Viðamikil könnun Gallups í Evrópu – Meirihluti Evrópubúa hlynntir hjónaböndum samkynhneigðra

By 15. júlí, 2003Uncategorized

Samkvæmt skoðanakönnun Gallups er meirihluti Evrópubúa hlynntur því að hjónabönd samkynhneigðra para verði lögleidd. Meiri andstaða mælist gegn réttinum til ættleiðinga.

Í janúar á þessu ári (2003) lét Gallup í Evrópu framkvæma viðamikla skoðanakönnun um afstöðu Evrópubúa til réttinda samkynhneigðra. Er þetta fyrsta könnun sinnar tegundar sem nær til álfunnar allrar (reyndar var Ísland ekki með). Fimmtán þúsund manns frá þrjátíu ríkjum tóku þátt og eru niðurstöðurnar mjög athygliverðar. Spurt var:

1) Ert þú hlynntur eða andvígur því að hjónabönd samkynhneigðra verði lögleidd í allri Evrópu?
2) Ert þú hlynntur eða andvígur því að samkynheigð pör fái rétt til að ættleiða börn?

Þegar könnunin er greind niður eftir löndum kemur í ljós að íbúar í löndum Evrópusambandsins (ESB) eru almennt mun jákvæðari en íbúar þeirra landa sem standa fyrir utan sambandið. Rúmlega 57% íbúa ESB lýsa sig hlynnta hjónaböndum samkynhneigðra en aðeins 23% íbúa annarra Evrópuríkja. Jákvæðastir eru Danir og Hollendingar en rúmlega 80% þeirra eru fylgjandi. Þessi lönd skera sig nokkuð úr, en í ýmsum öðrum löndum svo sem Lúxembúrg (71%), Svíþjóð (68%), Belgíu (67%), Noregi (66%), Sviss (65%) og Þýskalandi (65%) er mikill meirihluti einnig hlynntur. Hins vegar er andstaðan á Kýpur (9% fylgjandi) og í Tyrkland(16% fylgjandi) veruleg. Kýpur mun fá aðild að ESB á árinu 2004 og Tyrkland hefur lýst yfir eindregnum vilja til að ganga í sambandið.

Þegar könnunin er greind niður eftir öðrum þáttum en þjóðerni kemur einnig ýmislegt athyglivert í ljós. Ungt fólk er til að mynda mun jákvæðara en þeir sem eldri eru. Þeir sem hafa háskólapróf eru að jafnaði jákvæðari í sinni afstöðu en þeir sem minni menntun hafa. Eins eru konur almennt jákvæðari en karlar og sterk fylgni er við lífsskoðanir svo sem trúarbrögð og stjórnmálaskoðanir. Þannig eru trúleysingjar og mótmælendur að jafnaði jákvæðari en kaþólikkar og múslimar. Að sama skapi eru þeir sem eru til vinstri í stjórnmálum almennt jákvæðari í garð samkynhneigðra en hægrimenn.

 

Viðhorf til ættleiðinga koma nokkuð á óvart

Þegar kemur að spurningunni um ættleiðingar þá er andstaðan ekki eins mikil og ef til vill mætti ætla. Í fjórum löndum er meirihluti hlynntur ættleiðingarétti til handa samkynhneigðum. Það eru Holland (64%), Þýskaland (57%), Spánn (57%) og Danmörk (54%). Mest andstaða er hins vegar á Kýpur (6% fylgjandi) og í Póllandi (10% fylgjandi). Í heildina eru 42% íbúa ESB hlynntir rétti samkynhneigðra til ættleiðinga en 55% eru á því mótfallnir.

 

Búast má við átökum á Evrópuþinginu á næstu árum

Á árinu 2004 munu tíu ný ríki fá aðild að ESB. Þau eru Eistland, Kýpur, Lettland, Litháen, Malta, Pólland, Slóvakía, Slóvenía, Tékkland og Ungverjaland. Þar sem andstaða við aukin réttindi samkynhneigðra er töluvert meiri en í núverandi aðildarríkum er fyrirséð að til átaka muni koma á Evrópuþinginu þegar slík mál verða tekin fyrir á næstu árum. Inn í þetta blandast að samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar þá er almenningur mun jákvæðari í löndum þar sem réttindabarátta samkynhneigðra er vel á vegi stödd eins og á Norðurlöndunum og í Hollandi.

Þess má geta að í febrúar árið 2000 kannaði Gallup á Íslandi afstöðu landsmanna til ættleiðinga samkynhneigðra. Í ljós kom að tæplega 53% Íslendinga eru þeim hlynnt en rúmlega 35% á móti. Afstaða Íslendinga til giftinga samkynhneigðra hefur hins vegar ekki verið könnuð síðan lögin um staðfesta samvist tóku gildi árið 1996.

Þau lönd sem nú eru í ESB eru: Belgía, Danmörk, Þýskaland, Grikkland, Spánn, Írland, Ítalía, Lúxembúrg, Holland, Austurríki, Portúgal, Finnland, Frakkland Svíþjóð og Bretland.

– Hrafnkell Tjörvi Stefánsson
 

4,815 Comments

Skrifaðu athugasemd