að þær séu aðgengilegar á netinu svo fólk sé meðvitað um það og geti kynnt sér þá vinnu sem stjórn stendur í
hverju sinni. Einnig er talað um hve mikilvægt það er að það sé upplýsingaflæði á milli félaga og lagt til að ýtt verði undir trúnaðarráð sem vettvang til þess. Ræddar eru leiðir til að auka upplýsingaflæðið. Hægt væri að skerpa á þessu á félagsfundi til dæmis, hvaða nálgun væri heppilegust. Hægt væri að skoða leiðir til dæmis að kjósa stjórn til 14 mánaða í senn, tveggja ára, færa aðalfundinn fram í janúar eða aðrar leiðir til að upplýsingar skili sér alltaf til nýrra einstaklinga.

Rætt er mikilvægi þess að vera með fjölbreyttan vettvang til að hittast og hrista saman hóp hinsegin fólks, meðal annars með gönguhópum og fleiru sem sameinar fólk á félagslegum grundvelli.

Ferðin til Akureyrar

Þegar stjórnin tók við ræddum við leiðir til að ná til starfshópa og ræða hvernig gengi og við vildum nota nóvember til að hitta hagsmunafélögin, meðal annars HIN. Unnsteinn hafði rætt við HIN til að negla dagsetninguna en þegar plönin bárust í opið spjall trúnaðarráðs og stjórnar þá voru plönin ekki komin jafnlangt og leit út fyrir. Hugmyndin er að fara einnig með jafningjafræðara sem geta aðstoðað aðra jafningjafræðara til að vera með fræðslu fyrir norðan. Hugmyndin er að halda fundi og partý, hrista saman hópinn, fræðast af hvert öðru og skemmta okkur.

3. Fræðsla / samtal við frambjóðendur til Alþingis

Við höfum boðað opinn fræðslufund með frambjóðendum en við viljum minna á að við skiptum máli og eiga spjall við frambjóðendur fyrir kosningar. María hvetur trúnaðarráðsmeðlimi til að leggja höfuð í bleyti til að velta því fyrir sér hverju þau vilja skerpa á við frambjóðendurnar. Hugmyndin var að enda fundinn á lifandi bókasafni eða að hagsmunafélögin geti setið á borðin svo að ef frambjóðendur vilja kynna sér skilgreiningar eða að kynnast hagsmunafélögunum geta þau gert það. Þá geta fulltrúar hópanna komið fram og útskýrt fyrir frambjóðendum hver þau eru, hvaða hópi þau tilheyra og hvaða hindrunum þau standa fyrir sem fulltrúar hópsins í samfélaginu. Tillaga að dagsetningu er þri 25. október.

4. Önnur mál

Sólveig leggur til að fundarmenn ræði hvernig fulltrúar trúnaðarráðs myndu vilja sjá að áheyrnarfulltrúi trúnaðarráðs starfi. Hlutverk áheyrnarfulltrúa er rætt. Fundurinn sammælist um að áheyrnarfulltrúi tali máli trúnaðarráðs þar sem það á við, að fylgja annars sinni sannfæringu í umræðum og ákvarðanatökum og miðla upplýsingum til stjórnar. Rætt er hvort að hlutverk áheyrnarfulltrúa sé nógu skýrt í lögum, en fram kemur að hann hafi atkvæðarétt ef stjórn er ekki fullskipuð. Þar má segja að það sé túlkunaratriði hvort þar eigi við hvort það sé nóg að vanti einn meðlim á fundinn, eða einn til að mynda meirihluta til að fulltrúinn hafi atkvæðisrétt.

Fundi slitið 19:16.

Fundargerð ritaði Júlía Margrét Einarsdóttir.

 

One Comment

Skrifaðu athugasemd