16. Stjórnarfundur 2015

By 18. nóvember, 2015mars 27th, 2020Fundargerðir, Stjórn

Fundinn sátu: Hilmar Hildar Magnúsarson formaður (HHM), María Rut Kristinsdóttir varaformaður (MRK), Júlía Margrét Einarsdóttir ritari (JME), Kitty Anderson meðstjórnandi (KE), Matthew Deaves alþjóðafulltrúi, Kara Ásdís Kristinsdóttir meðstjórnandi (KÁK) og Sesselja María Mortensen áheyrnarfulltrúi trúnaðarráðs (SMM). Einnig sat fundinn Auður Magndís Auðardóttir framkvæmdastýra (AMA).
Forföll: Steina Dögg Vigfúsdóttir gjaldkeri.

Ár 2015, miðvikudaginn 18. nóvember kl. 20.00 var haldinn fundur stjórnar Samtakanna ‘78 að Suðurgötu 3.
Júlía Margrét Einarsdóttir riitaði fundargerð.

1.Fundargerð síðasta fundar: Samþykkt og eftirfylgni

Fundargerð síðasta fundar samþykkt einróma.

2.Almennt félagsstarf: Félagsfundur um fjárhagsáætlun 2016 og umsókn BDSM

MRK tekur að sér fundarstjórn og HHM leggur fram fjárhagsáætlun á fundinum sem fer fram 24. nóvember nk. HHM hefur fengið einhver neikvæð viðbrögð vegna umsóknar BDSM Íslands um hagsmunafélagsaðild en leggur áherslu á að félagsfólk fái vandaða og góða kynningu og ráðrúm til að taka upplýsta afstöðu þegar greidd verða atkvæði um málið á aðalfundi skv. lögum félagsins.

3.Fjármál og félagatal: Fjárhagsáætlun 2016

Fara þarf í saumana á ýmsum smáatriðum í fjárhagsáætlun. Haldinn var góður og gagnlegur fjármálafundur í vikunni. Þar kom í ljós að útgjöld vegna launa höfðu verið ofáætluð, sem er jákvætt. Það stefnir í jákvæða rekstrarniðurstöðu ársins 2016 miðað við óbreyttar forsendur.

4.Fjármál og félagatal: Prókúra framkvæmdastýru

Stjórn undirritar skjöl til að veita framkvæmdastýru prókúruumboð vegna reksturs félagsins.

5.Almennt félagsstarf: Uppskeruhátíð sjálfboðaliða

Rætt um viðburðinn. Ákveðið að halda hátíðina 16. janúar kl. 19 og bjóða öllum virkum sjálfboðaliðum til kvöldverðar. AMA auglýsir viðburð og fær tilboð frá veisluþjónustum.

6.Ráðgjöf/Fjármál og félagatal: Greiðslur fyrir ráðgjöf

Rætt um mögulegar greiðslur skjólstæðinga vegna ráðgjafar eða frjáls framlög. Ráðgjafar hafa rætt þetta í sínum hópi og telja ákvörðun þurfi að vera stjórnar. Hingað til hefur verið talað um að ráðgjöfin sé “ókeypis upp að þremur skiptum” en veruleg aukning hefur verið í eftirspurn þótt enginn sé að óska eftir fleiri en þremur viðtölum. Ekki er um neinn vanda að ræða á þessu stigi en ljóst að miðað við mikla aukningu í eftirspurn og nýlega hækkun á þóknun til ráðgjafa gæti komið að því að eyrnamerkt fjármagn dugi ekki fyrir þjónustunni og bregðast þurfi við með einhverjum hætti. Samtökin eru skuldbundin til að bjóða upp á ókeypis ráðgjöf, t.d. í samningi við Reykjavíkurborg, en skoða þyrfti þá hvort mögulega mætti takmarka fjölda gjaldfrjálsra viðtala á hvern einstakling. Samþykkt að bíða með að aðhafast nokkuð þar til tölur liggja fyrir um umfang og kostnað við ráðgjöfina í lok árs.

7.Alþjóðamál: Rownosc í Póllandi ‐ ósk um fund og samstarf

Samtökin ROWNOSC (ísl. Jafnrétti) í Póllandi eru að undirbúa verkefni og sækja um verkefnisstyrk og óska eftir því að hitta fulltrúa Samtakanna ‘78 á kynningarfundi með mögulegt samstarf í huga. Samþykkt að kanna hvers eðlis málið er, hvort um sé að ræða EEA verkefni, og hvaða skuldbindingar séu fólgnar í þátttöku. AMA og MD fylgi eftir.

8.Húsnæðismál: Útleiga á sal og Gallerí 78

Sameiginleg niðurstaða er að nást með Gallerísfólki varðandi útleigu sals.
Listaverk eru nú tryggð fyrir bruna og vatni upp að einni milljón króna.
Tryggingar ná ekki til innbrota en listamenn geta tryggt sig sjálf gagnvart slíku.
Verðskrá útleigu: Hugmyndir hafa verið uppi um að láta félagsfólk njóta afsláttar af almennu leiguverði. Eins að félagar geti fengið rýmið gjaldfrjálst fyrir hinsegin starf, t.d. fræðslu. Rætt um ólíkar útfærslur varðandi greiðslur. Samþykkt framlögð tillaga framkvæmdastýru að gjaldskrá og skilmálum fyrir leigu:

Leiga á veislu‐ og fundarsal Samtakanna ´78

Leiga vegna veisluhalda:

Almennt verð: 50.000 kr.
Félagsfólk Samtakanna ´78: 35.000 kr.

Heimilt er að halda veislu til kl. 24.00 sunnudaga til fimmtudaga og til kl. 01.00 á föstudögum og laugardögum. Farið er fram á 20.000 kr. tryggingu sem endurgreiðist ef umgengni er góð og engar skemmdir hafa orðið á húsi eða munum.

Leiga vegna fundahalda:

1‐2 klst: 15.000 kr.
2‐4 klst. 25.000 kr.
Meira en 4 klst. per dag: 40.000 kr.

Leiga greiðist inn á reikning: 0513–26–78 kt. 450179‐0439.

Gjaldfrjáls afnot félagsfólks:

Félagsfólk getur pantað salinn ókeypis vegna hinsegin starfsemi, t.d. fræðsluviðburða og fundarhalda hinsegin hópa.

Innifalið í leigu/takmarkanir á notkun:

Sala á áfengum veitingum er ekki heimiluð í salnum. Innifalið í leigunni er skjávarpi, hátalari sem hægt er að tengja við síma eða annað tæki til að spila tónlist og nettenging.

Ábyrgð á umgengni og skemmdum:

Leigjandi hverju sinni er ábyrgur fyrir umgengni og skemmdum sem kunna að verða á húsnæði og munum Samtakanna ´78 af völdum gesta hans á því tímabili er hann hefur húsnæðið til umráða.

Reykingar eru ekki leyfðar í húsnæðinu. Húsbúnað og aðra muni sem tilheyra eldhúsi og sal er óheimilt að fjarlægja eða fá að láni.

Þrif og skil á húsnæði:

Leigutaki skal skila húsnæðinu á eftirfarandi hátt strax að loknum fundum, fyrir kl. 09.00 daginn eftir veislu sem haldin er sunnudaga til fimmtudaga, og fyrir kl.
11.00 daginn eftir veislu sem haldin er á föstudegi eða laugardegi:

● Raða stólum og borðum á sama hátt og komið var að þeim.
● Sópa gólf. Kúst má finna í skáp inni á stærra salerninu.
● Þurrka upp það sem helst hefur niður eða annað slíkt af borðum og gólfi.
● Skila leirtaui og eldhúsi hreinu. Það dugar að stafla munum í uppþvottavélina og vaska upp stærri muni.

9.Flóttafólk og hælisleitendur: Almenn umræða

Almennar umræður um málefni hælisleitenda.

10.Önnur mál

Minningarkort:

KÁK reifar möguleikann á því að útbúa minningarkort til styrktar Samtökunum ‘78 ‐ með svipuðum hætti og Geðhjálp og önnur félagasamtök hafa gert.

Flóttafólk og hælisleitendur:

KA skýrir frá yfirlýsingu varðandi hinsegin flóttafólk og hælisleitendur sem fyrirhugað er að birta í Aþenu. Verður dreift á stjórnarhópinn til yfirlestur/athugasemda og samþykkis.
Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 21.44.

417 Comments

Skrifaðu athugasemd