Hinseginlíf og hinseginbarátta í Háskóla Íslands

By 11. desember, 2009Fréttir

Námskeiðið Hinseginlíf og hinseginbarátta verður kennt á vormisseri 2010 í Háskóla Íslands. Í námskeiðinu er fjallað um líf og raunveruleika sam- og tvíkynhneigðra og transgender fólks á Íslandi, reynsluheim þeirra, baráttumál og menningu í sögulegu og alþjóðlegu samhengi. Tekið er á fjölmörgum málum frá margvíslegum hliðum, allt frá mannréttindabaráttu og löggjöf til sjálfsmyndar, sýnileika og fjölskyldugerða. Kynnt eru til sögunnar samkynhneigðarfræði og hinsegin fræði, hugtök eins og kyn og kyngervi, og ekki síst kynusli en barátta hinsegin fólks hefur átt ríkan þátt í að skapa ögrandi og frelsandi usla í samfélaginu. Menning og menningarsköpun hefur veitt hinseginbaráttunni í beinskeyttan farveg og eru því gerð skil í námskeiðinu.

 

Námskeiðið er meðal fastanámskeiða kynjafræðinar í HÍ, það hefur hefur verið kennt síðan 2003 og er nú kennt í fjórða sinn. Umsjónarkennari er Þorgerður Einarsdóttir, prófessor í HÍ og aðrir kennarar eru Þorvaldur Kristinsson bókmenntafræðingur, Þorgerður Þorvaldsdóttir sagnfræðingur og doktorsnemi í kynjafræði, og fleiri. Nánari upplýsingar hjá Þorgerði Einarsdóttur einarsd@hi.is, og á skrifstofu stjórnmálafræðideildar HÍ, stjornmal@hi.is, s. 525-4573.

5 Comments

Skrifaðu athugasemd