Aðalfundi lokið

By 3. mars, 2019Fréttir

Aðalfundur Samtakanna ’78 fór fram í dag, sunnudaginn 3. mars. Fundurinn kaus sér nýjan formann, nýja stjórn, nýtt trúnaðarráð, fór í gegnum fjárhagsáætlun ársins 2019, breytti lögum félagsins, samþykkti ársreikninga 2018, samþykkti umhverfis- og jafnréttisstefnu, sjálfboðaliðastefnu og að lokum var aðgerðaráætlun gegn ofbeldi kynnt, en nánar verður unnið að henni á næstu vikum.

Þorbjörg Þorvaldsdóttir var ein í kjöri til formanns og var hún því sjálfkjörin, ásamt henni voru kosin í stjórn Marion Lerner, Rósanna Andrésdóttir  og Sigurður Júlíus Guðmundsson, en fyrir eru í stjórn þeir Unnsteinn Jóhannsson og Rúnar Þórir Ingólfsson sem voru kjörnir til tveggja ára á síðasta aðalfundi. Tíu einstaklingar voru kosin í trúnaðarráð, þau eru: Agnes Jónasdóttir, Anna Eir Guðfinnudóttir, Bjarndís Helga Tómasdóttir, Edda Sigurðardóttir, Einar Þór Jónsson, Elísabet Rakel Sigurðardóttir, Erlingur Sigvaldason, Nicholas Pfosi, Sigtýr Ægir Kárason og Særós Rannveig Björnsdóttir.

Tvö félög voru samþykkt sem hagsmunafélög Samtakanna ’78, það eru Trans vinir – Hagsmunasamtök foreldra og aðstandenda transbarna og ungmenna á Ísland, og Ásar á Íslandi.

Þorbjörg tekur við formannsembættinu af Maríu Helgu Guðmundsdóttur sem hefur verið formaður Samtakanna ’78 frá 2016.

Þorbjörg lauk BA-prófi í almennum málvísindum frá Háskóla Íslands árið 2015 og MA-prófi í málvísindum frá Leiden University í Hollandi. Hún stundar nú doktorsnám í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands. Meðfram námi hefur hún starfað við aðhlynningu aldraðra, sem barþjónn, móttökustarfsmaður á hóteli og flugfreyja. Þorbjörg hefur setið í stjórnum nemendafélaga (Skólafélags Menntaskólans í Reykjavík og Mímis, félags stúdenta í íslenskum fræðum) og í framkvæmdastjórn Ungra jafnaðarmanna. Þorbjörg er kvænt Silju Ýr S. Leifsdóttur lífeindafræðingi og eiga þær eina dóttur, Valbjörgu Maríu tveggja ára. Þorbjörg er tvíkynhneigð.

„Samtökin ‘78 eru ein allra mikilvægustu félagasamtök á Íslandi. Á fjörutíu ára sögu félagsins hafa lífsgæði og réttindi hinsegin fólks tekið algjörum stakkaskiptum. Þökk sé þrotlausri baráttu búum við nú við lífsgæði sem voru nánast óhugsandi þegar Samtökin ‘78 voru stofnuð. Lagaleg staða okkar er ekki fullkomin – en mun betri – og það sem hefur kannski hvað mest áhrif á okkar daglega líf – almenningsálitið – er með okkur í liði. Það er ekki eftirsóknarvert að vera fordómafullur gagnvart hinsegin fólki í íslensku samfélagi nútímans. Þetta þýðir ekki að Ísland sé einhver hinsegin útópía; að við höfum náð fullkominni hinsegin fullkomnun og lifum í besta heimi allra heima. Því ofbeldi og mismunun gegn hinsegin fólki á Íslandi er staðreynd. En stundum er okkar helsta vandamál það að fólk áttar sig ekki á því hvenær það er fordómafullt og hvenær ekki.“

Sagði Þorbjörg í ræðu eftir að hún tók við embætti sem formaður Samtakanna ’78.

Fundargerð fundarins.

5,953 Comments

Skrifaðu athugasemd