Ástandið á Spotlight

By 23. janúar, 2002Uncategorized

Greinasafn – Saga og felagslif

Spotlight við Hverfisgötu hefur síðastliðin þrjú ár verið helsti skemmtistaður samkynhneigðra ásamt Mannsbar sem var og hét. Spotlight hefur alltaf höfðað meira til homma en til lesbía og hefur kvenfólkið yfirleitt talið það betri kost að skemmta sér á kvennakvöldum og Samtakaböllum. Spotlight hefur haft það orð á sér að vera dimm og drungaleg kjallarahola og þeir sem hafa séð staðinn að degi til í meiri birtu bera honum ekki vel söguna. Þó má búast við jákvæðum breytingum á húsnæðinu því að þegar þetta er ritað er verið að opna staðinn í nýjum húsakynnum. Á Spotlight hafa samkynhneigðir átt ýmsar ánægjulegar stundir síðustu ár og sumir dvalið þar margar helgar enda markaði opnun staðarins tímamót. Eigendur staðarins hafa líka veitt Hinsegin dögum í Reykjavík stuðning með því að halda böll þeim til styrktar.

Síðustu vikur og mánuði hefur maður þó heyrt að sífellt færri úr hópi samkynhneigðra fari á Spotlight til að skemmta sér. Sumir hafa jafnvel kosið að vera heima frekar en að fara út á lífið. Frábær mæting hommanna á Samtakaballið þann 28. desember ber vitni um að þeir kjósi frekar að skemmta sér á þeim vettvangi þegar tækifæri gefst en að fara á Spotlight. Undanfarið hefur gengið á með hrynu sagna um barsmíðar á Spotlight. Þetta er eitthvað sem hefur magnast og má segja að sé orðið verulegt vandamál núna.

Á þessum þremur árum, frá opnun staðarins, hefur hann breyst mikið ef vel er að gáð; reyndar eins og flestir skemmtistaðir borgarinnar í kjölfar flóðs fíkniefna. Í upphafi stunduðu nánast einungis samkynhneigðir staðinn því að fáir aðrir höfðu dug í sér til að fara á yfirlýstan “gay stað”. Svo hefur sífellt fleira fólk, sem skilgreinir sig sem gagnkynhneigt, farið að stunda staðinn. Mikið til eru þetta unglingar sem stundað hafa teknóstaði bæjarins og hafa undir það síðasta haldið til á Kaffi Thomsen. Spotlight er nú umtalaður sem teknóstaður og að þar fari fram mikil fíkniefnaneysla. Áfengis- og fíkniefnaráðgjafar hafa haft þetta á orði við mig auk nokkurra sem neyta þessara efna sjálfir. Virðist ástandið á Spotlight haldast í hendur við minni aðsókn að öðrum teknóstöðum, aukins innflutnings á fíkniefnum og fækkun samkynhneigðra á staðnum. Ástandið einkennist af spennuþrungnu og brothættu andrúmslofti sem endar stundum í slagsmálum. Hér eru saman komnir tveir hópar sem passa hvað verst saman. Annar hópurinn er fyrirferðarmeiri vegna áfengisdrykkju og hinn er uppstökkari og árásargjarnari vegna fíkniefnaneyslu. Auðvitað er flest fólkið hið rólegasta en inn á milli eru öfgarnar sem auðveldlega smita andrúmsloftið svo ekki verður hjá komist að finna það í stemningunni. Af skemmtistöðum höfuðborgarinnar tel ég ástandið vera hvað verst á Spotlight um þessar mundir og vera mjög alvarlegt.

Síðustu viku hef ég rætt við og frétt af sex samkynhneigðum strákum eða mönnum sem hafa verið lamdir inni á Spotlight nýlega. Við þetta bætist að tveir af kunningjum mínum hafa verið lúbarðir og einn kýldur inni á staðnum. Það er undarlegt hvað maður hefur lokað augunum fyrir þessu ástandi og oft kennt ölvuðum hommum um meginhluta ástæðu atburða. Þá fljúga um hugann setningar eins og: „Hann hefur reynt við einhvern gagnkynhneigðan strák“, „hann er alltaf svo fullur“, „hann man varla eftir þessu og hlýtur því að hafa átt upptökin“ og „hann getur sjálfum sér um kennt með því að reyna við þessa e-pillu-stráka“. En auðvitað er enginn í meiri rétti að lemja fullan mann en ófullan. Ofbeldi er ólöglegt og varðar við hegningarlög. Einnig gefur auga leið að þó að menn fari á fjörurnar við stráka sem reynast gagnkynhneigðir þá er það engin réttlæting fyrir ofbeldinu. Menn virðast stundum gleyma því að hér er um að ræða stað sem hefur verið yfirlýstur staður fyrir samkynhneigða og þar eru hlutirnir oft hinsegin. Hér áður fyrr hékk orðsending til gesta í anddyrinu sem tiltók forsendur staðarins og var fólk beðið um að sýna samkynhneigðum háttvísi og virðingu. Ég tel að kominn sé tími til að slík orðsending sé hengd upp á nýjan leik.

Hið sorglega við þetta er að fórnarlömb ofbeldisins kenna sjálfum sér oft um hvernig fór af fyrrgreindum hugsunum. Oftast fara þeir leynt með þetta, skammast sín og kæra slíkt sjaldnast. Þeir eiga erfitt með að stíga það skref að fara til lögreglunnar og gefa skýrslu. Oftast heyri ég afsakanir eins og: „Ég man ekki hver þetta var“, „þeir eru svo margir og lemja mig þá næst“, „ég var heppinn því þetta hefði geta farið mun verr“, „ég veit ekki um nein vitni“ og „þeir láta bara einhverja vini sína ljúga fyrir sig um atburðarásina“. Svo eru líka til þeir sem leyna samkynhneigð sinni fyrir fólki í daglegu lífi og geta ekki sagt lögreglunni að þeir séu samkynhneigðir. Þetta eru ekki gildar ástæður til að sleppa því að tilkynna verknaðinn né að kynna sér rétt sinn. Þetta eru hins vegar eðlilegar hugsanir fólks sem reynir að halda geði með því að afneita alvarleika málsins og þeirri niðurlægingu sem það hefur orðið fyrir. Slík lífsreynsla sækir þó oft seinna á fólk þegar það fer að taka á vandamálinu fyrir alvöru; jafnvel mánuðum eða árum síðar þegar lítið er hægt að gera í málinu. Þá getur fólk séð eftir því að hafa ekki aðhafst neitt í málinu og aðgerðarleysið er þá orðið mesta eftirsjáin.

Ég hef sjálfur sögu að segja frá því hvernig ástandið er á Spotlight. Það var í byrjun desember að ég og kærasti minn fórum þangað. Ég hafði ekki drukkið áfengi um kvöldið en kærasti minn hafði hins vegar gert það. Andrúmsloftið var spennuþrungið og óþægilegt. Maður tekur sérstaklega vel eftir þessu þegar maður er edrú. Andrúmsloftið er ólíkt því sem var á Veitingastaðnum 22 á sínum tíma enda var það annars konar hópur sem skemmti sér þar með samkynhneigðum. Átök kvöldsins byrjuðu á því að tveir aðilar slógust á gólfinu eftir að annar braut bjórglas á hinum. Ég sá ekki hvernig þetta byrjaði en það skiptir ekki mestu máli í þessari frásögn. Gestir staðarins hörfuðu frá og fylgdust með dyragæslunni skakka leikinn. Nokkru síðar sá ég aðra tvo menn slást rétt við dansgólfið en það leystist með hjálp vina sem stöðvuðu átökin áður en dyragæslan kom. Þriðja atvikið þetta kvöld var þegar kærasti minn lenti í pirringi og smá átökum við stelpu á dansgólfinu. Hann hraðaði sér þaðan og sá ég hana elta hann. Ég sá að hér gæti eitthvað verið í uppsiglingu og elti hana því. Þegar stelpan svo nálgaðist hann og gerði sig líklega til að slá til hans náði ég að grípa í handlegg hennar og halda aftur af henni með því að halda í báða handleggina. Stúlkan brjálaðist og reyndi að rífa sig lausa. Þegar ég sleppti henni þá horfði hún á mig með hatursaugum, hrifsaði gleraugun skyndilega af mér og henti þeim út í mannfjöldann. Hún hljóp svo í burtu og þurfti ég nú að velja á milli þess að elta hana eða finna gleraugun. Ég ákvað að leita að gleraugunum og fyrir ótrúlega tilviljun fann ég þau eftir að hafa gripið í tómt á nokkrum stöðum í dansandi fjöldanum. Þau voru óbrotin en þó öll bogin. Stuttu síðar kom einhver vinur stelpunnar, hótaði að lemja okkur og var reyndar með tilburði til þess. Var það greinilega gert til að sýna okkur að ekkert þýddi að gera. Ég fór til eins dyravarðanna og sagði honum frá atburðinum. Svar hans var að ef ég vildi aðhafast eitthvað í málinu þyrfti ég að gera það utan skemmtistaðarins. Ég spurði hvort hann gæt
i hjálpað mér að komast að því hvað stelpan héti en hann svaraði því neitandi. Ekki vildi hann heldur neitt fyrir mig gera þegar ég sagðist vilja krefja hana um að borga mér skemmdirnar. Við þetta fauk svo í mig að ég ákvað að hingað skyldi ég ekki koma aftur að óbreyttu.

Frásagnir sem þessar eru orðnar óteljandi og hefur maður gleymt þeim mörgum. Það sem svíður líka mest er að manni finnst maður ekki lengur vera staddur á skemmtistað fyrir samkynhneigða. Dyravörðunum er farið að standa á sama og fleygja hverjum þeim út sem lendir í átökum. E.t.v. er það skiljanlegt því þarna eru slagsmál orðin daglegt brauð og erfitt getur verið að sætta fólk eða komast að sannleika málsins. Þeir sópa því vandamálunum af staðnum út á göturnar. Reyndar er dæmi um að drukknum homma hafi verið hent út eftir að vera laminn þó að hann hafi ekki átt sökina en hinum sem ofbeldið stundaði hafi verið leyft að vera áfram því að hann þekkti dyravörðinn.

Það má með réttu segja að á skemmtistöðum bæjarins sé starfrækt einkarekin löggæsla því hún er ekki í höndum opinberra aðila. Þar taka dyraverðir iðulega ákvaðanatökur í skyndi til að leysa vandamál. Um þessar mundir eru starfrækt eitt eða fleiri fyrirtæki sem sérhæfa sig í dyravörslu skemmtistaða. Dyraverðir slíkra staða bera ekki ábyrgð á vinnu sinni gagnvart eiganda skemmtistaðarins heldur öðrum fjarlægum aðilum. Venjulega hafa eigendur skemmtistaða vald til að reka dyraverði ef þeir standa sig ekki í vinnu en það gildir ekki um þá staði þar sem gæslan er í höndum annars fyrirtækis. Dyraverðir sem vinna hjá slíku vörslufyrirtæki geta einnig unnið samtímis á mörgum skemmtistöðum. Þá er líka ljóst að dyraverðirnir mynda ekki eins góð tengsl við staðinn, eigendur hans né gesti. Þessir löggæslumenn hljóta ekki þá þjálfun sem lögreglumenn fá í Lögregluskólanum og ekki veit ég til þess að neitt sérstakt eftirlit sé með vinnubrögðum þeirra af hendi hins opinberra. Engin lög fjalla um starfsemi þeirra sem svipar til þeirra laga sem lögreglumenn verða að hlíta.

Orðspor starfstéttarinnar er heldur ekki jákvætt. Rekstaraðilar gæslufyrirtækjanna hafa lent upp á kant við lögin og fyrir nokkrum misserum var fár í fjölmiðlum vegna vafasamra vinnuaðferða þeirra. Dyraverðir hafa verið verið ásakaðir og dæmdir fyrir að skaða gesti skemmtistaða af ásetningi. Í slíku nýlegu tilfelli var dyravörður m.a. dæmdur fyrir að höfuðkúpubrjóta mann. Nú vakna upp spurningar sem varða ráðningar þessara manna. Hvaða kröfur eru gerðar til þeirra? Eru þarna menn sem ekki komast í vinnu hjá Lögreglunni og hafa jafnvel fengið neitun um vinnu þar? Að mínu mati er þessi þróun varhugaverð og reyndar stórhættuleg.

Kann að vera að dyragæsla Spotlight sé nú í höndum eins þessara dyragæslufyrirtækja? Fólk talar um að það þekki ekki lengur dyraverði staðarins og að þeir séu orðnir kaldranalegri við gestina. Til dæmis sagði vinur minn mér frá samtali sem strákur einn, sem var á leið út af Spotlight, átti við dyravörð. Strákurinn kvartaði yfir því að ?einhver hommi? hefði reynt við sig og sagði að réttast væri að henda hommunum út af staðnum. Dyravörðurinn svaraði því til að strákurinn þyrfti að segja sér hverjir þetta væru svo hann gæti vísað þeim út. Í þessum svörum endurspeglast einfaldlega fyrirlitning og kunnáttuleysi. Það er e.t.v. ekki undarlegt að ráðist skuli vera á samkynhneigða þegar gestir staðarins vita þessa afstöðu dyravarðanna. Þar sem löggæsla er slök er hættara við að glæpir séu framdir og það virðist einmitt einkenna Spotlight um þessar mundir. Svona fólk má ekki sjá um gæsluna á skemmtistað fyrir samkynhneigða. Ég skil ekki eigendur að láta þetta viðgangast. Ef reyndin er sú að annað fyrirtæki sjái um dyragæsluna þá ráðlegg ég eigendum Spotlight eindregið til að endurskoða fyrirkomulag dyragæslunnar. Í stað þess að líta framhjá vandanum er betra að leita samstarfs við Lögregluna

Skemmtistaðurinn Spotlight er að flytja í nýtt húsnæði þegar þetta er ritað og það má vera að þar muni ríkja nýjar áherslur og nýr starfsandi. Rekstraraðilum gefst a.m.k. gott tækifæri til að skerpa áherslur sínar og hvetja samkynhneigða til að leggja leið sína á Spotlight á nýjan leik. Ég vona að samkynhneigðum verði tryggður skemmtistaður þar sem þeir geta notið virðingar en ekki haturs fyrir það sem þeir eru. Dyragæslan og yfirlýst stefna staðarins skiptir þar verulegu máli. Aukið öryggi um að verða ekki fyrir áreiti og ofbeldi er forsenda fyrir því að menn sæki staðinn. Ég vona að eigendur sjái hag sinn í því að gera vel við samkynhneigða og bjóða þá velkomna á staðinn með traustri gæslu.

5,733 Comments

Skrifaðu athugasemd