Heimshornið: Hvað er að gerast á erlendum vettvangi

By 15. apríl, 2007Uncategorized

Í Viktoríufylki í Ástralíu stendur til að setja ný lög um bætt réttindi samkynhneigðra para ef frumvarp þess efnis verður samþykkt hjá þinginu. Sem stendur eru ekki til nein lög um staðfesta samvist (domestic partner registration) samkynhneigðra í Viktoríufylki frekar en í öðrum fylkjum Ástralíu utan einu, en Ástralía er heldur aftarlega á merinni hvað varðar réttindi samkynhneigðra almennt.

Staðfest sambúð er ekki leyfð í nema einu af átta fylkjum Ástralíu, hvað þá giftingar. Með lögunum gætu samkynhneigð pör skráð sig í sambúð sem tryggði bætt réttindi hvað varðar líf-og sjúkdómatryggingar, lífeyrissjóðsgreiðslur og eftirlaunasjóði, erfðaskrár, eignarréttindi og réttindi tengd ættleiðingum.

Eina fylkið í Ástralíu sem hingað til hefur viðurkennt slík réttindi er Tasmanía sem hefur haft slík lög frá því árið 2004, en til að geta skráð sig í staðfesta sambúð þarf að fara fyrir dómara sem gefur út vottorð sem staðfestir sambúðina. Slíkt hið sama yrði upp á teningnum í Viktoríufylki ef lögin fara í gegn.

Þrátt fyrir að hafa stutt frumvarpið á þingi er fylkisstjóri Viktoríu alls ekki á því að auka eigi réttindi samkynhneigðra enn frekar, heldur styður hann frumvarpið með þeim formerkjum að þetta yrðu full réttindi samkynhneigðra og er alfarið á móti þvi að leyfa giftingar samkynhneigðra. Þetta eru forsvarsmenn samtaka um bætt réttindi samkynhneigðra afar ósáttir við og telja að frumvarpið muni frekar skaða réttindabaráttu samkynhneigðra sé það sett fram á þennan hátt. Þeir sem leggi frumvarpið fram líti ekki á það sem skref í áttina að fullum mannréttindum, heldur sem endastöð og friðþægingu við ákveðinn þjóðfélagshóp. Slíkt sé engan veginn ásættanlegt og í raun móðgun við alla þá sem styðja bætt mannréttindi minnihlutahópa.  Heimild: www.gay.com/pantetout.comhttp://uk.gay.com/headlines/11337

Pistill þessi birtist í Fréttabréfi Samtakanna '78 í apríl 2007

4,277 Comments

Skrifaðu athugasemd